29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

59. mál, málefni þroskaheftra

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt að valda flm. þessarar þáltill. vonbrigðum með afstöðu minni sem einn af nm. í allshn. Ég er ekki við því búinn að flytja mál til þess að rökstyðja þessa afstöðu allshn, vegna þess að ég hef ekki undir höndum þau gögn sem fyrir n. voru lögð. Þau eru hjá hv. for­manni n. sem því miður er fjarverandi. En ég hlýt að gera í stuttu máli grein fyrir því, hvað mótaði afstöðu mína í hv. allshn. Það var fyrst og fremst fundur sem n. átti með ráðuneytis­stjórunum í heilbrrn. og menntmrn. og sérkennslufulltrúa sem nýlega hefur tekið til starfa í menntmrn. Þeir voru á einu máli um það, að að þessum málum væri unnið nú um þessar mundir. Þeir voru einnig á einu máli um það, að það væri ákaflega vafasamt sem segði í 2. tölul. þáltill., að löggjöfin skyldi stefna að því að setja þessi mál undir eina heildarstjórn, eins og segir í þeim tölulið. Og ég vil segja það, að á þessar skoðanir féllust nm. og eins og ég sagði mótaði þetta fyrst og fremst afstöðu mína og ég hygg annarra nm.

Ég held að það sé ekki heldur rétt, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði, að enn þá ynnu menn að þessum málum hver í sínu horni, eins og ég held að hann hafi orðað það. Okkur var einmitt á þessum fundi gerð grein fyrir því, að það væri starfandi um þetta samstarfsnefnd, og reyndar held ég að sé getið um það hér í nál.

Mér þykja það nokkuð þung orð líka hjá hv. þm. Helga Seljan að segja það, að hér sé á ferðinni misskilningur hjá nm. og hann byggist á því að þeir hafi fengið rangar upplýsingar. Þessar upplýsingar, sem við fengum, komu fyrst og fremst frá þessum ráðuneytisstjórum sem við fengum á fund n., og mér þykja það nokkuð þung orð í garð þeirra, ef sagt er að þeir hafi gefið okkur í n. rangar upplýsingar. — Þessu vildi ég nú koma hér á framfæri.