30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4025 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins í örstuttu máli vil ég gera aths. við meðferð Ríkisútvarpsins á umr. hér í þessari hv. d. í kvöldútvarpi í gærkvöld og raunar láta fylgja með að auki aths. um vinnubrögð af hálfu þingfréttaritara Ríkisútvarpsins nú á þessum vetri.

Í gærkvöld var útvarpað í heimildarleysi hljóðriti af umr. hér í d. um frv. um ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksreykingum. Ég hef innt hv. þm. Jón G. Sólnes eftir því, hvort hans heimildar hafi verið leitað. Svo var ekki. Minnar heimildar var ekki leitað til þess arna og þessu af okkar hálfu því útvarpað í heimildarleysi. Ég hygg að þetta hafi ekki verið gert okkur hv. þm. Jóni G. Sólnes til hneisu, alls ekki. En þetta er óheimilt, og hér er um að ræða allhættulegt afbrigði, vegna þess hversu auðvelt er einmitt með þessum hætti að grípa orð úr munni manna, slíta þau úr samhengi, vegna þess að breytingar eru gjarnan gerðar á segulböndunum og ákaf­lega auðvelt að breyta ræðum manna þar þannig að fram komi ekki aðeins í áherslum, heldur jafnvel í meiningum. Þetta var gert í heimildar­leysi og þetta er vítavert athæfi. Ég held því fram að það, sem útvarpað var úr þessum umr., hafi verið þess háttar, að a. m. k. afstaða mín til málsins hafi ekki orðið ljósari við þetta. Sérstaklega varð hún að sumu leyti dálítið hjá­kátleg í útvarpsþættinum þegar útvarpað var þeirri yfirlýsingu minni, að ég mundi aldrei undir neinum kringumstæðum flytja í opinbera fjölmiðla, hvorki sjónvarp né útvarp, yfirlýsingar um það að ég væri hættur að reykja. Og síðan er þetta gripið út úr umr. hér, þessi segulbandsupptaka, og flutt í útvarpi rakleitt.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að undirtektir þm., eins eðlilega og þær hljómuðu hér í d. við ágæta ræðu hv. þm. Jóns G. Sólness, urðu í útvarpinu á þá lund, að hlustendur hefðu vel getað ímyndað sér að hér hefði verið flutt gaman­mál, sem alls eigi voru.

Ég vil fyrir mína hönd persónulega leggja blátt bann við því að fréttamaður Ríkisútvarpsins not­færi sér þingræður mínar á þennan hátt í heimildarleysi. Ég hef rætt við þingfréttaritarann áð­ur persónulega um störf hans hér í þinginu undir fjögur augu og þá kannske fyrst og fremst af reynslu gamals fréttamanns, eins og gamalreyndur fréttamaður við minna gamalreynd­an fréttamann. Ég mun ekki rekja þær viðræður, en vil aðeins í lokin segja þetta, að ég hef verið mjög óánægður með starf þessa fréttaritara fyrir Ríkisútvarpið hér í þinginu.