28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3892 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra for­seti. Það var aðeins örlítil aths. út af þeim um­mælum hv. síðasta ræðumanns sem mátti skilja sem visst ámæli í garð Öryggiseftirlits ríkisins að það hafi ekki sinnt skyldum sínum sem á það voru lagðar í lögum. Þar sem það vill svo einkennilega til, að Öryggiseftirlitið heyrir undir dómsmrh., þótt að mínu viti ætti það frekar heima undir öðru rn., þá vil ég aðeins segja það, að þetta má til sanns vegar færa af því einfaldlega að Öryggiseftirlitið hefur margleitað eftir því að fá heimild til að ráða sérfræðinga sem gætu sinnt þessu verkefni. Það hefur ekki fengist heimild til þess. Og ég verð nú að segja, eftir að Heilbrigðiseftirlitið er komið í það horf sem það er og er verið að færa þar út kvíarnar, að mér virðist, sem allt gott er um að segja, að þá sé spurning hvort tvær stofnanir eigi að vera að fást við sama verkefnið. Ég held að það sé fullkomin þörf á því að endurskoða ákvæði um þessar stofnanir og athuga í fullri alvöru hvort sé ekki rétt og hægt að sameina þessar stofnanir. Það er mín persónulega skoðun, að það væri að mörgu leyti eðlilegra og skynsam­legri vinnubrögð.

En það, að Öryggiseftirlitið hefur ekki komist yfir að sinna þeim verkefnum sem því eru ætluð samkv. lögum, er einfaldlega af þeirri ástæðu að það hefur ekki fengið mannafla, það hefur ekki fengið leyfi til að ráða sérfræðinga, en það eru a. m. k. sérfræðingar á tveimur sviðum sem það þyrfti að fá til þess að geta sinnt verkefn­um sem það á að rækja eftir lögunum. Það má segja að e. t. v. hefði mátt ráða bót á þessu að einhverju leyti með því bara að hækka gjaldið fyrir þjónustuna. En það hefur sem sagt ekki fengist heimild til að ráða þessa menn.

Þetta vildi ég aðeins koma fram með vegna þess að það væri mjög ranglátt að láta Öryggis­eftirlitið og forstöðumann þess liggja undir ámæli að þessu leyti, því að hann hefur sýnt mjög mikla eftirgangsmuni í þeim efnum að fá aukið starfslið.