29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

107. mál, söfnun og úrvinnsla íslenskra þjóðfræða

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um till. til þál. um söfnun íslenskra þjóðfræða sem hér var flutt fyrr í vetur. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt tillögunnar.

Í grg. fyrir till. er sagt frá því, að skipuleg þjóðháttasöfnun hafi verið mjög takmörkuð síðan séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili féll frá og þangað til þjóðháttadeild Þjóðminjasafns tók til starfa. Í þessu er fólginn veru­legur misskilningur, en hann er sá að Lúðvík Kristjánsson hefur á s. l. 30–40 árum safnað íslenskum þjóðháttum til sjávarins og hann hefur rætt við nokkuð á þriðja hundrað manna víðs vegar um landið til þess að afla sér heimilda um þessa þjóðhætti. Flestir eru þessir heimildamenn Lúðvíks fæddir á seinni helmingi síð­ustu aldar, jafnvel margir á tímabilinu frá því um miðja öldina og fram um 1880. Samtímis þessu hefur verið reynt að kanna öll prentuð rit sem ætla má að geymi fróðleik um þetta efni. Og loks hefur Lúðvík skoðað mikinn fjölda handrita í skjalasöfnum landsins og erlendis þar sem helst mátti vænta fróðleiks um ís­lenska þjóðhætti við sjávarsíðuna. Samtímis þessari heimildakönnun hafa verið gerðar mörg hundruð teikningar í fyrirhugað sjávarháttarit. Má þar nefna báta, verbúðir, hjalla, veiðarfæri, verkfæri ýmisleg og ekki síst ýmiss konar vinnu­brögð. Nú væri ógerlegt að gera mikið af þess­um teikningum vegna þess að heimildir að þeim eru horfnar, hvort sem þær hafa verið áþreifanlegar eða átt að rót mun lengri geymd. En það, hversu þarna var brugðið fljótt við, hefur bjargað miklu. Fé til ferðalaga og til þess að gera þessar teikningar er fyrst og fremst komið frá Vísindasjóði, en einnig hafa bæði Fiskimála­sjóður og Fiskveiðasjóður veitt styrk til þessara rannsókna.

Lengi framan af starfaði Lúðvík að þessari sjávarháttasöfnun án launa, en síðustu 12 árin hefur hann verið á launum hjá Þjóðminjasafni við þetta verk.

Það skal skýrt tekið fram, að þessi söfnun hefur miðast fyrst og fremst við að draga á land það, sem mest hætta var á að lenti í glatkistu, og koma þannig til skila því sem hefði mest þjóðmenningarlegt gildi. Þess vegna hefur Lúðvík miðað þjóðháttasöfnun sína við svokallað árabátatímabil frá upphafi vega og þar til telja má að því hafi lokið hér á landi. Er þá ekki um að ræða fiskveiðar eingöngu, heldur hvers konar sjávargögn og nytjar.

Gera verður ráð fyrir að sú söfnun, sem nú má telja lokið, samsvari fullsamin og prentuð 4–5 bindum álíka stórum og þjóðháttabók Jón­asar frá Hrafnagili er. Ekki mun fjarri lagi að það efni, sem nú má telja fullbúið til prent­unar, samsvari helmingi verksins, en þó skortir þar mest á skýringar, teikningar og ljósmyndir. Þar kreppir skórinn mest að fjárhagslega. Ef lán og lukka væri með er ekki út í hött að ætla að fyrsta bindi verksins gæti komið út árið 1918 og síðan e. t. v. árlega eitt bindi þar til verkinu væri lokið.

Þess má geta að Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, sem fylgst hefur með þessu verki Lúðvíks og er kunnugur því, telur að ekkert sambærilegt rit og það, sem Lúðvík vinnur nú að, sé til meðal annarra þjóða í Vest­ur-Evrópu.

Ég vil svo árétta það sem ég áður sagði, að fjvn. mælir eindregið með samþykkt þessarar till.