30.04.1977
Efri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Það eru miklar annir á þingi þessa dagana ég vil taka það fram, að við í meiri hl. heilbr.- og trn. höfðum í raun og veru talið æskilegt að flytja brtt. við ákvæði til bráðabirgða í 194. máli. En ég lét þetta í ljós í framsöguræðu með nál., og töldum við að það mundi nægja til þess að allar konur, sem eiga rétt samkv. þessum lögum, mundu fá þetta greitt frá upphafi. En nú hefur komið fram brtt. og samþykkt hennar mundi í raun og veru gera málið enn þá flóknara, og þess vegna kom heilbr.- og trn. á fund nú og samþykkti einróma að leggja fram svo hljóðandi brtt.:

Brtt. við frv. til l. um breyt. á 1. nr. 56 27. maí 1975, um breyt á l. um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof). Frá heilbr.- og trn.

Fyrri málsliður ákvæðis til bráðabirgða orðist svo:

Ákvæði 1. gr. skal gilda frá gildistöku l. nr. 56 1975.“

Þetta ætti að taka af öll tvímæli um það, að engin kona ætti að þurfa að verða án fæðingarorlofs vegna skerðingarákvæða. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en legg áherslu á að með samþykkt þessarar brtt. mundi málið verða fullljóst.