28.04.1977
Efri deild: 71. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

161. mál, heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér ekkert undrandi á hugleiðingum hv. þm. Jóns Sólness og óskum hans um að tunnu­smíði verði ekki með öllu lögð niður hér á landi. Ég efast ekki heldur um að hrósyrði hans í garð siglfirskra starfsmanna Tunnuverksmiðjanna eiga sannarlega fyllsta rétt á sér og staðreynd er, að meðan þessi starfsemi var í fullum gangi gekk hún vel og sjálfsagt betur en sums staðar annars staðar. Þessi starfsemi var erfið á marg­an hátt, vinnan mjög erfið. Það var geysimikill hávaði í þessari verksmiðju, meiri en ég get í­myndað mér að sé leyfilegur nú orðið. Þetta var því ekki sérlega vinsæl vinna. En atvinnuleysi var líka löngum mjög mikið á Siglufirði og menn urðu að taka það sem í boði var. Vinnu­tími á hverju ári var tiltölulega skammur. Oft stóð þetta ekki nema kannske tvo mánuði á miðjum vetri á Siglufirði, sérstaklega á seinni árunum þegar ekki var neitt verulegt magn af síld sem var saltað. Þetta var kannske dálítið annað á miðjum seinasta áratug. En ég á við að á árunum 1970–1973 voru það ekki nema tveir til þrír mánuðir sem verksmiðjan var í gangi og var sjálfsagt óhugsandi að finna annars staðar hæfan mannskap til að vinna þetta verk en ein­mitt í þessum atvinnuleysisbæ.

En nú er langt um liðið síðan þetta var. Þarna hefur engin tunna verið smíðuð í ein fjögur ár og aðstæður eru því gerbreyttar. Allir hafa nóg að starfa. Mannskapurinn, sem við þetta var, er sundraður í allar áttir, sjálfsagt ýmsir fluttir á brott, aðrir komnir á þann aldur að þeir eru hættir að vinna að slíkum störfum og þriðji hópurinn kominn í önnur störf, og ég er sann­færður um að það væri afar erfitt fyrir síldarút­vegsnefnd að reyna að hefja tunnuframleiðslu á þessum stað á nýjan leik. Þetta er að sjálfsögðu bakgrunnurinn fyrir því, að verkalýðsfélagið á staðnum, sem löngum leit á þessa tunnuverk­smiðju sem einn af hornsteinum atvinnulífsins á Siglufirði, leyfir sér að mæla eindregið með því að tunnuframleiðslu verði hætt á Siglufirði.

Í þessu sambandi er kannske rétt að kynna hér hver var skoðun síldarútvegsnefndar á þessu máli, af því að ég kynnti það ekki í framsöguræðu minni. Ég ætla að lesa hér bréf síldarútvegsnefnd­ar um þetta mál. Samþykkt var með öllum atkv. að veita eftirfarandi umsögn:

„Síldarútvegsnefnd hefur haft til athugunar frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Húseiningum hf. á Siglufirði húseignir Tunnuverksmiðja ríkisins þar í bæ. Síldarútvegsnefnd hefur um árabil verið þeirrar skoðunar, sem er byggð á margra ára reynslu, að nauðsynlegt sé að aðstaða til tunnusmíði sé fyrir hendi í land­inu, svo að landsmenn séu ekki algerlega háðir erlendum framleiðendum um tunnukaup fyrir vaxandi atvinnugrein, eins og vænta má að síld­arsöltun verði á komandi árum. Tunnuverksmiðj­an á Siglufirði er sú eina sinnar tegundar í land­inu. Þrátt fyrir þetta vill síldarútvegsnefnd ekki leggjast gegn umræddri sölu, en undirstrikar jafnframt að sú afstaða er á því byggð, að sölu­verð umræddra húseigna gangi til byggingar nýrr­ar umbúðaverksmiðju eða annarra nauðsynja­framkvæmda í þágu saltsíldarframleiðslunnar samkv. nánari ákvörðun síldarútvegsnefndar, enda hefur saltsíldarframleiðslan ein staðið und­ir byggingarkostnaði húseigna Tunnuverksmiðja ríkisins. Að sjálfsögðu telur síldarútvegsnefnd eðlilegt að hún sjái um sölu eignanna í samráði við ríkisstj.

Eins og hér kemur fram telur síldarútvegsnefnd eðlilegt að þessi framleiðsla sé að einhverju marki áfram hér í landinu, en það er bersýnilegt að n. telur hyggilegra að þessi verksmiðja verði í öðrum landshluta en á Siglufirði.