28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3910 í B-deild Alþingistíðinda. (2905)

Umræður utan dagskrár

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. Senn líður að lokum þriðja þings á kjör­tímabilinu. Verður því að telja að komin sé hald­góð reynsla á úrræði og atorku þeirra sem báru hærri hlut í síðustu kosningum og síðan hafa stjórnað landinu. Enginn ber brigður á að Sjálf­stfl. fer með forustuhlutverk í þeirri samstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna sem nú situr við völd. Hans eru forsrn. og fjmrn., og ráðh. úr röðum sjálfstæðismanna fara með málefni þeirra atvinnuvega sem leggja til helming þjóðarframleiðslu og 9/10 hluta útflutnings, sjávarútvegs og iðnaðar.

Úr því að forusta Framsfl. ákvað eftir síðustu kosningar að efna til stjórnarsamstarfs við sjálf­stæðismenn, var óhjákvæmilegt að þeir tækju við forustu í samsteypustjórn þessara tveggja flokka. Sjálfstfl. var tvímælalaust sigurvegari kosninganna 1974, enda sparaði flokksforustan ekki að gylla sig og sín úrræði fyrir kjósendum í kosningabaráttunni. Málgögn og talsmenn sjálfstæðismanna létu einskis ófreistað til að hampa sinni stefnu, einkum þó í efnahagsmálum og fjármálum, sem einu heildarstefnunni um samræmdar alhliða aðgerðir, eins og þeir orðuðu það, til að ráða fram úr aðsteðjandi efnahags­vanda sem nokkur stjórnmálaflokkur hefði fram að færa.

Þessi málflutningur fékk þann hljómgrunn sem tryggði Sjálfstfl. umtalsverðan kosningasigur. Þess ávinnings fékk flokkurinn að njóta til fulls þegar stjórnarforustan í samsteypustjórn með rúmlega 2/3 alþm. í stuðningsliði sínu féll honum í skaut.

Nú, að lokum þriðja þings kjörtímabilsins og með kosningaár fram undan, er kominn tími til að spyrja hvernig ríkisstj. og stjórnarflokkar hafi leyst verkefni sín af hendi til þessa. Hafa þeir haldið trúnað við kjósendur sína og þá fyrst og fremst við óbreytta kjósendur, fólkið sem velur og hafnar við hverjar kosningar og ræður þar sigri eða ósigri einstakra flokka? Hvernig hafa stjórn og stjórnarflokkum farið verk úr hendi til þess? Sérstök ástæða er til að beina athyglinni að Sjálfstfl. þegar slíkra spurninga er spurt, vegna þess að ekki fer milli mála að komin er upp í því liði, sem myndar kjarna flokksins, einkum þó hér í Reykjavík og ná­grenni, hreyfing sem vill að Sjálfstfl. haldi svo á málum að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga áður en kjörtímabilið rennur út, helst á komandi hausti eða öndverðum vetri. Og ekki fer milli mála hvers vegna baráttulið Sjálfstfl. hér í Reykjavík beitir sér ákaft í þessu máli og býr sig undir að fylgja því fast eftir á lands­fundi flokksins upp úr næstu mánaðamótum að ríkisstj. verði sprengd.

Meginástæðan fyrir kröfu margra undirforingja og sumra liðsodda sjálfstæðismanna í Reykjavík um þingrof og nýjar kosningar góðum tíma áður en kjörtímabilinu lýkur er ljós. Hún er sú, að þeir vilja með engu móti bíða þess að gengið verði til þingkosninga á reglulegum tíma því þá verður borgarstjórn í höfuðborginni og bæjarstjórnir um allt land kosnar skömmu áður en alþingiskosningar fara fram. Sjálfstæðiskjarninn í Reykjavík óttast að flokkurinn bíði afhroð í borginni ef núv. ríkisstj. situr enn þegar borgarstjórnarkosningar fara fram. Undirforingjarnir, sem hafa það hlutverk að fylgjast með gengi flokksins meðal almennings, hafa komist að þeirri niðurstöðu, að ríkisstj. standi svo höllum fæti í almenningsálitinu að óvinsældir hennar muni bitna harkalega á Sjálfstfl. í borgarstjórnarkosningum.

Þessar hræringar í forustuflokki ríkisstj. bera því skýrastan vott, hversu hún hefur fyrirgert trausti á ferli sínum. Þeim, sem fastast trúðu á heildarstefnuna og samræmdu aðgerðirnar og úrræðin sem svo ákaft var heitið fyrir síðustu kosningar, þykir lítið hafa fyrir slíkum afrekum farið í stjórnarstörfunum. Það verður líka þeim mun ljósara, því lengur sem ríkisstj. situr að völdum, að hún er ákaflega ósamstæð og lítt samtaka í mörgum þýðingarmiklum málum. Heildarsvipurinn á starfi hennar, sér í lagi gagn­vart Alþ., er sá, að hver ráðh. bauki að mestu í sínu horni að málum sinna rn. með misjöfnum árangri, en mótun heildarstefnu og framkvæmd sameiginlegra meginmarkmiða sé í lágmarki.

Um þverbak hefur þó keyrt á þinginu sem ljúka mun störfum að viku liðinni ef áætlanir ríkisstj. um afgreiðslu mála standast. Það er mál reyndustu alþm., jafnt hvar borið er niður í flokkum, að þetta þing hafi verið með eindæmum aðgerðalítið og snautt af stórmálum, sér í lagi frá áramótum. Eins og gefur að skilja mótar ríkisstj., sem hefur á sínum snærum jafnyfirgnæfandi þingmeirihluta og nú á sér stað, þingstörfin í öllum meginatriðum. Tillögur frá stjórnarandstöðu, sem telur innan við þriðjung þingheims, komast ekki langt þegar um þau mál er að ræða sem stjórnarliðið hefur gert að flokksmálum, en þeim mun greiðari ætti leiðin að vera fyrir ríkisstj. að hafa sinn mála­tilbúnað stóran í sniðum. En það er eitthvað annað en svo sé. Til að finna þeim orðum stað nægir að líta í stefnuræðu ríkisstj. sem forsrh. flutti í þingbyrjun s. l. haust. Þar er drepið á hvert stórmálið af öðru, sem séu í undirbúningi í rn., og varð ekki annað skilið en vænta mætti frv. um flest ef ekki öll þeirra á þessu þingi, voru enda mörg hver þessi mál sett á skrá um væntanleg stjórnarfrv. sem fylgdi stefnuræðunni.

Frv., sem sérstaklega var getið í stefnuræðunni vegna þýðingar þeirra, en ekki hefur sést af haus né sporður á þessu þingi, voru til að mynda þessi:

Frv. að breyttum lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, þar sem ætlunin var, svo vitnað sé — með leyfi hæstv. forseta — í orðalag stefnuræðunnar, „að tryggja í senn hag bænda og neytenda og draga úr útgjöldum ríkissjóðs“. Ekki þarf orðum að því að eyða, hve þýðingar­mikil markmiðin eru sem þarna eru fram sett. Neytendum ofbýður vöruverð, bændur kvarta yfir lélegu afurðaverði sem skili sér seint og illa, milljarðaútgjöld til niðurgreiðslna og upp­bóta íþyngja ríkissjóði. En ríkisstj. virðist ekki ráða við málið.

Þá eru menn orðnir langeygir eftir frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta verslunarhætti, enda ekki til lítils að vinna, svo aftur sé vitnað í stefnuræðuna, með leyfi forseta: „Að efla samkeppni til að tryggja sem lægst vöruverð“, sagði þar. En ekki bólar á þessu þarfa máli.

Þá var boðuð í stefnuræðunni endurskoðun allra helstu lagabálka um félagsmál, sem sé laganna um almannatryggingar, laga um lífeyris­sjóði, laga um sjúkratryggingar og löggjafar um húsnæðismál. Ekki eitt einasta frv. af þeim, sem þarna eru boðuð, hefur enn litið dagsins ljós hér á Alþingi.

Fyrirheit var gefið í stefnuræðu ríkisstj. um heildaráætlun í orkumálum. Efndir eru engar.

Stefnuræðan boðaði endurskoðun á verkefnum og tekjustofnum ríkisins og sveitarfélaga, en einskis árangurs af henni hefur enn orðið vart. Frv. um endurskoðun vinnuaðferða við gerð kjarasamninga og eflingu á hlutverki sáttasemjara í vinnudeilum virðist hafa horfið út í buskann.

Langbestar hafa heimtur orðið á frv. sem boðuð voru um endurbætur á réttargæslu og dómskipan. En örlög þeirra flestra sýna hve vanmegnugt stjórnarliðið er í rauninni að fást við meiri háttar mál þrátt fyrir háa höfðatölu. Aðeins eitt af veigamiklum málum á þessu sviði fékk afgreiðslu, frv. um rannsóknarlögreglu rík­isins og fylgifrv. þess, en sérstakt atfylgi dóms­mrh. þurfti til að stjórnarliðið mannaði sig upp í að afgreiða málið.

Ekkert sýnir betur, hve loppið stjórnarliðið er í meðferð mála sem ráðh. þess leggja loks fram eftir að þau hafa gjarnan verið boðuð þing eftir þing, en meðferðin á frv. að breyttum lögum um tekju- og eignarskatt. Þetta frv. hefur verið lengi á döfinni og verið boðað ári frá ári í stefnu­ræðum og fjárlagaræðum. Það var lagt fram fyrir áramót, en sýnt er að úr þessu kemst það ekki úr n. í fyrri deild. Ekki þarf að eyða löngu máli í að sýna fram á þörfina á breyttum skatta­lögum. Hver einasti skattborgari hefur kynnst því betur og betur með álagningunni frá ári til árs, að lögin, eins og þau eru nú úr garði gerð, bjóða heim óþolandi misrétti meðal launþega innbyrðis vegna misjafnrar aðstöðu til að nota frádráttarheimildir, milli launþega annars vegar og hins vegar þeirra sem hafa rekstur með höndum og milli einstaklinga og fyrirtækja, þar sem þau hafa tök á að mynda sér skattfrjálsan stórgróða með gervisölum og flýtifyrningum.

En þegar frv. að nýjum skattalögum lá fyrir kom í ljós að þannig hafði verið á málinu haldið að skoðanir á ýmsum þýðingarmestu ákvæðum þess reyndust hartnær eins margar í stjórnarliðinu og þm. eru sem það skipa. Við gagngera breytingu á skattalögum skiptir miklu að þeir, sem við þau eiga að búa og framkvæma þau, hafi ríflegan tíma til að búa sig undir um­skiptin. Munar í því efni miklu hvort ný skatta­lög eru afgreidd á þessu þingi eða verða að bíða hins næsta, ef ætlunin er að þau gangi í gildi um næstu áramót. En þrátt fyrir allt það sem á eftir rak að þetta mál væri tekið föstum tökum glopraði stjórnarliðið því niður, og enn verða skattgreiðendur að búa við óvissu um hvenær bætt verður úr óviðunandi ágöllum skatta­laga.

Auk þeirrar hliðar skattkerfis, sem að skattgreiðendum snýr og allir gera sér grein fyrir, er önnur sem varðar hagstjórn í þjóðfélaginu og ekki liggur eins ljós fyrir þótt þýðingarmikil sé. Það er skilyrði fyrir heildarstjórn efnahagsmála og árangursríkri framkvæmd samræmdra aðgerða í því skyni, að tekna til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins sé aflað án þess að upp komi hróp­legt misrétti og óviðunandi mismunun þegnanna. Mismunun af því tagi sem hér hefur átt sér stað, að margs konar gróði er lítt eða ekki skattlagður í reynd, samtímis því sem skattur fellur af fullum þunga á almennar launatekjur, skekkir allar eðlilegar fjármálaaðstæður, ýtir undir brask og brall, eins og mönnum ætti að vera full­kunnugt. Þegar skattamisrétti og ör verðbólgu­þróun fara saman er voðinn vís. Ríkisstj. hefur ekki náð á þessum málum þeim tökum sem að gagni koma, og því eru heildarstjórnin og sam­ræmdu aðgerðirnar ekki annað en innantóm kosningaloforð eftir alllanga stjórnarsetu í skjóli óvígs þingmeirihluta.

Við blasir enn óleystur efnahagsvandi innanlands, og út á við eru sund að lokast. Allir viður­kenna nú orðið, að ekki er með nokkru móti verjandi að auka erlenda skuldasöfnun. Þvert á móti ber brýna nauðsyn til að lækka skuldirnar þegar greiðslubyrðin af þeim er orðin svo gífurleg að í hana fer fimmta eða sjötta hver króna sem fæst fyrir útflutning frá landinu. Þar á ofan er að hluta um að ræða skuldir til að greiða neyslu á líðandi stund sem grynna verð­ur á jafnskjótt og viðskiptajöfnuður verður hag­stæður, ef ekki á að fyrirgera aðgangi að alþjóðlegum varasjóðum skyldi til þeirra þurfa að grípa síðar meir.

Fyrir ári lýsti ég úr þessum ræðustól hversu ofveiði undanfarinna ára á helstu stofnum nytja­fiska girðir fyrir að unnt sé að leysa vanda utanríkisviðskiptanna með því að auka afla til að hagnýta hagstæða verðþróun á fiskafurðum. Síðan virðist enn hafa sigið á ógæfuhlið í því efni, tiltæk vitneskja bendir til að enn sé bolfisk­veiðum haldið uppi með því að ganga á ókynþroska árganga, jafnframt því sem hrygningar­stofninn haldi áfram að rýrna.

Við þessar aðstæður hefur félagslegt misrétti fengið að ágerast svo að þjóðfélagið stendur nú á barmi harðvítugra stéttaátaka.

Álengdar standa postular herstöðvaleigu og hömlulausrar athafnasemi erlends einkafjármagns og bíða þess að sitt tækifæri komi til að ánetja þá sem ekki horfa í að fyrirgera efnahagslegu sjálfsforræði.

Þetta er í stórum dráttum myndin sem við blasir á þriðja stjórnarári samstjórnar tveggja stærstu flokka landsins, þar sem Sjálfstfl. leggur til leiðsöguna, en Framsfl. fylgispektina. — Þökk sem sem hlýddu.