29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

59. mál, málefni þroskaheftra

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er greinilegt að enn er þetta mál ekki komið það langt áleiðis hér á þingi sem vonir stóðu til með flutningi tvívegis á þáltill. sem gekk í þá átt að samin yrði heildarlöggjöf um málefni vangefinna. Ég þarf ekki að hafa um þetta ýkjamörg orð. Hv. þm. Helgi Seljan gerði því allítarleg skil. Þar kom fram m. a., eins og segir einnig í nál., að á síðasta vetri mynduðu þrjú rn., heilbrrn., menntmrn. og félmrn., nefnd sem átti að leysa þetta verk af hendi, að semja löggjöf. Sá umræðugrundvöllur, sem hér hefur verið vitnað mikið í, er árangurinn af starfi þessarar n. Það er greinilegt að fulltrúar Þroska­hjálpar, sem er landssamtök þroskaheftra, eru í mörgum atriðum ákaflega óánægðir með þetta. Ég tel þó að það sé ávinningur að því að hafa fengið þetta fram sem umræðugrundvöll, þótt ófullkominn sé. Og ég hef einmitt núna rétt í þessu augnabliki fengið gögn í hendur frá aðilum Þroskahjálpar sem ættu að geta orðið okkur hvatning til að halda þessu áfram, taka til athugunar þennan umræðugrundvöll og lagfæra hann í samráði við þetta fólk, sem er forsvarar vangefinna, og reyna að vinna svo að þessu nú á milli þinga að eitthvað jákvætt og endanlegt geti komið út úr þeim viðræðum og athugunum. Ég legg áherslu á það, að auðvitað er hér sam­ræmingar þörf, — samræmingar sem þó verkar ekki til einangrunar, og þarf síst að undra sig á að viss uggur hafi komið fram hjá ýmsum sem vilja þessum málum vel og óttast einmitt þetta sjónarmið, sem verið er að hverfa frá núna, að bása fólk með ýmiss konar sérþarfir, annmarka og fatlanir saman í sérbása, bæði í löggjöf og í hinu daglega lífi. Þetta er sjónar­mið sem ég hygg að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir og forðast það í samræmdri lög­gjöf að hún yrði til þess að halda sig við þetta gamla, úrelta sjónarmið. En ég tek undir margt af því sem hv. þm. Helgi Seljan sagði um þetta. Hann er áhugamaður um þessi mál og vill vinna þeim vel og það viljum við fleiri hér. Spurn­ingin er og aðalatriðið að setjast niður og reyna að samræma sjónarmiðin og ganga svo frá að þeir menn, sem gerst þekkja til þarfa vangefins fólks, geti við unað.