28.04.1977
Efri deild: 73. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3882 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

21. mál, leiklistarlög

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Mér þykir rétt, vegna þess að ég var ekki viðstaddur afgreiðslu þessa máls í hv. menntmn. Ed., að lýsa yfir fullum stuðningi mínum við þetta frv. Ég tel að með því sé stigið mjög merkilegt spor í átt til þess að stuðla að þeirri leiklistarstarfsemi sem vissulega stendur í miklum blóma víðs vegar um landið.

Ég skil tilfinningar hv. síðasta ræðumanns í sambandi við það orðalag sem er í 2. gr. Ekki tel ég þó ástæðu til að snúast gegn málinu vegna þessa orðalags eins. Þess eru fjölmörg dæmi að í reynd eru sams konar ákvæði um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ég hygg að þetta mál sé þannig vaxið, að það sé ágætt að í lögunum felist hvatning til sveitarfélaganna um stuðning við leiklistarstarfsemina. Meina ég það alls ekki og síst af öllu til stærstu sveitarfélaganna, heldur miklu fremur til hinna minni.

Ég vil sem sagt endurtaka það, að ég lýsi full­um stuðningi við frv. og lýsi ánægju minni yfir að það skuli fá afgreiðslu í hv. Ed. á þessu þingi.