29.04.1977
Neðri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3998 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum fylgja úr hlaði því frv. til l. um breyt. á tekju- og eignarskattslögum sem hér er til umr. Það langa nafn, sem frv. ber, er ein af vísbendingum um hversu tímabær er orðin setning nýrra laga um tekju- og eignarskatt, eins og reyndar frv. það til 1. um tekju- og eignarskatt, sem verið hefur til meðferðar hér á Alþ. undanfarna mánuði, gerir ráð fyrir. Það var hins vegar í upphafi gerð grein fyrir því, að gera yrði breytingu á núverandi lögum um tekju- og eignarskatt vegna skattlagningarinnar í ár og flutt yrði sérstakt frv. þar að lútandi.

Frv. hefur þann tilgang að koma í veg fyrir verulegar breytingar á skattbyrði vegna þess framreiknings á fasteignamati í landinu sem gildi tók í árslok 1976. Efni þess er útlistað í grg.

1. gr. felur í sér þá takmörkun, að fyrning á fasteignamatsverði, sem heimil er samkv. 3. mgr. B-liðar 15. gr. 1., sbr. 3. gr. l. nr. 60/1973, skuli miðast við fasteignamat eins og það var í upphafi árs 1976 og raunar var gildandi allt það ár, en ekki eins og það var á síðasta degi ársins.

Í 2. gr. er á hinn bóginn gert ráð fyrir tvenns konar breytingu. Önnur er breyting á skatthlutfalli og skattstiga sem stendur í beinu sam­bandi við framreikning fasteignamatsins. Skatt­stigi einstaklinga, sem verið hefur 0.6% og 1% verður nú einungis eitt þrep, 0.8% samkv. frv., en skattur félaga, sem verið hefur 1.4%, verður 0.8%. Skattskyldumörkum einstaklinga er hins vegar breytt verulega, þannig að í stað 2.7 millj. kr. skattfrjálsrar eignar, sem verið hefur í gildi s. l. ár, komi 6 millj. kr. fyrir einstaklinga, en 9 millj. kr. fyrir hjón. Þetta er nýmæli, þar eð skattfrjáls eign einstaklinga og hjóna hefur til þessa verið hin sama. Breyting þessi er í átt við þær till. um þetta efni sem gerðar eru í frv. því sem verið hefur til meðferðar Alþingis undanfarnar vikur. Eignarskattshlutfall félaga miðast hins vegar eingöngu við hækkun grunnsins sem reiknað er af, enda er gert ráð fyrir að eignarskattsbyrði félaga verði með þessum hætti jafnmikil og hún var, en eignarskattsbyrði einstaklinga lækki lítillega að heildarfjár­hæð. En greiðendum eignarskatts mun fækka með frv. þessu, ef að lögum verður, um 10 þús.

Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli fulltrúa launþegasamtaka og ríkisins um leiðir sem vera kynnu færar til lækkunar tekjuskatts í tengslum við kjarasamningaumleitanir þær sem nú standa yfir. Í þessum umr. hefur einnig nokkuð verið fjallað um útsvarsálagningu, og hugsanlegt er að breyting á henni komi til greina sem liður í ráðstöfunum í þessu sambandi. Fulltrúar launþega hafa bent í höfuðatriðum á þær leiðir sem launþegasamtökin telja sínum félög­um koma einna helst að gagni við slíka lækkun skatta. Hins vegar hljóta skattbreytingar af þessu tagi að koma því aðeins til álita, að samningar séu að takast innan þess ramma sem ætla mætti að hagkerfið þoli, miðað við hæga niður­færslu verðbólgustigsins og jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Þar sem þær umr., sem ég hér gat um, hafa ekki komist á lokastig, er ekki tímabært að leggja fram á Alþ. að svo stöddu till. í þessa átt. Skýrist hins vegar línurnar í kjarasamningunum meðan frv. þetta er til með­ferðar Alþingis má gera ráð fyrir að gerðar verði till. um breytingar á frv. þar að lútandi. Dragist hins vegar fram yfir þinglok niðurstaða þessa máls, þá er gerð grein fyrir því í grg. þessa frv., að nauðsynlegt kunni að verða að gera breytingar á skattalögum með brbl. í þá veru sem slíkt samkomulag yrði. Rétt þótti að vekja sérstaka athygli á því, að verði ekki orðið samkomulag í þessum málum áður en þingi lýkur, þá megi búast við því að gefin verði út brbl. ef samkomulag næst um þessi mál.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja meir um þetta frv. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.