30.04.1977
Neðri deild: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4035 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

101. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. málsins, þegar nokkrar umr. urðu hér í hv. d., var ég bundinn við umr. í Ed. og gat því ekki tekið þátt í umr. hér. Ég tel því rétt að gera hér grein fyrir atkv. mínu.

Svo er mál með vexti, að stjórn Andakilsárvirkjunar hefur óskað eindregið eftir því að þessi heimild til þess að reisa og reka vatnsaflsstöð við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði verði samþykkt. Eigendur Andakílsárvirkjunar eru Akraneskaupstaður, Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Þessir aðilar óska eindregið allir eftir að fá þessa heimild. Það er gengið út frá því og er alger samstaða um það, að eignaraðild að fyrirhugaðri virkjun við Kljáfoss yrði hagað þannig, að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla ásamt Dalasýslu yrðu einnig meðeigendur orkuversins.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa gert einróma samþykktir um að skora á Alþ. og ríkis­stj. að greiða fyrir því að Kljáfoss verði virkjaður. Samkomulag liggur fyrir við landeigendur um málið, eins og greint er á fskj. I. Frv. er flutt af hv. formanni fjvn. og hæstv. forseta Sþ. í Ed. og var afgreitt þaðan. Iðnn. þessarar d. hefur mælt með frv., þ. e. a. s. 6 af 7 nm. Ég tel að hér sé um álitlega virkjun að ræða og er því fylgjandi þessu frv, og segi já.