04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

7. mál, ferðafrelsi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni ræðu hv. síðasta ræðumanns. Það er rétt hjá honum, ég sagði að fyrri ræða hans hefði verið lágkúra, og ég ætla að segja það hér, að sú síðari var enn þá lágkúrulegri og ég skal segja honum af hverju.

Hann spurði mig hvort mér hefði þótt fyrri ræðan lágkúra, af því að hann hafði minnst á blóðbaðið í Ungverjalandi. Slíkur málflutningur af hans hálfu er vitaskuld það lágkúrulegasta af öllum lágkúrum. (Gripið fram í: Hvað átti ég að halda þegar ég fékk ekki skýringu einu sinni á þessu?) Það er eftirtektarvert, að þetta var það eina sem hv. þm. gat dottið í hug að mér hefði þótt athugavert við ræðu hans.

En herra forseti, nú ætla ég að segja ástæðuna fyrir því að mér þótti ræða hv. þm. Ellerts B. Schram lágkúra. Aldrei nokkurn tíma fremur en aðrir hv. þm. Sjálfstfl. getur hann staðið á rétti Íslands gagnvart Bandaríkjunum. Þeir taka málstað bandaríkjamanna — og hvernig? Með því móti að benda á að sumt sé ekki betra annars staðar. Þeir hliðra sér hjá að ræða rétt Íslands og íslendinga gagnvart bandaríkjamönnum. Það er nýlenduhugsunarhátturinn sem er lágkúrulegur.