04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

7. mál, ferðafrelsi

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég mun ekki halda hér langa ræðu um þetta mál við fyrstu umr. eða fyrri hluta umr., en af því að ég hef nú nokkuð verið nefndur í þessu sambandi, þá þykir mér rétt að segja hér aðeins örfá orð. En ég mun ekki segja ævisögu mína að þessu sinni.

Ég er að sjálfsögðu hlynntur því að þessi þáltill. fái rækilega athugun í hv. utanrmn., eins og hv. flm. hefur lagt til, og utanrmn. mun, svo sem venja er til í slíkum tilvikum, láta í té allar þær upplýsingar og aðstoð sem n. kann að óska og það ræður yfir eða getur útvegað.

Hér er sérstaklega talað um Bandaríki Norður-Ameríku, og það er kannske rétt að ég segi nokkur orð af því tilefni, þó að ég muni ekki fara út í þá sögu sem hér var sögð áðan, það er löngu fyrir mína ráðherratíð, það sem þá gerðist. En það er rétt sem hv. flm. greindi, að það var með auglýsingu frá 14. mars 1962 að bandarískir ríkisborgarar voru einhliða undanþegnir þeirri skyldu að fá áritun í vegabréf sin til Íslandsferðar, og svo er enn. Þessi undanþága nær eingöngu til ferðamanna og veitir þeim rétt til allt að 3 mánaða dvalar hverju sinni. Hún veitir þeim hins vegar ekki rétt til að stunda atvinnu hér á landi.

Forsaga þessarar ákvörðunar er, að því er mér hefur verið tjáð í rn., í stórum dráttum sú, að allt frá stríðslokum hafði stöðugt verið unnið að því, bæði innan Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að, að auka ferðamannastraum milli landa, m.a. til að draga úr tortryggni og fjandskap sem oft byggðist á vanþekkingu á högum og sjónarmiðum fólks af öðru þjóðerni. Þannig gerðu fjölmargar þjóðir með sér gagnkvæma samninga fljótlega eftir styrjaldarlokin um afnám vegabréfsáritana til að auðvelda þannig ferðalög milli landa. Allt er þetta í samræmi við það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan. Hins vegar voru Bandaríkin af ýmsum ástæðum ekki reiðubúin að gera gagnkvæma samninga um afnám vegabréfsáritana og töldu m.a. að slíkt mundi gera þeim erfitt um vík að hafa stjórn á straumi innflytjenda til landsins. Þrátt fyrir þessa afstöðu Bandaríkjanna lögðu mörg — ég held að óhætt sé að segja flest ríki Vestur-Evrópu og raunar ýmis önnur mikla áherslu á að laða til sín bandaríska ferðamenn og breyttu þannig þessum reglum þó að Bandaríkin væru ekki fús til þess að hafa fullkomna gagnkvæmni.

Það var á árinu 1947 að þrjú Norðurlandanna, Danmörk, Noregur og Svíþjóð, ákváðu að fella einhliða niður áritunarskyldu fyrir bandaríska ferðamenn, miðað við að hámarksdvöl færi ekki fram úr 3 mánuðum. Finnland fylgdi í fótspor þessara þjóða 1958, og þegar Ísland felldi niður þessa skyldu árið 1962 höfðu flestar þjóðir Vestur-Evrópu löngu áður gengið þannig frá málum hjá sér. Þá hafði þessi tilhögun, eins og ég áðan sagði, verið í gildi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í 15 ár, og þá var einnig farið að hugsa til þess að Ísland gerðist aðill að norræna vegabréfasvæðinu, sem svo síðar varð.

Þá má geta þess til fróðleiks, að það er ekki eingöngu gagnvart Bandaríkjunum sem nokkuð hallar á á þessu sviði. Samningar flestra ríkja þ. á m. allra Norðurlandanna, við Ástralíu kveða á um að ástralíumenn séu undanþegnir áritunarskyldu, en hins vegar þurfa þegnar þessara ríkja að fá vegabréfsáritun til Ástralíu, þótt sú áritun sé að vísu ókeypis og gildistími hennar lengri en annars mundi vera.

Að því er svo Bandaríkin aftur varðar er rétt að taka það fram, að þau munu ekki hafa gert samninga við neina Evrópuþjóð um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana. En komi til þess munu íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að slíkur samningur verði einnig gerður milli Íslands og Bandaríkjanna. Og ef Alþ. samþ. þá till , sem hér er á dagskrá, þá mun að sjálfsögðu viðkomandi ráðh. og ríkisstj. gera ráðstafanir til þess að framkvæma vilja Alþingis.

Að því er varðar ýmsar aðrar þjóðir eru mun strangari reglur í gildi um veitingu áritana til íslendinga en við beitum gagnvart ríkisborgurum þeirra. Í þessum löndum gilda einnig strangar reglur sem takmarka einnig mjög ferðir sendiráðsstarfsmanna um landið, og þess eru sem sagt dæmi að menn með diplómatísk vegabréf eru litnir þar tortryggnum augum.

Ég tel, eins og ég sagði í upphafi, sjálfsagt að utanrmn. kanni þetta mál Og m.a. með tilliti til niðurstöðu Helsinkiráðstefnunnar og framhalds hennar í Belgrad á næsta ári, þá er að mínum dómi eðlilegt að koma á gagnkvæmu ferðafrelsi milli landa, hvort sem í hlut eiga Bandaríki Norður-Ameríku eða einhver önnur ríki.