29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Aðeins vegna þeirrar ánægju að sjá hæstv. ráðh. koma hér inn í d. til okkar og í von um að hann geti gefið einhver svör þar við, þá bar ég fram þá fyrirspurn áðan og vildi gjarnan að hann svaraði, á hvern hátt ríkisstj. hygðist koma þessu ákvæði í framkvæmd. Þá á ég ekki við að þetta er ný samþykkt, heldur að hér er um að ræða ítrekað ákvæði, ákvæði sem áður hefur verið í lögum, og hlýtur að hafa verið hugað að áður á hvern hátt mætti framkvæma. En auðvitað geri ég þetta alveg sérstaklega vegna þess, að þetta ákvæði var sett inn í frv. af tveimur óbreyttum framsóknarþm. í Nd., eflaust í samráði við hæstv. ráðh. þó. Ég vildi sem sagt vita hvort ráðh. hefði þar gefið einhverja yfir­lýsingu um það, hvernig þetta væri hugsað, og þá fengjum við sams konar yfirlýsingu hér, m. a. til að friða samvisku okkar nokkurra þm. hér í deildinni.