28.04.1977
Efri deild: 73. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3880 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

21. mál, leiklistarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fagna því, að þetta frv. er komið frá n., og þakka hv. formanni menntmn. fyrir að hafa veitt því brautargengi og n. allri. Það er að vísu orðið áliðið og ekki svo sem víst enn þá hvort þetta frv. nær fram að ganga eða ekki. En þó fagna ég því að hafa séð það á lista ríkisstj. yfir þau mál sem eiga að ná fram að ganga ef stjórnarand­staðan setur ekki óhóflega andstöðu þar á móti, og í þessu tilfelli er það mér mikil ánægja að þessi ótvíræði stuðningur við áhugaleikfélögin skuli vera samþykktur hér í Ed. og ég vona í Nd. einnig. Ég vona sem sagt að í Nd. verði það ekki uppi á teningnum, að það verði farið að reyna að tengja þetta frv. um Þjóðleikhús, eins og löngum hefur verið reynt að gera, því að hér er um algerlega óskyld mál að ræða.

Áhugaleikfélögin starfa nú með sérstakri grósku. Það er sérstök gróska í starfsemi þeirra, og þetta frv. er alveg sér í lagi mikil og ótví­ræður stuðningur við þau og sérstaklega varð­andi aukin áhrif þeirra á stefnumótun í leik­listarmálum og í ýmsum þeim öðrum efnum sem koma leiklistinni í landinu til góða. Ég benti á það við 1. umr., að mér þætti æskilegt ef inn í verkefni eða hlutverk leiklistarráðs kæmi kynning á íslenskum leikverkum erlendis. Ég tel hins vegar að undir 4. lið þessarar greinar geti þetta hlutverk fullkomlega flokkast, þ. e. a. s. að sinna öðrum verkefnum í þágu leiklistar í sam­ráði við menntmrn. Ég vona að það verði þannig í framkvæmd.

Það vaknar auðvitað spurning í sambandi við þetta frv. um ýmis þau leikhús eða aðila sem fá ekki beina styrki frá sveitarstjórnum. Mér dettur þar í hug hið margumtalaða Alþýðuleik­hús, Brúðuleikhúsið og fleiri slíka. Ég held að 2. gr., ef hún er ekki mjög strangt túlkuð, komi ekki í veg fyrir það að hægt sé að veita styrki til þessara aðila, sbr. 4. tl. í 2. gr.: Til almennrar leiklistarstarfsemi. Það hlýtur að flokkast þar undir. Auk þess held ég að leiklistarráðið geti þarna komið með nánari skilgreiningu og tryggt að þessir aðilar sitji við sama borð og njóti jafnréttis.

Það er rétt að taka það enn þá fram, vegna þess að það hefur verið svo oft um það talað, að þó að svona fjölmennt leiklistarráð sé sett á stofn, þá hefur það í för með sér sáralítinn kostnað, því að leiklistarráðið er ólaunað, en greiða skal þóknun aftur fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna vegna fundarsetu. Það kemur aðeins saman til fundar einu sinni á ári, en hins vegar er þarna þriggja manna framkvæmdastjórn. Ég fagna þessu sér­staklega vegna þess að áhugafélögin í landinu eru nú orðin það mörg, að ég sé að þau eignast 7–8 fulltrúa í þessu leiklistarráði og koma þar hiklaust til með að hafa áhrif á hina þriggja manna framkvæmdastjórn í þessum efnum. Það er líka full og rík ástæða til að þessi félög, sem starfa á áhugagrundvelli, með ólaunuðum starfs­kröftum með öllu, fái aukin áhrif á leiklistarmál í landinu almennt.

Hitt er svo annað, sem rétt er á að benda, að þessi lög segja ekkert til um aukinn fjár­hagslegan stuðning beint við áhugaleikfélögin. En hér er góður grunnur á að byggja ef rétt er að staðið. Ég get þó ekki stillt mig um að minna enn einu sinni á það, hvílíkt ósamræmi er hér á hlutunum t. d. í fjárl. þessa árs, þegar Þjóðleikhúsið er með sínar 260 millj. á meðan öll áhugaleikfélögin í landinu, nálægt 70 að tölu, eru með 6.5 millj. Nægir það þeim ekki líkt því til þess að standa undir leikstjórnarkostnaði, sem er þó sá kostnaður sem óhjákvæmilega leggst á þessi félög. Ég hygg að það láti nærri, að það sé 1/3 af þeim kostnaði sem þau fá greiddan í dag.

En hér er um góðan grunn að ræða, og ég endurtek þakkir mínar til formanns menntmn. og annarra þeirra nm. sem hafa að mínu viti tryggt að þetta frv. nái nú fram að ganga og hægt sé að fara að vinna að þessu máli á þeim grunni sem hér er gert ráð fyrir.