29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

146. mál, tékkar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. þm. á þá staðreynd, síðan tölvur komu í bankakerfið, þótt peningar séu lagðir inn fyrir hádegi eða jafnvel seinna að degi til og ávísanir gefnar út skömmu eftir að innlegg hefur verið fært til bókunar í banka, — ég ætti nú kannske ekki að nota orðin „fært til bókunar“, vegna þess að það fer ekki inn á reikn­inginn fyrr en í lok starfsdags, að það vill oft brenna við, þó menn eigi peninga inni í bankanum, að þeir hafi ekki löglegan aðgang að þeim samkv. þessu frv. fyrr en daginn eftir að þeir leggja inn. Ég vil líka benda á það, að þó að það sé refsivert að gefa út falskar ávísanir, og ég ætla ekki að mæla því bót, þá er spurning hvort hægt er að setja slík lög að menn taki nokkurs konar sjálfsafgreiðslu á refsingu, þó svo að þeir telji sig eiga fé inni í bönkunum. Því greiði ég atkv. gegn þessu frv.