28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Virðulegi forseti. Mér ber að þakka þann stuðning við þetta frv. sem hefur komið fram í síðustu þremur ræðum. Þó kemst ég ekki hjá því að geta þess, að hjá alþb.-mönnum og þá alveg sérstaklega hv. 5. þm. Vesturl. bar mjög á því að hann hefði miklu meiri áhuga á því að kasta skít í Alþfl. heldur en að gera eitthvað til að bæta öryggi á vinnu­stöðum. Innrætið leynir sér ekki, og ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður lýsa því sem óþing­legum og ómanneskjulegum vinnubrögðum þegar hv. þm. hefur í frammi slíkar dylgjur sem hann gerði hér og eru í raun og veru ekkert annað en bein yfirlýsing um að þingbræður hans hafi farið með hreina lygi í þskj. og ræðum hér á þingi. Ég er ekki viss um að hv. þm. þjóni góð­um málstað með slíku hugarfari. En menn eru farnir að venjast ýmsu úr þessari átt, og er nú algengara að taka framlag þessa hv. þm. sem hvern annan leikaraskap af því að alvöruþm. hefur hann aldrei verið.

Ég vil taka það fram enn einu sinni, að varð­andi málmblendiverksmiðjuna fylgdu þm. Alþfl. Heilbrigðiseftirlitinu og afstöðu þess. Ég vil ítreka það, sem einnig er búið að segja áður, að ég samþykkti nál. meiri hl. með fyrirvara um þessi mál og lýsti því yfir, að ef Heilbrigðis­eftirliti ríkisins snerist hugur og það mótmælti starfsleyfinu opinberlega, t. d. í bréfi til þn. sem hægt er að leggja hér fram sem skjal, þá mundi Alþfl. endurskoða afstöðu sína. Þetta liggur hreint fyrir og þarf engar dylgjur í kringum þetta.

Ég þarf meira en orð frá hv. þm. eins og Jónasi Árnasyni, að ég tali nú ekki um þann sem talaði í marga klukkutíma í Ed. fyrir þessu máli. Sleppið þið dylgjunum og komið þið með það svart á hvítu að Heilbrigðiseftirlitið mót­mæli þessu leyfi, þá er stuðningi Alþfl. við frv. lokið. Þetta hefur legið fyrir. Þetta eins og önnur meginatriði í málflutningi okkar komst þó aldrei til skila, t. d. í Ríkisútvarpinu, þó að tíundað væri allvandlega hvað þm. Alþb. sögðu, og ekki sagt eitt einasta orð frá heilli umr., 3. umr., þegar Alþb. var tekið í karpúsið fyrir frammistöðu þess í iðnaðarmálum fyrr og nú.

Ég vísa því einnig algerlega á bug, að um nokkur óheilindi sé að ræða í afstöðu minni eða alþfl.-manna í þessu máli. Alþb. hefur flutt frv. hér á Alþ. sem miðar að því að álverinu skuli lokað. Þetta er frv. frá Alþb. sem miðar að því að svipta 600–700 manns atvinnu. Eru þetta heilindi? Er það ekki einmitt þetta sem fyrir þeim vakir, sem þá dreymir um, þessa labba­kúta, þó að þeir þykist vera að berjast fyrir háleitum hugsjónum. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm., þótt honum sé mikið niðri fyrir, að minn­ast þess að hafa ber þinglegt orðbragð. Ég tel að orðið labbakútur geti varla rúmast innan þess.) Eftir áminningu hæstv. forseta dreg ég þetta orð til baka og biðst afsökunar á því að hafa látið það koma fyrir mig að nota það. Ég hef oft gert það áður án þess að stór skaði hlytist af og þarf enga vanstillingu til þess að þm. bregði því fyrir sig. En það leynir sér væntanlega ekki hvað um var að ræða og það breytir ekki skoðunum mínum á málflutningi alþb.-manna í þessu máli.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Sigurðar Magnússonar, seinni partinum, þegar hann var búinn að gera hina flokkslega skyldu sína og talaði hér örlítið frá eigin brjósti, að hann þekkir þessi mál vel, það vissi ég fyrir, og hugmyndir þær, sem hann kom með, eru mjög eðlilegar og eru meðal þeirra atriða sem að sjálfsögðu hljóta að koma til athugunar þegar heildarfrv. um þessi mál verður endurskoðað. Verkalýðshreyfingin er nú á góðri leið með að knýja fram þá endur­skoðun, þó að meiri hl. hér á Alþ. hafi ekki fengist til að hlusta á till. okkar alþfl.-manna um slíka endurskoðun undanfarin ár. En það er sama hvaðan gott kemur, og ég er honum sam­mála um að það er óhentugt að þessi mál skuli hafa verið í höndum þriggja mismunandi stofn­ana. Það er sérstaklega slæmt að starfssvið Ör­yggiseftirlits ríkisins skuli hafa verið vanmetið í 25 ár og það hafi ekki fengið þann stuðning frá ríkisvaldinu og Alþ. sem það hefði þurft að fá. Lögin voru mjög góð á sínum tíma, en ein­hvern veginn hefur Öryggiseftirlitið ekki fengið þá aðstöðu sem það þarf til þess að gegna því hlutverki sem því var ætlað upphaflega, hvað þá því hlutverki eins og það er orðið við stór­breyttar aðstæður í öllum atvinnurekstri nú á dögum. En það er svo auðvelt að koma við full­komnu öryggi í þessum málum fyrir okkur að við þurfum ekki annað en styrkja Öryggiseftir­litið örlítið í framkvæmd, vegna þess að það stendur í lögum um öryggisráðstafanir á vinnu­stöðum og hefur staðið þar í 25 ár, að sé að áliti Öryggiseftirlitsins hætt lífi eða heilsu verka­manna, þá getur Öryggiseftirlitið stöðvað vinnu á þeim vinnustað. Ég held að það ætti að blása lífi í þessi aldarfjórðungsgömlu ákvæði og nota þau þangað til við fáum betri löggjöf.