28.04.1977
Efri deild: 73. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

21. mál, leiklistarlög

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Vegna þess, sem fram kom hjá hv. 12. þm. Reykv., vil ég taka fram eftirfarandi:

Varðandi tónlistarskólana, sem hann kom inn á, þarf viðkomandi sveitarstjórn að samþykkja tónlistarskóla til þess að hún sé skyld til þess að bera kostnað af honum. En varðandi þetta ákvæði, sem hér er, er aðeins um mun að ræða frá því sem er í gildandi lögum. Munurinn er sá, og það er vissulega meiningarmunur í því efni og ég skil vel afstöðu hv. þm. sem sveitar­stjórnarmanns, að í dag er það þannig að ríkið greiðir ekki nema jafnháa upphæð á móti sveit­arfélögunum. (Gripið fram í.) Já, samkv. þessu. En sérstaklega vil ég taka fram vegna Reykja­víkurborgar, að ég hygg að raunin hafi verið sú, að það hafi verið fremur erfitt og kannske miklu erfiðara að knýja fram fjárveitingar frá fjvn. til jafns við hið geysilega mikla framlag frá Reykjavíkurborg. Þetta á alls ekki við um önnur sveitarfélög, en alveg sérstaklega um Reykja­víkurborg, því að Reykjavíkurborg hefur styrkt leiklistarstarfsemina í borginni ákaflega mynd­arlega og hefur verið, eins og ég sagði, kannske oft nokkuð fast sótt að fá sambærilegt fram frá ríkinu. En varðandi önnur leikfélög er þetta vitanlega miklu smærra í sniðum, bæði hlutur sveitarfélagsins og ríkisins varðandi stuðning við leikstarfsemina.

Raunin er sú, að fram að þessu hefur fjárveitingavaldið verið heldur fastheldið á styrki til leikfélaganna, og eins og ég áður tók fram, þó að Reykjavík hafi gengið þar á undan að vera langtum hærri en hún þurfti lögum sam­kvæmt, þá eru þó nokkur sveitarfélög sem hafa einnig gengið þar á undan og styrkt sína leik­starfsemi miklu meira en náðist til styrktar þeirra starfsemi frá ríkinu, þannig að í raun og veru verður þarna alls ekki, held ég, um neinn meiningarmun að ræða hvað framkvæmdina snertir og allra síst hjá Reykjavíkurborg.