29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

269. mál, norrænt samstarf 1976

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla nú aðeins að lengja þessa umr. með örfáum orðum, en ekki að halda hér neina stórræðu að þessu sinni.

Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, 5. þm. Reykv., fyrir að hafa gengist fyrir því að gefa þessa skýrslu út og gera hana svo vel úr garði sem raun ber vitni. Ég vil í öðru lagi staðfesta það sem hún sagði í sínum upphafsorðum, að upphaflega var það ætlun okk­ar að verða samferða með þessar tvær skýrslur og ræða þær undir einum dagskrárlið. En mér var satt að segja ókunnugt um fjarveru hv. þm. þegar forseti innti mig eftir því, hvort ég væri reiðubúinn til þess að flytja mína skýrslu, og má vera að það hafi verið mistök hjá mér að ganga ekki úr skugga um það og vil ég þá biðja afsökunar á því. En hitt vil ég þó segja, að ég tel að þetta fyrirkomulag sé alls ekki síðra, að ræða þetta sitt í hvoru lagi, því að það gefur þessari skýrslu aukið gildi að mínu mati að hún er rædd sem sérstakur dagskrárliður.

Ég tel að það sé mikil bót að því að fá þessa skýrslu og alveg sjálfsagt að henni verði vísað til utanrmn. eins og hverju öðru þingmáli. Enda þótt tæpast sé að vænta afgreiðslu í n., þá mætti þó a. m. k. gjarnan koma nál.

Það er vissulega hárrétt, að í skýrslu minni um utanríkismál var ekki mikið rætt eða raunar ekki neitt um málefni Norðurlandaráðs og norrænt samstarf. Það stafar af því, að áður en ég lagði skýrslu mína fram var þessi skýrsla komin og ég sá ekki ástæðu til þess að fara að tvítaka eða endurtaka það sem áður var búið að leggja fram sem skýrslu á hv. Alþ. En ég vil þó geta þess, að í fylgibæklingi, sem var með skýrslu minni um utanríkismál, var allnáið greint frá af­greiðslum á þingi Hinna sameinuðu þjóða og skýrt frá afstöðu einstakra Norðurlandaríkja á þeim vettvangi, þannig að að vissu leyti má segja að ég hafi vikið að norrænu samstarfi.

Ég hef svo oft rætt norrænt samstarf og þýðingu þess, að ég tel ástæðulaust fyrir mig að endurtaka það. Ég tek undir það, sem hér var sagt, að norrænt samstarf er einn af hyrningar­steinum íslenskrar utanríkisstjórnmálastefnu. Þetta hef ég svo oft áður sagt, að raunar má segja kannske að óþarfi sé að endurtaka, en skaðar þó kannske ekki.

Ég tel að starf Norðurlandaráðs og norrænt samstarf, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna, sé okkur svo mikils virði að við mundum tæpast geta tekið þann þátt sem við gerum í alþjóða­málum ef við hefðum ekki þessa samstöðu og þetta samstarf m. a. á vegum Norðurlandaráðs. Og ég skal játa það, að í minni tíð sem utan­rrh. hef ég ekki sinnt þessu svo mjög, þ. e. Norðurlandaráði. Það hefur verið á vegum þings­ins kosið til ráðsins og þess vegna eðlilegt að það séu þm. fyrst og fremst, sem þar starfa. En ég vil þó segja það, að á síðustu þrem þingum hef ég mætt og með vaxandi áhuga og áliti á því starfi sem fram fer á þessum vettvangi.

Ég endurtek sem sagt þakkir mínar og rn. fyrir þessa skýrslu og vona og veit raunar að hún er upphaf að áframhaldandi skýrslugerð, og tel ég það til mikilla bóta.