04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

7. mál, ferðafrelsi

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er sammála því meginefni þessarar þáltill., að það skuli vera stefna íslenskra stjórnvalda að ryðja úr vegi öllum hindrunum á ferðafrelsi. Ég tel þá atburði, sem eflaust eru tilefni flutnings þessarar till., vera ámælisverða af hálfu þeirra sem ábyrgð bera á þeim og að slíkt eigi ekki og megi ekki endurtaka sig og get vel skilið gremju þeirra íslensku alþm. sem urðu fyrir þeim töfum sem raun varð á. Það hefur þegar verið gert að umtalsefni og ég skal ekki ræða það frekar hér.

Jafnframt vil ég segja að ég er öldungis sammála hv. síðasta ræðumanni, hv. formanni utanrmn., um það, að í þessari till. er ekki bent á æskilegustu skipan til þess að ná höfuðtilgangi till., sem sagt að ryðja úr vegi öllum hindrunum á ferðfrelsi. Ég er sammála þeim rökum sem hann flutti fram í því efni og mundi styðja það að till. yrði breytt í samræmi við þau sjónarmið sem hann lýsti og ég þarf ekki að endurtaka. En einu vil ég bæta við sem mér finnst vanta í till. og ég hef ekki veitt athygli að komið hafi fram í þessum umr. Það er, að ef Alþ. fer á annað borð að álykta um ferðafrelsi og að ryðja úr vegi hindrunum á ferðafrelsi, þá finnst mér eðlilegt að í till. sé áskorun til hæstv. utanrrh. eða ríkisstj, að beita sér fyrir því við ríkisstjórnir allra þeirra helstu ríkja sem við höfum samskipti við að þau leggi ekki hömlur á ferðalög borgara sinna til Íslands fremur en við leggjum hömlur á ferðalög okkar borgara til þeirra landa. Við skulum virða að fullu gagnkvæmnisjónarmið í þeim efnum og ekki skipta okkur að því hvað önnur ríki gera gagnvart þegnum annarra landa en okkar eigin þegnum. En mér finnst eðlilegt, ef slíkt mál er á annað borð tekið upp hér á hinu háa Alþ., að þá sé málið ekki í þeim þrönga búningi sem hér er, heldur litið á málið frá miklu víðtækara sjónarmiði.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í fjölmörgum löndum, sem við eigum mikil skipti við, eru hinar mestu takmarkanir á ferðafrelsi borgara þeirra landa hingað til lands, eins og hv. 6. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, vék að í sinni ræðu. Ekkert slíkt á sér stað að því er snertir íslenska borgara gagnvart öðrum löndum. Verði á annað borð samþ. till. um þetta, þá tel ég að í till. ætti að vera setning eða setningar um þetta efni. Gagnkvæmnin á að vera algjör. Ég tek aftur undir þann hugsanagang, sem kom fram í ræðu hv. formanns utanrmn., hv. 4. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, að ég vil ekki að slík gagnkvæmni verði framkvæmd á þann hátt að takmarka ferðafrelsi íslendinga til þeirra landa sem takmarka ferðafrelsi þegna sinna hingað til okkar, að því leyti erum við fullkomlega sammála, heldur tel ég lágmark að Alþ. láti í ljós þann vilja við ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því við ríkisstjórnir þeirra landa, þangað sem íslenskir þegnar mega vegna íslenskra yfirvalda ferðast frjálst og óhindrað, að þegnar þeirra fái líka að ferðast frjálsir og óhindraðir hingað til lands.