04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

7. mál, ferðafrelsi

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla nú eins og hæstv. utanrrh. ekkert að víkja sérstaklega að ræðu hv. frsm. þessarar till., heldur fyrst og fremst að gera nokkrar aths. í sambandi við efni till. og í sambandi við grg., þar sem ég hygg að það þurfi nokkurrar athugunar við. Aðalatriðið hjá mér er það, að ég tel að slíka till. þurfi sú n., sem fær hana til athugunar, sem væntanlega verður utanrmn., að taka í miklu viðtækari skilningi heldur en hér er gert.

Ég er að sjálfsögðu samþykkur því sem segir í till., að það verði tryggð full gagnkvæmni í samskiptum við önnur ríki að því er varðar ferðafrelsi. En þetta á bara ekki við Bandaríkin ein, að ekki sé gagnkvæmni í þessum efnum, eins og kemur fram í grg. Þar. segir t.d. í upphafinu: „Þær reglur, sem hér er gerð till. um, eru almennar í samskiptum íslendinga við önnur ríki og raunar í samskiptum flestra ríkja heims.“ Þetta álít ég að þurfi að athuga miklu nánar í utanrmn., og eftir því sem ég þekki best til, þá höfum við ekki gagnkvæm réttindi við nein Austur-Evrópuríki nema að ég hygg Rúmeníu og Búlgaríu, ef ég man rétt, að það séu þau tvö.

Í tengslum við það, sem hv. frsm. var að lýsa um ferðafrelsi sitt í kringum Sameinuðu þjóðirnar, þá er nú kannske rétt að upplýsa það hér og væri rétt að menn gerðu sér grein fyrir því, að sendiherrar okkar og aðrir sendiherrar í Moskvu eru mjög afgirtir og mega ekkert fara nema með leyfi yfirvalda í Moskvu. Ég veit ekki hvort þeirra hringur er stærri heldur en hringur hv. frsm. var. Þetta er alveg sérstakt, að diplómatar hafi ekki ferðafrelsi, íslenskir diplómatar innan Sovétríkjanna.

Svo finnst mér einnig, þar sem segir í till. að vilji önnur ríki ekki fallast á þá skipan, heldur leggi hömlur á ferðafrelsi íslendinga, skuli þegnar þeirra ríkja sæta sömu tálmunum ef þeir kjósa að ferðast til Íslands,“ þá finnst mér að við þurfum að gæta að þessu í viðtækari skilningi. T.d. finnst mér það mjög annarlegt og litli gagnkvæmni í því að íslendingar hér á landi þurfi að bíða 3 ár eftir því að foreldrar þeirra fái fararleyfi frá Sovétríkjunum til þess að heimsækja þá. Ekkert slíkt sambærilegt á við af okkar hálfu. Hvernig á slíku yrði tekið er rétt að athuga í n. Ég ætla ekki að lengja ræðutímann þess vegna meir.

En ég sagði áðan að það væru, að ég hygg, ekki nema tvö Austur-Evrópuríki sem við höfum gagnkvæmt ferðafrelsi hjá. Menn geta auðveldlega skilið það, að ferðafrelsi er auðvitað ekki hjá þjóð sem lokar þegna sína innan steinsteyptra og víggirtra múra eins og Berlínarmúrsins. Og ekki alls fyrir löngu fengum við fréttir af því í íslenska Ríkisútvarpinu að tvö ungmenni í Tékkóslóvakíu fengju ekki aðgöngu þar að háskólanum vegna þess að faðir þeirra á í útistöðum við tékknesk yfirvöld. Annar þessara bræðra sótti um ferðaleyfi til Bonn og ætlaði sér að stunda háskólanám þar. Honum var synjað um slíkt fararleyfi þangað.

Varðandi það, sem segir í grg., að bandarískir þegnar þurfi engin leyfi íslenskra stjórnarvalda til ferðalaga eða langdvalar hérlendis, þá hefur hæstv. utanrrh. þegar leiðrétt það, að það er aðeins til skamms tíma, þ.e.a.s. þetta eru túristar sem mega ekki dvelja hér lengur en þrjá mánuði. Ef dvölin er hugsuð lengur, þá verða þeir að fá áritun frá íslenskum yfirvöldum í vegabréf. Ég er hins vegar engan veginn að mæla bót ýmsum eftirgrennslunum eða seinagangi í passaáritunum sem átt hafa sér stað hjá Bandaríkjunum. En ég er hræddur um að slíkt hafi því miður átt sér stað hjá mörgum öðrum ríkjum. Þó að enginn seinagangur eigi sér stað gagnvart áritun til þeirra ríkja hér hjá okkur, og það muni e.t.v. koma fram undir athugun málsins.

Lok grg eru þannig, með leyfi hæstv. forseta: Sjálfstæði ríkis er m.a. háð fullu jafnrétti í samskiptum við önnur ríki.“ Nú er að athuga það. hvort við höfum þá fullt safnrétti í samskiptum við önnur ríki og hvort Bandaríkin eru einhver ein undantekning í þessu efni. Það held ég að sé langt í frá og rétt að athuga nánar í n. þegar málið kemur til meðferðar.

Ég skal ekki tefja tímann lengur, en þessar aths. vildi ég gera. Ég er auðvitað alveg samþykkur því að fyrirbæri eins og alþm. urðu fyrir í Bandaríkjunum, þegar þeir fóru að heimsækja kanadiska þingið, eru ákaflega óviðeigandi og ná ekki nokkurri átt, og á að kvarta undan slíku og lagfæra og á ekki að endurtaka sig. Um það er ég alveg sammála hv. flm.

Og að lokum það, að við eigum að leggja áherslu á fulla gagnkvæmni í samskiptum við önnur ríki. En þá verðum við að gera okkur grein fyrir hvað er full gagnkvæmni, og ég vil túlka hana í miklu víðari skilningi heldur en fram kemur hjá hv. flm. Skal ég svo láta þessu máli lokið.