30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4032 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

234. mál, Iðnlánasjóður

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir síðasta ræðumanns til hæstv. iðnrh. fyrir að hafa lagt fram frv. þetta, þó seint sé fram komið, og verður tæplega of fast að orði kveðið um nauðsyn þess einmitt að bætt verði fjár­magnsaðstaða þeirra manna úti um landið sem annast viðhald á veiðarfærum skipanna okkar og þá náttúrlega fyrst og fremst nótaveiðiskip­anna og togskipanna. Hér er um að ræða stór­kostleg verðmæti sem veiðarfæragerðirnar úti á landi fjalla um og mjög mikil verðmæti í húfi að auðveldað sé þeim aðilum, sem þessi störf inna af höndum, að vinna þau.

Ég vil einnig taka heils hugar undir brtt. þá sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson lagði hér fram og gerði grein fyrir. Mér er persónulega kunn­ugt um það, að ýmsir iðnrekendur og stjórnendur vinnustaða bera það fram sem afsökun — og ég efast ekki um ýmsir þeirra með fullum rökum — fyrir því að þeim hefur ekki tekist að bæta umhverfi á vinnustað og hollustuhætti eins og æskilegt væri, að þá bresti til þess fé og ekki sé ætlað fyrir fjárþörf til þeirra hluta. Kunningi minn einn, sem rekur járnsmíðaverk­stæði hér í grennd við Reykjavík, orðaði þetta beinlínis þannig við mig eitt sinn í vetur, að hann væri viss um að þeir peningar, sem varið er til þess að bæta umhverfið, prýða umhverfið og bæta hollustuhætti á vinnustað, mundu skila meiri vöxtum en fé sem varið er beinlínis til verklegra framkvæmda ýmiss konar á verkstæðunum. Sú hefur orðið reynslan, þar sem hægt hefur verið að leggja fé í slíka hluti, að þetta hefur aukið afköst, gert mennina ánægðari á vinnustað og leitt beinlínis til hagkvæmari rekstrar.

Þetta er það sem snýr að fyrirtækjunum sjálfum, sem sagt að líkur benda til þess að hægt verði að gera þau beinlínis arðbærari með þess­um hætti, með því að sjá fyrir þessu fé. Hitt snýr síðan að fólkinu, sem störfin vinnur á þessum vinnustöðum, sem e. t. v. er mest um vert. Það er þýðingarmikið að við fáum ein­mitt þetta atriði viðurkennt í lögum og reglum sem lúta að fjármögnun, að okkar innlendu fyrirtæki eigi að verja hluta af fé sínu einmitt til þeirra hluta sem að umhverfismálum lúta. Það er þýðingarmikið, þegar við erum jafn­framt að tala um mengunarhættu af stóriðju­fyrirtækjunum með eignaraðild útlendinga, að við sýnum þá þetta viðhorf til okkar innlendu fyrirtækja.