28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3905 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Eyjólfur K. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég stenst nú ekki lengur mátið að taka til máls og segja örfá orð þegar verið er að tala um tvennt sem mér hefur verið býsna hugleikið, annars vegar álbræðsluna og hins vegar um hrútinn.

Það er um það síðar nefnda að segja, að hér er farið að ræða um það, hvar megi éta hrút og hvar megi ekki éta hrút, hver megi éta hrút og hver megi ekki éta hrút, og eins um það, hvar megi skjóta hrút og hvar megi ekki skjóta hrút eða hver megi skjóta hrút og hver megi ekki skjóta hrút. (Gripið fram í.) En það var ágætt að þessi aths. kom einmitt frá ritstjóra Reykv. Hann minnir mig þá á, að það er kannske Reykv. Hann minnir þá á, að það er kannske rétt að nota þetta tækifæri til að andmæla leið­ara sem birtist í blaði hans, sömdum af hon­um sjálfum, skömmu eftir hrútsævintýrið, þar sem það var fullyrt að viðkomandi þm. hafi hótað að brjóta lög. Ég vil gjarnan að það sé staðfest, að það gerði viðkomandi þm. aldrei. Hann hótaði að skjóta hrút, sinn eigin hrút, og það er ekki lögbrot. Það er ekki heldur lögbrot að plata menn svolítið, jafnvel að plata svolítið sauði, og það vil ég fullyrða að þeir lögfræð­ingar, sem ritstjórinn studdist við, hafi verið, vegna þess að aldrei var hótað einu eða neinu lögbroti. Það er ekki til stafur í íslensku laga­safni sem hótað var að brjóta. Þm. mátti skjóta sinn eigin hrút í öllum húsum öðrum en slátur­húsum, og leyfi fyrir húsinu var ekki fengið. Hvort hann svo mátti éta hrútinn kann að vera meira álitamál, enda liggur ekkert fyrir um að hann hafi ætlað að gera það, eins og hér var fullyrt. En það liggur sem sagt á milli hluta.

En að því er álbræðsluna varðar, þá ætla ég að víkja að því örlítið hér á eftir, en fyrst langar mig að taka undir það mál sem hér er til umr. eða ætti að vera til umr., a. m. k. efni þess, þó að ég hafi ekki grannskoðað það svo að ég telji að hver einstök grein eða hvert einstakt atriði sé hið æskilegasta. Um umr., sem orðið hafa um álbræðsluna, vil ég gera tvennt: annars vegar taka undir eitt atriði í ræðu hv. þm. Jónasar Árnasonar, hv. 5. þm. Vesturl., og hins vegar að andmæla einni stað­hæfingu hv. þm. Ingólfs Jónssonar, 1. þm. Suðurl.

Áður en ég vík beint að þessu vil ég fullyrða það, að fyrir þm. öllum vaki aðeins gott þegar þeir deila hér um þetta mál. Ég veit að hv. þm. Jónas Árnason óttast bæði erlent auðvald og óttast of mikla mengun. Hinir, sem vilja fá þessa stóriðju að vissu marki, telja það nauðsyn vegna efnahags þjóðarinnar og atvinnuöryggis og telja að ekki sé stefnt í neinn voða. Auðvitað hefði ég ekki barist fyrir því að álverksmiðjan risi nema ég væri sannfærður um að þar væri ekki um að ræða alvarlega mengun, enda var þannig um hnútana búið að forstöðumenn ál­bræðslunnar voru skuldbundnir til þess frá upp­hafi, bæði samkv. álsamningi og eins samkv. öðrum gildandi íslenskum lögum, að gæta allrar varúðar og setja upp öll þau hreinsitæki sem fullkomnust væru. En það er rétt sem hv. þm. Jónas Árnason lét hér að liggja og sagði raunar nánast beint, að í samskiptum við sterka erlenda auðhringi kann að vera að það þurfi að láta þá skilja alvöruna, m. a. með því að segja að fyrirtæki verði lokað ef ekki sé gætt ýtrustu varkárni og allra þeirra öryggisreglna og hrein­lætisreglna sem hugsast geta. Ég veit ekki hvort það hefur verið svo í þessu tilfelli. Ég þekki engan þessara útlendinga. Ég þekki þá íslensku menn sem eru í stjórn álbræðslunnar. Ég vil ekki ætla þeim það að þeir vilji hafa á sam­viskunni að stofna lífi starfsmanna eða heilsu í hættu. Ég hygg að svo sé ekki.

En það verður ekki hjá því komist, — og þá er ég kominn að því sem ég ætla að andmæla í ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar, þar sem hann segir að enginn hafi ásakað fyrrv. iðn.- og heilbrrh., — það verður ekki hjá því komist að benda á að auðvitað beinast þær ásakanir, sem nú eru hafðar uppi um að ekki hafi v erið gætt nægilega vel að öryggi og mengunarvarnir hafi ekki verið eins og skyldi, auðvitað beinast þær fyrst og fremst að vinstri stjórninni og þeim rn. sem með þessi málefni fóru þar, annars vegar iðnrn., og hins vegar heilbrrn. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar var ekki um að ræða verulega mengun. Verksmiðjan var þá lítil og það var ekki talin nein hætta á þeim tíma. Hætt­unnar fór að gæta á tímum vinstri stjórnarinn­ar, og það voru ekki gerðar nægilega ítarlegar kröfur og þeim ekki nægilega fylgt eftir. Kann­ske hefði þá verið rétt að krefjast þess að verk­smiðjunni yrði lokað, ef hún framfylgdi ekki þessum reglum með hæfilegum fyrirvara. Það var ekki gert, og má kannske segja að ásakanirn­ar nú beinist þess vegna fyrst og fremst að þeim sem þá báru ábyrgðina. Og ef þarf að fylgja eftir kröfunni um hreinsitæki með slíkum hótunum, — ­það er kannske ekki rétt að kalla það hótanir, heldur mætti segja: með því að tilkynna slíkar aðgerðir á réttum tíma, þá er auðvitað sjálfsagt að gera það. Ég hygg að það þurfi ekki úr þessu. Ég held að það sé búið þegar að ganga þannig frá samkomulagi um þetta efni að hreinsitæki fyrir hvorki meira né minna en 4.5 milljarða, þau fullkomnustu sem völ er á, verði sett upp. Og það er kannske dálítið athyglisvert að þessi upphæð er nákvæmlega sú sama og hér var upp­lýst að væri heildareign Sambands ísl. samvinnufélaga í fasteignum að brunabótamati, svo að þetta er töluverð upphæð. En auðvitað á að krefjast þess að þetta sé gert, upp á það hljóð­ar samningurinn og upp á það hljóða íslensk lög og þess vegna á að krefjast þess. Og það á að fylgja því eftir með því að boða lokun verk­smiðjunnar ef það ekki verður gert. Undir þetta vil ég taka. En jafnframt verður ekki hjá því komist að benda á það, að ásakanirnar hljóta auðvitað að beinast fyrst og fremst að vinstri stjórninni sem ekkert raunhæft gerði í málum, en núv. iðnrh. annars vegar og heilbrrh. hins vegar hafa gagnstætt fyrirrennara þeirra gert það sem gera átti og gera þurfti, og því skulum við öll fagna.