30.04.1977
Neðri deild: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

18. mál, skylduskil til safna

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að minnast aðeins á þetta mál, úr því að það kemur aftur til þessarar hv. d. eftir að það var afgreitt fyrir nokkru héðan úr d. og hefur nú verið um það fjallað í hv. Ed. og á því gerðar breytingar sem eru hvorki meira né minna en fimm talsins, svo að maður gæti ímyndað sér að þarna væri um miklar breytingar að ræða. En sannleikurinn er þó sá, að það er engin efnisbreyting í þessum brtt., sýnist mér, og að því leyti til get ég sagt það, virðulegi forseti, að það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að amast við því að þessar brtt. gangi fram. En eins og ég segi, þá er hér ekki um efnisbreytingar að ræða.

Mér sýnist að það sé skaðlítil smásmygli, sem hefur ráðið þessum breytingum, og dálítið ívaf af orðhengilshætti, og ef ég hefði tíma til eða ef ég teldi að þingið hefði tíma til að fjalla meira um þetta mál og kannske ef ég væri þrasgjarnari en ég er, þá mætti rekja þetta dálítið nánar og sýna fram á hvernig lagasmíði á sér stundum stað hér á hv. Alþ. En eins og ég segi, þá er sú smásmygli, sem ráðið hefur þessum form­breytingum á frv., svo skaðlaus og lítilfjörleg að ég vil leyfa mér, af því að ég hef talað fyrir þessu frv. áður hér fyrir hönd menntmn. þess­arar hv. d. að segja að hér er um skaðlausa smá­smygli að ræða, engar efnisbreytingar, og ég held að það væri ekki til neinnar þurftar að vera að ganga gegn þessum breytingum hv. Ed., heldur sé tími til þess kominn að Alþ. afgreiði þetta mál. Skiptir þá ekki máli þó að það hafi aðeins verið skipt um slaufu á flíkinni áður en hún var send út til almennings.

Sem sagt, ég held að þó að þessar brtt. sýnist vera allmargar, þá er hér ekki um neina þá efnisbreytingu að ræða sem gerir það nauðsynlegt að ganga gegn þeim.