28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. „Krafla með kynja afli klauf fjall og rauf hjalla,“ kvað Jónas Hallgrímsson á sínum tíma. Enda þótt þrengingar þjóðarbúsins og syndir stjórnarinnar hvíli þungt á herðum alþm. og þeir láti gamminn geysa í umr. í kvöld eru fregnir af eldstöðvunum í Mývatnssveit efst í huga okkar allra. Ef einhverjir hlusta nú á útvarp norður þar fullvissa ég þá um að allar deilur eru lagðar til hliðar og við eigum allir eina sál þegar náttúra landsins fer hamförum. Það er von okkar að eldarnir og óróleikinn í iðrum jarðar valdi ekki tjóni á mönnum og sem minnstu á mannvirkjum. En hver sem vandinn kann að verða munum við öll standa saman og axla byrðar sem ein fjölskylda væri.

Það er auðvelt að skilja vandamál sem stafa beint af hamförum nátttúrunnar. Önnur vandamál koma aðeins fram í tölum og skýrslum og getur stundum reynst erfitt að vekja þjóðina til skilnings á alvöru þeirra. Þannig eru flest þau mál sem ríkisstj. og Alþ. eiga helst að glíma við. Þau gefa ekki frá sér „dauða org í djúpi dimmu“ eins og Kröflueldar. Engu að síð­ur eru þetta vandamál sem ógna frelsi þjóðar­innar og sjálfsvirðingu, grafa undan lífskjörum og mergsjúga lýðveldið okkar með því að brjóta niður siðferðisþrek og heiðarleika þjóðarinnar.

Af þessum vandamálum tel ég skuldasöfnun erlendis vera hættulegasta. Hin úrræðalausa og sundurlausa íhaldsstjórn, sem setið hefur að völdum á þriðja ár, hefur horft upp á það að stjórn efnahagsmála hefur leitt til aukinnar skuldasöfnunar svo að íslendingar eru nú skuldugasta þjóðin í OECD. Um þessar mundir munu heildarskuldir okkar erlendis til langs tíma hafa farið yfir 100 milliarða, en það er nálega milli. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Þetta er skuggaleg þróun og ekkert lát á. Hver fréttin berst eftir aðra um nýjar lántökur í útlöndum, enda hefur verið gert ráð fyrir að á þessu ári verði teknir 20 milljarðar í slíkum lánum, þar af renni 10 milljarðar til að greiða vexti og af­borganir af eldri lánum, en 10 milljarðar verði hrein aukning. Skuldirnar gefa til kynna að við, þessi stóra fjölskylda, höfum rekið félagsbú okkar með geigvænlegum halla ár eftir ár. Svo má ekki halda áfram.

Bretar og Ítalir eru líka verðbólguþjóðir þótt ekki komist verðbólga þeirra í hálfkvisti við okkar. Þær þjóðir eru líka skuldugar, þótt við séum enn þá skuldugri hlutfallslega. Samt hefur farið svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið upp bein afskipti af efnahagsstjórn þessara landa og gerir kröfur um ákveðnar aðgerðir ef þau eigi að fá lán sem bæði vanhagar um. Eru þetta þau örlög sem bíða okkar? Hvenær ætli komi að því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari að skipta sér af stjórn efnahagsmála hér á landi og skipa Alþ. og ríkisstj. fyrir verkum? E. t. v. hafa þeir ekki þungar áhyggjur af okkur, þótt við séum heimtufrekir á lán, vegna þess hve litlir við erum. Það fer svo sem ekki mikið fyrir okkur á jötunni þeirra. En hvað finnst okkur sjálfum? Hvað verður um efnahagslegt sjálfstæði okkar?

Ríkisstj. hefur öðru hverju haft dálitla tilburði til þess að stjórna efnahagsmálum. Verðbólga hefur lækkað úr 50–60% í rúm 30%, og viðskipta­hallinn gagnvart útlöndum hefur nokkuð minnkað. En skuldirnar hafa haldið áfram að vaxa og erlend lán hafa verið það deyfilyf sem ríkisstj. hefur gleypt hvað eftir annað. En nú verður ekki haldið miklu lengra á þessari braut.

Ríkisstj. hefur frá upphafi talað allmikið um verðbólguna og þóst halda uppi baráttu gegn henni. Hitt er þó öllu líklegra, að óðaverðbólgan frá vinstri stjórninni hafi hjaðnað þegar erlendur þrýstingur minnkaði, frekar en vegna ráðstafana hæstv. ríkisstj. Víst er að sérfræðingum OECD hefur þótt stjórnin halda illa á hemlun eftirspurnar. Þeir segja beinum orðum í síð­ustu skýrslu sinni að ríkisstj. hafi notað verð­bólguna til að draga úr kaupmætti í landinu. Verð­bólgan er megin hagstjórnartæki þessarar ríkis­stj. Hins vegar viðurkenna þessir sömu sérfræðingar OECD að verkalýðshreyfingin hafi sýnt ábyrga afstöðu og hógværð í kröfugerð, og ber að hafa það í huga þegar rætt er um kjaradeilurnar sem nú standa yfir.

Ekki verður um það deilt, að ríkisstj. hefur ekki tekist að hindra halla á ríkisrekstrinum, en hann er beinn verðbólguvaldur þegar svo stendur á sem hér er nú. Skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabankanum hefur verið geigvænlega mikil og með þeim skuldum hefur ríkiskassinn dregið til sín fjölmarga milljarða frá bankakerfinu sem ella hefði e. t. v. mátt nota til að lána atvinnu­vegunum og bæta úr brýnustu þörf fyrir rekstrarfé.

Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að ríkisstj. er þriðji aðilinn í heildarsamningum á vinnumarkaði milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, hvort sem ráðh. líkar það betur eða verr. Kjaramál launþega verða ekki leyst án þess að tekið sé tillit til verðlags, skatta, tolla, trygginga og fleiri atriða sem eru fyrst og fremst á vegum og á valdi ríkisstj. Þrátt fyrir þetta hefur íhaldsríkisstj. okkar hvergi nærri komið þeim viðræðum sem fram hafa farið nú undan­farnar vikur og hafa gengið furðulega hægt. Í stað þess að ríkisstj. sé virkur aðili við að greiða fyrir samkomulagi hefur aðalmálgagn forsrh., Morgunblaðið, haldið uppi látlausum áróðri gegn launþegum og reynt á alla lund að hræða þá með hugsanlegum afleiðingum kauphækkana hér í þessu láglaunalandi. Sinnuleysi ríkisstj. og skrif stjórnarblaðanna hafa leitt til þess, að allur þorri launþega hefur fyllst tortryggni í garð stjórnvalda og lítur á þau sem fjandsamleg öfl. Við þetta bætist að ríkisstj. hefur gersamlega brugðist öllum þeim vonum sem vaktar voru í fyrrahaust um víðtækar umbætur í skattamálum og á fleiri sviðum sem hafa bein áhrif á kjör launþega.

Við skulum athuga það, að kauphækkanir þurfa ekki að byggjast eingöngu á auknum þjóðar­tekjum. Kauphækkanir má einnig byggja á breytingum á tekjuskiptingu innanlands. Þá breytingu er fyrst og fremst hægt að gera í skatta­lögum.

Alþingi verður nú slitið innan fárra daga og hefur það setið liðlega hálft ár, síðan í október í fyrrahaust. Þá flutti hæstv. forsrh. stefnuræðu þar sem hann lofaði mikilli löggjafarstarfsemi undir forustu ríkisstj. í vetur. Þetta hefur brugðist með öllu og hefur eftirtekjan af störfum Alþ. verið harla rýr og þingið að því leyti eitt hið slappasta í manna minnum. Forsrh. boðaði í haust hvorki meira né minna en 76 stjfrv., þeirra á meðal umfangsmikla skattabreytingu, uppstokkun lífeyrissjóðakerfis, endurskoðun lánakerfisins, bætta starfshætti banka og lánastofnana, heildarendurskoðun almannatrygginga, endurbætur á verðlagningarkerfinu, heildaráætlun í orkumálum, umbætur á stjórnsýslu og réttargæslu og margt fleira. Öll þessi verkefni, sem ég hef talið og forsrh. boðaði í stefnuræðu sinni í byrjun þings, hefur stjórnin svikist um að leysa. Það sætir furðu hvernig landsstjórnin hefur koðnað niður í vetur, og þau frv., sem henni hefur þó tekist að koma inn á Alþ., hafa yfirleitt siglt í strand.

Alvarlegasta strandið er að sjálfsögðu í skattamálunum. Misrétti í tekjuskiptingu hefur farið hraðvaxandi í óðaverðbólgunni og þetta óréttlæti veldur að sjálfsögðu miklu um óþolinmæði launþega og kröfur þeirra um kjarabætur. Með breytingum á skattakerfinu hefði mátt spyrna veru­lega við þessum vanda. Forsrh. lofaði að tryggja jafnrétti kynjanna í skattamálum, en þó hikaði stjórnin við að leggja til að hjón væru sjálf­stæðir skattþegnar. Forsrh. lofaði að jafna skattabyrðinni niður á landsmenn á réttlátari hátt en verið hefur til þessa, en það verður sýnilega ekki að þessu sinni frekar en aðrar umbætur. Forsrh. lofaði að stöðva þau sérréttindi, að ein­staklingar gætu með bókhaldshalla á fyrirtækjum sínum gert sjálfa sig skattlausa. Skyldi ekki eitt­hvað af þessu sérréttindafólki hafa kippt í forustulið Sjálfstfl. og skyldi það ekki eiga einhverja sök á að skattafrv. er strandað? Forsrh. lofaði að draga úr hinum takmarkalausu frádráttarliðum sem gert hafa marga peningamenn, sem eiga aðgang að lánsfé, skattlausa. Ætli þeir hafi ekki líka kippt í spotta og sjálfstæðisforustan látið undan? Það var enn fremur talað um að gera breytingar á afskriftarreglunum sem hafa verið misnotaðar í stórum stíl í skattamálum. Ætli af­skriftakóngarnir hafi ekki látið í sér heyra í sínum flokki, Sjálfstfl., og fengið áheyrn? Allt hefur þetta komið fram í miklu andófi í Þingliði Sjálfstfl. og raunar Framsfl. líka, með þeim afleiðingum að háværar deilur stjórnarliðsins innbyrðis drápu frv. um umbætur í skattamálum á þessu þingi a. m. k. Þar fór eitt skattár enn og nokkrir milljarðar til sérréttindafólksins. En hver veit hvað gerist síðar?

Skattafrv. er ekki eina málið sem hefur stein­runnið í höndum hinnar forustulausu og sundur­lyndu ríkisstj. Fjöldi stjfrv. situr fastur í n. og virðist sem hvorki ráðh. né stjórnarþm. hafi mikinn áhuga á að koma öllum þorra þeirra fram, svo að frv. eru umvörpum svæfð í nefnd. Gleggsta dæmið um þetta eru hin sorglegu örlög mennta­mála á stjórnarheimilinu og hér á Alþingi. Hæstv. menntmrh. hefur unnið af samviskusemi, eins og hans er von og vísa, og flutt fjölda merkra frv. Þeirra á meðal eru frv. um fullorðinsfræðslu, leiklistarlög og þjóðleikhús, Kennaraháskóla, Skálholtsskóla, Námsgagnastofnun og sitthvað fleira. En allt er þetta svæft í nefndum þings­ins og aðeins eitt eða tvö smáfrv. menntmrh. virðast nú verða að lögum.

Menntmn. Ed. hefur haft átta mál til með­ferðar í allan vetur. N. hefur komið saman á fjóra fundi síðan í fyrrahaust og afgreitt eitt mál frá sér. Í Nd. er ástandið víst örlítið skárra. Þar hefur menntmn. einnig fengið átta mál, en hún hefur þó haldið sjö fundi í allan vetur og afgreitt að ég hygg þrjú mál. Þessi vinnubrögð menntmn., sem ég nefni aðeins sem dæmi, eru satt að segja ekki einleikin. Hvaða öfl eru hér að verki, sem stöðva öll helstu mál hæstv. mennt­mrh.? Hvað ætla framsóknarmenn að þola lengi slíka meðferð á einum ráðh. flokksins?

Ástandið er nokkru skárra hjá sjálfum formanni Framsfl., Ólafi Jóhannessyni, hvað þetta snertir. Hann boðaði reyndar fleiri ný mál í fyrrahaust en nokkur annar ráðh. og fyrst í stað voru ýmis þeirra afgreidd, t. d. rannsóknar­lögreglan. Þetta gerðust meðan skrif blaðamanna eins og Vilmundar Gylfasonar og fleiri um dóms­málin og réttarkerfið stóðu sem hæst. Nú hina síðustu mánuði hefur verið lát á þessari blaðagagnrýni, og viti menn, þá bregður svo við að umbótafrv. hæstv. dómsmrh. sofna hvert af öðru værum svefni í nefndum Alþingis og hafa ekki heyrst nefnd í seinni tíð.

Hæstv. sjútvrh. hefur einnig átt erfitt með að koma málum sínum fram á Alþ., og hvað hann snertir er ekki sanngjarnt að kenna um forustuleysi. Ráðh. hefur nefnilega orðið fyrir harðri andstöðu frá eigin flokksbræðrum sem m. a. hafa í allan vetur tafið staðfestingu á nauðungarlögum sem hann setti á sjómenn í fyrra, og harma ég það út af fyrir sig ekki. En það sýnir hvernig ástandið er, að ráðh. skuli aðal­lega þurfa að eiga í vök að verjast gagnvart sínum eigin svokölluðu stuðningsmönnum.

Ekki hefur hæstv. iðnrh. betri sögu að segja af flokksbræðrum sínum og samherjum þeirra í Framsfl. Hann hefur átt við stöðuga uppreisn að etja í sjálfu stjórnarliðinu gegn málum sínum. Orkumálin, sem hann fer með, eru raunar einn veigamesti þáttur þjóðmála okkar um þess­ar mundir. Það ríkir orkukreppa í heiminum og jafnvel ameríkumenn tala um að þeir verði að nota minni bíla og minni olíu til húsahitunar þegar á næstu árum. En við íslendingar erum þeir gæfumenn að eiga mikla ónotaða orku í fall­vötnum og mikinn jarðhita. Við ættum að geta stórbætt orkubúskap okkar og notað þessar auðlindir með fullu tilliti til náttúruverndar til að styrkja afkomu þjóðarinnar.

Hæstv. forsrh. tilkynnti í stefnuræðu sinni í þingbyrjun að fram mundi koma heildaráætlun um framkvæmdir í orkumálum. Ekki hefur hún birst enn þá þótt orkuráðh. haldi áfram að lofa virkjunum um land allt og leggja fram frv. um virkjanir sem enginn veit hvenær unnt verður að reisa. Öngþveiti ríkir í orkumálum þjóðar­innar, stefnuleysi sem getur kostað milljarða. Við þetta verður ekki unað til lengdar. En hvað skyldi valda því að ríkisstj. heykist á þessu loforði oddvita síns, forsrh., rétt eins og svo mörgum öðrum?

Hæstv. fjmrh. hefur nú gengið einna best að koma sínum málum fram á Alþ. Hann hefur að undanteknu skattafrv. — og það er mikil undantekning — komið flestum málum sínum sæmilega fram. En skyldi það ekki vera af því að frv. hans eru yfirleitt um hærri skatta og hærri álögur á þjóðina? Það kemst í gegnum þetta þing. Þegar loks átti að bæta fyrir misréttið í skattamálum brást honum bogalistin.

Árni heitinn Pálsson prófessor sagði einhverju sinni um einn starfsbróður sinn, að aldrei hefði hann vitað svo miklu viti beitt til að komast að rangri niðurstöðu sem hjá þeim manni. Eitthvað svipað má segja um ríkisstj. og stuðningsmenn hennar. Aldrei hefur svo mikill þingmeirihl. setið heilt þing með svo litlum árangri sem í vetur. Aldrei hefur ríkisstj. verið svo sterk að þing­mannatölu, en svo veik vegna ósamkomulags og uppsteyts í þingliðinu. Aldrei hefur forsrh. gefið svo mörg fyrirheit um nýja löggjöf að hausti sem ekkert bólar á nú í þinglokin.

Ríkisstj. veldur ekki hlutverki sínu. Hún er ekki nógu samstillt og flokkar hennar ekki nógu heilir í samstarfi til að veita landinu eins þrótt­mikla og einbeitta stjórn og nú er þörf fyrir. Stefna hennar og viðhorf eru í grundvallaratriðum alröng og fjarri því sem þessi þjóð þarf á að halda. Þess vegna ætti ríkisstj. að hætta píslargöngu sinni og efna til kosninga sem fyrst.

Herra forseti. Alþfl. hefur á þessu þingi haldið uppi harðri gagnrýni á hæstv. ríkisstj. og veitt henni aðhald, eins og stjórnarandstöðuflokkum ber að gera. Þessu til viðbótar hefur Alþfl. flutt mikinn fjölda af frv. og till., líklega milli 30 og 40 alls, þar sem stefna flokksins hefur komið fram. Þessi þingmál Alþfl. eru ná­lega öll jákvæð og ábyrg og henda á leiðir til að létta lífsbaráttu þjóðarinnar og þoka þjóð­félagi okkar til betri vegar. Þessi viðleitni Alþfl. til að leggja fram jákvætt starf, þótt flokkurinn sé í stjórnarandstöðu, ber ekki vott um ábyrgðarleysi eða skrum, eins og stjórnarandstæðingar eru oft sakaðir um. Þvert á móti höf­um við lagt fram mikla vinnu, margvíslegar hugmyndir í anda jafnaðarstefnunnar, og við höfum lagt góðum málum að okkar mati lið, hverjir sem hafa flutt þau.

Ekki verður sagt að Alþ. hafi tekið þessum vinnubrögðum okkar í stjórnarandstöðu sérlega vel. Málum okkar hefur lítið verið sinnt. Lang­flest fá að deyja í nefndum eða þeim er vísað til ríkisstj., og má kannske segja að sætt sé sam­eiginlegt skipbrot, því að það kemur fyrir mörg stjfrv. líka. En þetta er eins og annað í fari þessa misheppnaða og starfslitla þings sem nú er að ljúka, og þetta er framar öllu öðru að kenna forustuleysi ríkisstj. um vinnubrögð þings­ins, en í þingræðislandi á ríkisstj. að hafa slíka forustu, og enn fremur eindæma upplausnar­ástandi í stjórnarlífinu hér á þinginu.

Við erum um þessar mundir að endurnýja Alþfl. Við höfum samþykkt nýja stefnuskrá og hefur margt hugmynda úr henni komið fram í þingmálum okkar í vetur. Við erum að styrkja flokksstarf, sérstaklega fræðslu og upplýsingu. Við erum að safna til okkar ungu fólki sem finnur lífskraft jafnaðarstefnunnar, sem er stefna frelsis, jafnréttis og mannúðar. Við ætlum að hafa flokk okkar opinn og starfa fyrir opnum tjöldum og styrkja lýðræði innan hans frá því sem verið hefur í stjórnmálaflokkum hér á landi. Við trúum því, að jafnaðarstefnan eigi miklu hlutverki að gegna í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur lagt til margt af því besta í núverandi þjóðfélagsskipan, og hún á sér enn marga drauma um betri framtíð og betra mannlíf sem geta ræst ef stefnunni verður veittur stuðningur hér á landi. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.