29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

269. mál, norrænt samstarf 1976

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það að hæstv. forseti skuli taka þessa skýrslu hér á dagskrá í Sþ. Ætlunin var upphaflega, er hún var fram lögð, að unnt væri að ræða þessa skýrslu í samhengi við skýrslu hæstv. utanrrh., og var hún því fyrst lögð fram með sama hætti, þannig að henni var útbýtt fjölritaðri meðal hv. þm., og ætlunin var síðan að lesa hana inn í umræðupart Alþingistíðinda. Af því varð þó ekki að þessi skýrsla yrði þá flutt.

Flm. þessarar skýrslu var þá ekki staddur á landinu, svo að það voru fyrir því eðlilegar orsakir, en í raun og veru þykir okkur heppilegra fyrirkomulag að fá slíka skýrslu prentaða sem þskj. og ástæðulaust að vera að lesa upp úr henni öll efnisatriðin. Hins vegar er með þessu, sem hér er gert, reynt að brydda upp á því nýmæli, að þingkjörin nefnd til starfa í Norðurlandaráði gefi Alþ. skýrslu um það sem fram fer á þeim vettvangi.

Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlanda­ráðs síðasta ár féll það í minn hlut að gera þessa skýrslu að þessu sinni. Hún liggur hér fyrir til umr. og upp í henni verður hægt að fletta þeim atriðum sem hv. þm. kynnu að hafa sérstakan áhuga á.

Það varð okkur hvatning til að gera þessa skýrslu, að það hefur verið ár eftir ár mjög til umr. í Norðurlandaráði að nauðsynlegt væri að koma slíkum sið á í öllum þjóðþingunum. Norðmenn hafa gefið sérstaka skýrslu og haft sérstaka umr. um norrænt samstarf á sínum þingum nú um langt árabil. Það fer þannig fram, að skýrsla er gefin af hálfu þess ráðh. sem fer með norræn samstarfsmálefni þar í landi. Með henni fylgir sem fskj. skýrsla Noregs­deildar Norðurlandaráðs. Síðan er málinu vísað til utanrmn. sem gefur út nál. og málið er rætt að nýju. Mér er ljóst að svona nákvæmlega verður ekki hægt að fjalla um þetta mál hér að þessu sinni, en ég mun allt að einu leggja til að því verði vísað til utanrmn. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða það mikilvægan þátt í utanríkismálum okkar íslendinga að utan­rmn. Alþ. eigi að fjalla um hann.

Þegar umr. fóru fram um skýrslu hæstv. utanrrh. var að vísu lítið sem ekki vikið að norrænu samstarfi í skýrslu hans. En hv. 3. þm. Reykn. vék að norrænu samstarfi í sinni ræðu og kann ég honum þakkir fyrir það. Hann hefur alla tíð verið áhugamaður á þessu sviði og unnið þar mikið starf.

Í þessari skýrslu, sem er hin fyrsta af þessu tagi, er fyrsti kaflinn einfaldlega um uppbyggingu Norðurlandaráðs og skipulag og þær megin­reglur sem þar um gilda. Ekki er ástæða til að hafa slíkan kafla nema í þessari fyrstu skýrslu. Síðan er fjallað um ráðherranefnd Norðurlanda, en okkar samstarfsráðh., forsrh. Geir Hallgrímsson, hefur annast þann hlut mála af hálfu íslendinga. Ég leyfi mér að vænta þess, að næsta ár, þegar skýrsla yrði gefin um norrænt samstarf, fylgi einnig skýrsla frá hæstv. ráðh. um þetta efni, og kann málið vel að falla í þann farveg. Við vorum þeirrar skoðunar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, að frumkvæði skyldum við hafa að þessu sinni til að reyna að koma á þessum sið, og gerum við að vísu enga sérstaka kröfu um að skýrslan sé gefin af hálfu ráðh. En í framtíðinni þykir okkur réttara að hún yrði rædd samtímis skýrslu utanrrh. Þó kann það að ráðast af því, á hvaða tíma árs sú skýrsla yrði gefin, og getur náttúrlega hvor hátturinn sem er komið að fullu gagni.

Skýrslan fjallar að meginefni til um störf sjálfs ársins 1976. Það má vera að ástæða hefði verið til að gefa Alþ. sérstaka skýrslu um störf Norðurlandaráðs 1975. Okkur þótti þó minni ástæða til þess þar eð þing ráðsins hafði verið haldið hér á landi það ár og voru miklar upplýsingar um það þá hér á landi og mönnum vel kunnugt um störf ráðsins það ár. Ég vil þó aðeins geta þess, að það ár fór einnig fram síðla árs aukaþing í Stokkhólmi, þegar samþykkt var stofnun Norræna fjárfestingarbankans sem mjög mikla þýðingu hefur.

Í des. 1975 voru fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs kosnir fyrir árið 1976 og þeir voru kjörnir hinir sömu og nú eru, þ. e. a. s. Ásgeir Bjarnason, Gylfi Þ. Gíslason, Jón Skaftason, Magnús Kjartansson, Ragnhildur Helgadóttir og Sverrir Hermannsson. Til vara voru kjörin Axel Jónsson, Eggert G. Þorsteinsson, Gils Guðmunds­son, Halldór Ásgrímsson, Jón Helgason og Sigur­laug Bjarnadóttir.

Ég vil aðeins geta þess, í hvaða nefndum hver þessara meðlima Íslandsdeildar ráðsins á sæti eða átti sæti það ár. Í laganefnd ráðsins var kjörinn Ásgeir Bjarnason, í menningarmálanefnd og fjár­laganefnd Gylfi Þ. Gíslason og jafnframt í upp­lýsingamálanefnd, Jón Skaftason í efnahagsmála­nefnd og upplýsingamálanefnd, Magnús Kjartansson í samgöngumálanefnd, Ragnhildur Helga­dóttir í forsætisnefnd og félagsmálanefnd, Sverrir Hermannsson í efnahagsmálanefnd.

Ég vil geta þess, að í sambandi við þessa skýrslu var haft samráð um hvern kafla við þá þm., sem eiga sæti í þeim nefndum, sem þar er sérstaklega fjallað um.

Skýrslan um störf Norðurlandaráðs fjallar í upphafi um það atriði sem skipti okkur íslendinga sérstaklega mestu máli að okkar mati á síðasta ári, en það var sá stuðningur sem við fengum í sambandi við fiskveiðideilu okkar á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn. Ég rek hér nokkuð aðdragandann að þeirri yfirlýsingu, sem þar var gefin, og vænti þess, að hann sýni að þar var um mjög almennan og einlægan stuðning okkar frændþjóða að ræða í þessu viðkvæma og erfiða máli okkar. Þar var bæði um að ræða stuðning, sem var pólitískur, og stuðning vegna þess að menn gerðu sér ljóst að ein þessara frændþjóða átti í vök að verjast í hagsmunamáli, sem gat ráðið úrslitum um lífsafkomu í landinu.

Einnig er í þessum kafla vikið að Norræna fjárfestingarbankanum. Um hann hefur svo oft verið fjallað hér á hv. Alþ. að ég mun ekki rekja það efni, heldur einnig vísa til skýrslunnar.

Ég nefni mjög lauslega aðalefnin sem voru á dagskrá í hverri nefnd ráðsins.

Í laganefndinni var fyrst og fremst fjallað um málefni persónuréttar á síðasta ári. Einnig var unnið að sérreglum á sviði skaðabótaréttar. Ný atriði í norrænum höfundarétti, sérstaklega varðandi túlkandi listamenn, voru þar ofarlega á baugi.

Í félagsmálanefnd var langmest rætt um málefni vinnumarkaðar og þá sérstaklega um aðbúnað á vinnustöðum og heilsugæslu fólks á vinnustöðum. Í því sambandi hafði félagsmála­nefnd ráðsins haldið árinu áður, þ. e. a. s. 1975, mjög stefnumarkandi ráðstefnu í Porsgrunn í Noregi, og á grundvelli niðurstöðu þeirrar ráðstefnu tók n. afstöðu til sérstakrar verkefna­áætlunar sem var á dagskrá síðasta dag Norður­landaráðsþingsins, um umhverfi á vinnustöðum. Þetta er mál sem við íslendingar höfum margt af að læra. Þarna er um að ræða rannsóknir sem við getum haft mikið gagn af og eiga vafalaust eftir að setja mjög mikinn svip sinn á atvinnulíf allra norrænna landa. Í þess­ari n. var einnig fjallað um sameiginlegar norrænar reglur um læknislyf og um vandamál fatlaðra. Loks var mikið fjallað í þessari n. um ýmis mál sem sérstaklega varða jafnrétti karla og kvenna. Fulltrúi Íslands í félmn. var, eins og áður er sagt, Ragnhildur Helgadóttir.

Í samgöngumálanefnd var fjallað um fólksflutninga innan þéttbýlissvæða. Þar var fjallað um norræna vegarannsóknaáætlun, einnig fjallað um hjálpartæki til að létta fötluðum notkun fjarskiptaþjónustu og útbreiðslu slíkra tækja, hvernig megi koma þeim á markað og gera þau ódýrari. Þar var rætt um flugsamgöngur í norð­urhluta Skandinavíu og ferju milli Íslands, Færeyja, og annarra Norðurlanda. Fulltrúi okkar í þessari n. var Magnús Kjartansson, en varamaður hans, Gils Guðmundsson, tók einnig mikinn þátt í störfum þessarar nefndar.

Í efnahagsmálanefnd var rætt um nýja verkefnaáætlun á sviði byggingaiðnaðarins, um öryggisráðstafanir vegna kjarnorkuframleiðslu, um norrænt orkumálasamstarf, bæði meðal landanna allra og svo einnig það samstarf er felst í ýmsum tvíhliða samningum milli tveggja þessara landa. Nýlegt dæmi höfum við fjallað um hér á Alþ. í sambandi við norsk-íslenska járnblendisamninginn. Í þessari n., efnahagsmála­nefnd, er fjallað um neytendamálefni, og þar hafa verið samþykktar hugmyndir um reglur um sameiginlegar norrænar merkingar á ýmsum vörum sem fyrst og fremst eru notaðar á heimilum og geta valdið ótrúlegri hættu ef þær eru ekki merktar á þann hátt að það skiljist í öllum þessum löndum sem svo mikil samskipti hafa. Í efnahagsmálanefnd áttu sæti þeir Jón Skaftason og Sverrir Hermannsson.

Í menningarmálanefnd var lögð höfuðáhersla á hækkun framlags til Norræna menningarmálasjóðsins. N. vann að stuðningi við þátttöku ýmissa samtaka almennings í menningarstarf­semi Norðurlanda, og aukin áhersla var lögð á stuðning við norrænt íþróttasamstarf. Í þessari n. var töluvert fjallað um gagnrýni sem komið hefur fram á því, að kostnaðurinn við úthlutun bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hafi varið verðlaununum yfir höfuð, ef svo má segja. A. m. k. hefur kostnaðurinn vaxið mun hraðar en verðlaunaupphæðin. Menningarmálanefndin hefur unnið að miklu samstarfi í útvarps- og sjónvarpsmálum og nú á næstunni er ávöxtur þess samstarfs norræn ráðstefna um sjónvarps­samstarf um gervihnetti. Slík ráðstefna verður haldin nú í maímánuði og er ýmissa merkra nýjunga þaðan að vænta. Á þessu sviði munu hafa orðið miklu stórstígari og hraðari fram­farir heldur en menn almennt hafa gert sér grein fyrir, og verulegar breytingar geta orðið á þessu sviði áður en nokkurn varir. Þá hefur skipt miklu máli, ekki síst fyrir okkur íslendinga, samstarf um sérmenntun sem oft og tíðum er svo dýr og haldið uppi fyrir svo fáa að það er okkur fjárhagslega um megn. N. hefur lagt áherslu á að norræn prófskírteini hafi sama gildi í öllum löndunum. Hún hefur staðið að rannsóknum á heilsufari á norðlægustu slóðum og staðið að bættri dreifingu á ýmiss konar kennslu­gögnum á norrænum löndum. Unnið hefur verið að því að sett yrði upp norræn menningarmið­stöð í Finnlandi og önnur í Færeyjum. Þau mál eru nú í höndum ráðherranefndarinnar. Íslenski fulltrúinn í menningarmálanefndinni og jafnframt formaður hennar nú um nokkurra ára skeið er Gylfi Þ. Gíslason.

Áður en lengra er haldið bíð ég hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég les hér nöfn þm. án þess að nota þá titla sem við erum vön hér. Það geri ég einungis vegna þess að um skýrslu er að ræða, en ekki þingræðu í venjulegum skilningi.

Menningarfjárlögin og menningarmálasjóðurinn eru málefni sem menningarmálanefndin hef­ur mikið fjallað um, en á vegum ráðherranefnd­ar Norðurlandaráðs eru sérstök menningarfjár­lög sem Norðurlandaráð fjallar um, auk hinna almennu fjárlaga ráðsins. Fjárlög ráðherranefnd­arinnar til menningarmála á árinu 1976 námu samtals 45 millj. 263 þús. dönskum kr. og þar af gengnu til Norræna menningarmálasjóðsins 6.5 millj. d. kr. Frv. til fjárlaga ársins 1977 er að upphæð samtals — þessi tala mun nú hafa breyst nokkuð frá því sem stóð í skýrslunni, en frv. var 52 millj. d. kr. Lokaupphæðin varð ekki langt frá því.

Í skiptingu þessara verkefna, sem norrænu menningarfjárlögin eru miðuð við, fer langstærsti hlutinn til rannsókna sem fram fara í ýmiss konar norrænum rannsóknastofnunum, á síðasta ári í 16 millj. 393 þús. d. kr. Til kennslu­mála í ýmsum samnorrænum skólum og föstum námskeiðum fóru 6 millj. 530 þús., til almennrar menningarstarfsemi, þ. á m. Norræna hússins, listaverðlaunanna, tónlistarsamstarfs o. fl., fóru 6.5 millj. d. kr. Auk þess var sérstakt ráðstöfunar­fé, fé ráðherranefndarinnar til ýmissa annarra menningarmála 5 millj. d. kr.

Á menningarmálasviði Norðurlandaráðs má segja að hafi verið lögð sérstök áhersla á síðasta ári á norrænar menningarvikur, sem fram fóru í ýmsum byggðarlögum á Norðurlöndum, og var haldin hvorki meira né minna en 51 slík menningarvika á síðasta ári. Má því heita, ef þetta væri samanlagt, að síðasta ár hafi verið samtals eitt norrænt menningarár. En engu að síður er þarna um að ræða á þessu sviði mörg óleyst verkefni, og alltaf hafa umsóknir til Norræna menningarmálasjóðsins á þessu sviði verið langtum fleiri en unnt er að sinna.

Í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins var yfir árið 1976 af hálfu Íslandsdeildar Jóhann Haf­stein, en varamaður hans, Gils Guðmundsson, tók aðallega þátt í þeim störfum. Á Norðurlanda­ráðsþinginu 1976 var svo Sverrir Hermannsson kosinn í stjórn sjóðsins frá áramótum og vara­maður hans er Gils Guðmundsson.

Að frátöldum þessum nefndum, sem ég hef hér lauslega fjallað um, er um að ræða sérstaka fjárlaganefnd, sem hefur fengið aukið verhefni nú á síðustu árum, og sérstaka upplýsingamála­nefnd, sem fyrst og fremst annast ritstjórn tíma­ritsins Nordisk kontakt sem hér liggur á borðum hvers einasta hv. þm., kemur út hálfsmán­aðarlega og flytur fréttir af þjóðþingum Norð­urlandanna.

Forsætisnefnd ráðsins annast stjórn þess milli þinga. Í des. s. l. var ákveðið að af hálfu íslend­inga skyldi Jón Skaftason vera í forsætisnefnd ráðsins yfirstandandi ár og hann er núverandi formaður Íslandsdeildarinnar sem annars er eins skipuð og hún áður var.

Af annarri starfsemi ráðsins á síðasta ári vil ég sérstaklega geta um ráðstefnu sem haldin var í Kristiansand í Noregi á s. l. hausti og fjallaði um þingræði og lýðræði. Á þeirri ráðstefnu voru haldin mjög athyglisverð erindi sem ég tel að öll skipti miklu máli fyrir starf stjórnmála­manna. Ég vonast til þess að hv. þm. hafi fengið í skýrsluhefti þessi erindi prentuð. Hafi svo ekki verið mun verða tryggt að það verði nú innan skamms. Ég held að á þessu sviði verði um að ræða verulegt framtíðarverkefni fyrir ráðið, auk þeirra verkefna sem alltaf falla til og eru í raun og veru mun smærri og engan veginn þess eðlis að þau veiti alltaf tilefni til feitletraðra stórra fyrirsagna. Þar er um að ræða ýmiss konar atriði sem gera daglegt líf fólksins í þessum lönd­um auðveldara og samskipti fólksins léttari.

Hvernig eiga menn að átta sig á því, í hvaða ástandi þingræði er í löndum okkar, hvaða vandamál blasa við lýðræði í löndum okkar og í hvaða farveg þingræði og lýðræði virðast vera að falla? Á þessu sviði held ég að Norðurlöndin hafi verulegu hlutverki að gegna. Og það er vegna þess að þau hafa öll svipuð sjónarmið, byggja á svipuðum grundvelli að þessu leyti og hafa sín á milli miklu nánara samstarf en dæmi eru til um nokkurt annað samband eða samstarf meðal frjálsra ríkja nokkurs staðar annars staðar í heimilnum. Þess vegna held ég að það sé verulega gagnlegt fyrir okkar þing, ekki síður en þjóðþing nágranna okkar, að styrkja samstarf okkar við stjórnmálamenn hjá norrænum þjóðum og það sé langtum mikilvægara heldur en sú gagnrýni sem stundum er höfð uppi í því formi að hér sé aðeins um yfirborðslegt hjal og hégóma að ræða. Það er langt frá því, það höf­um við svo sannarlega reynt sjálf fyrir ekki mjög löngu, að þegar verulega reynir á, þá vitum við að hér er um að ræða fólk, sem stendur með okkur, og fólk, sem við þurfum líka að standa með.