28.04.1977
Efri deild: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

161. mál, heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég er einn af þeim nm. í hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. sem hafa undirritað nál. sem hér liggur fyrir og ég ætla ekki að ganga frá undirskrift minni í sambandi við þá ákvörðun sem tekin er í þessu nál. En í sambandi við þetta mál þykir mér þó hlýða að það komi til bókunar, að þó að ég persónu­lega sé ekki málsvari ríkisrekstrar í einu formi eða öðru, þá er mér svolítið til efs að við séum að gera rétt með samþykkt þessa frv. Byggist þetta álit mitt á því, að ég hef haft og hafði um margra ára skeið nokkuð mikið samband við starfsmenn Tunnuverksmiðja ríkisins, annaðist nokkuð erindrekstur fyrir síldarútvegsnefnd í sambandi við þá verksmiðju, sem rekin var á Akureyri, og mér er málið þess vegna allvel kunnugt. Og það er þá skemmst frá því að segja, að það er skoðun mín, og þar tala ég af reynslu, að á Siglufirði hafi myndast alveg einstök að­staða til tunnuframleiðslu í landinu, sem hvergi var að finna annars staðar, og þar á ég við að þar hafði þróast alveg sérstaklega hæfur mann­skapur, sem hvergi virtist vera fáanlegur og hvergi virtist vera hægt að venja svo við þessi störf að viðunandi væri nema á Siglufirði. Það var rekin tunnuverksmiðja á Akureyri í fjölda­mörg ár. Þar fengust aldrei sömu afköst og á Siglufirði eða sömu gæði. Ég hef ekki skýringar á hendi á hverju þessar staðreyndir byggjast, en þetta er samt sem áður staðreynd sem ekki verður hrakin.

Fróðir menn segja mér að þrátt fyrir það að á síðari árum hafi það mjög vaxið að vélvæða í sambandi við framleiðslu á tunnum, þá sé samt sem áður svo, að það sé eitthvað í því fagi sem sé einstaklingsbundið og fari eftir hagleik manna og starfsvenjum og hæfni hvernig tekst til með þessa framleiðslu. Nú vitum við allir hvernig ástandið var. Síldin hvarf alveg frá landinu. Við hættum alveg að stunda þennan iðnað eða þennan atvinnuveg að salta síld. Þá var það náttúrlega ekki nema að vonum að menn freistuðust til þess í vandræðum, sem sköpuðust út af þeim miklu breytingum sem urðu á atvinnuháttum fólks og þá sérstaklega á stöðum sem höfðu byggt afkomu sína í jafnríkulegum mæli og siglfirð­ingar á síldarvinnslu, að nota slíka aðstöðu eins og Tunnuverksmiðjurnar höfðu komið sér upp á Siglufirði til annarra hluta. En nú þegar við erum byrjaðir í allstórum stíl að framleiða salt­síld til útflutnings, þá kemur í huga manns að það er ekkert smáræðis fjárhagslegt atriði hvort tunnurnar undir þessa mikilvægu framleiðslu eru framleiddar hér á landinu eða keyptar inn og fluttar hingað. Og ég vil láta það koma fram, að ég held að sú ráðstöfun, sem felst í samþykkt og framkvæmd þessa frv., verði til þess að a. m. k. um ófyrirsjáanlegan tíma verði ekki tekin upp tunnuframleiðsla hér á landi, og slíkt tel ég miður að mörgu leyti. Ég geri ekki ýkjamikið úr því, þó að síldin nú um tíma hagi sér þannig að mest af henni veiðist við suðausturhorn landsins, á stöðum sem eru fjær Siglufirði en var í gamla daga, á hinum góðu, gömlu síldarárum sem okk­ur er tamt að tala um. Það er ekki óyfirstígan­legur erfiðleiki að koma tunnunum á rétta staði. Við skulum ekki gleyma því, að þeir flutningar, sem fylgdu í kjölfarið, sköpuðu líka atvinnu­umsvif og hagstæð viðskipti fyrir marga. En það er komið sem komið er og við stöðvum ekki þessa rás viðburðanna. Aðeins vildi ég láta þess­ar hugleiðingar koma fram, um leið og ég lýsi því yfir að ég mun standa við undirskrift mína á fyrrgreindu nál. og fylgja frv.