30.04.1977
Neðri deild: 81. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

18. mál, skylduskil til safna

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Þegar málið var hér til 2. og 3. umr. í þessari hv. d. tilkynnti ég við 2. umr. að ég mundi flytja brtt. við 3. umr., sem ég gerði, þess efnis, að til viðbótar þeim söfnum, sem tilgreind eru í 10. gr. frv. eins og það lá fyrir hv. d., bættist eitt safn á Suðurlandi, sem ég tilgreindi sem Bókasafnið í Vestmannaeyjum. Ég benti þá á það, að samkv. 10. gr. frv., eins og það lá hér fyrir hv. Nd., var gert ráð fyrir að safn á Vesturlandi, í Stykkis­hólmi, fengi viss forréttindi, safn á Ísafirði fengi viss forréttindi, safn á Akureyri einnig og einnig á Seyðisfirði, í sambandi við skylduskil útgefenda á vissum ritum ættu þeir að standa skil á vissum eintakafjölda til Landsbókasafns sem síðan yrði afhent þessum söfnum. Mér fannst og finnst að þar hafi nokkuð verið gengið á hlut eins landshluta, þ. e. Suðurlands, það var þar alveg undanskilið. Þar mátti ekkert safn fá sent eintak til varðveislu, eins og þá var talið í frv. Lagði ég þá til að Bókasafnið í Vestmannaeyjum, sem er eitt af elstu bókasöfnum landsins, elsta bókasafnið á Suðurlandi, yrði þar einnig til­greint í lögunum, að það nyti þessara réttinda. Þessi till. mín var felld hér í Nd. Ég verð að viðurkenna að það kom mér nokkuð á óvart, því þarna var að mínum dómi um hreint leiðréttingar­mál að ræða, meira en réttlætismál, það var að­eins um leiðréttingarmál að ræða, að einn lands­hluti yrði ekki þarna undanskilinn. En það fór þó svo, að þessi till. mín náði ekki samþykki. Að vísu voru hér fáir þm. mættir, rétt að atkvgr. var lögleg, á mörkum að atkvgr. væri lögleg. En við því er ekkert að segja. Þetta var lögleg afgreiðsla úr deildinni, og auðvitað varð ég að sætta mig við hana.

Nú kemur þetta frv. aftur hingað í þessa hv. d. frá Ed. verulega breytt og efnislega breytt. Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. að það séu smávægilegar breytingar, þetta er efnisleg breyting, svo sem ég skal koma að.

Hv. 4. þm. Vestf. mælti gegn þessari till. minni á þeim forsendum að þarna væri um varðveislu að ræða, þessi tilteknu söfn tækju á sig þær skyldur að varðveita þau eintök sem þeim yrðu afhent, og af þeirri ástæðu mælti hann gegn því, að það væru skyldur sem þessi söfn tækju á sig, en taldi ekki rétt að þessi réttindi og þær skyldur yrðu færð á Bókasafnið í Vestmanna­eyjum. Nú var þessi varðveisluskylda tekin út úr frv. í hv. Ed., þannig að rök hans eru þar með úr sögunni, og þarf ekki að vera ágreiningur um það, að þessi hv. þm. getur af þeim orsökum ákaflega vel nú mælt með þeirri brtt. sem ég ætla hér að flytja á eftir. Og hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir afstöðu sinni á þeim forsendum, að hann óttaðist að ef þessi till., sem ég þá flutti, yrði samþykkt, mundi hún mynda einhvern hala þannig að fleiri bókasöfn kæmu með kröfur um sömu réttindi og ég lagði til, að ég taldi sem leiðréttingu, að eitt safn á Suðurlandi fengi sömu réttindi og söfn í öðrum landfjórðungum. En till. mín nú, sem ég mun leyfa mér að flytja hér skriflega og mælast til við hæstv. forseta að hann leiti afbrigða fyrir henni, ég held að hún sé þess eðlis að fullnægt verði báðum þeim atriðum sem hv. 4. þm. Vestf. og hæstv. menntmrh. töldu að ekki gætu samrýmst frv. eins og það var, þegar það lá fyrir þessari hv. d. við 3. umr. Till. mín er við 13. gr. frv. sem nú er orðin. Hv. Ed. tók út 2. mgr. 10. gr. frv., eins og var hér samþykkt, og gerði þann hluta hennar að ákvæði 13. gr. frv. Þess vegna verður brtt. mín ekki við 10. gr., heldur við 13. gr. frv. eins og það er orðið eftir að það kemur frá hv. Ed., en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir orðunum „eitt eintak hverju safni“ komi: Auk þess er ráðh. heimilt að fenginni umsögn landsbókavarðar að fela Landbókasafninu að láta öðrum bókasöfnum í té eitt eintak af umræddum ritum, þó þannig að ekki verði um fleiri en eitt bókasafn að ræða í hverju kjör­dæmi, sem þessara réttinda njóta.“

Eins og frv. er nú orðið eftir meðferð hv. Ed. eru aðeins þrjú kjördæmi landsins sem eru und­anskilin. Það eru Norðurlandskjördæmi vestra, Suðurlandskjördæmi og Reykjaneskjördæmi. Ég ætlast til þess hreinlega að þessi sanngirniskrafa mín og tillaga mæti hér skilningi í hv. d., þannig að við séum ekki að gera upp á milli kjördæma að því leyti. Það er búið að undanskilja ákvæðið um varðveislu, sem var að vissu leyti bæði jákvætt og neikvætt fyrir bókasöfnin. Þau fengu send þessi rit, en urðu þá um leið að láta binda þau inn, sem kostar verulegt fjármagn. En þess­ari kröfu, þessari skyldu hefur verið létt af bókasöfnunum sem fá þessi tilgreindu eintök send, og ég ætlast til þess að við séum ekki í þessari hv. d. að gera upp á milli kjördæma landsins þannig að lögbinda það að undanskilja þrjú af átta kjör­dæmum landsins frá því að landsbókavörður geti mælt með því og ráðh. þar af leiðandi geti samþykkt það, að eitt bókasafn í hverju þessara kjördæma njóti sömu réttinda og frv. gerir ráð fyrir að bókasöfn í öðrum kjördæmum landsins njóti.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fjölyrða meira um þetta, hæstv. forseti, en leyfi mér að leggja fram skrifl. brtt. við frv. og vænti þess, að þessi hv. d. fallist á þessa, að ég tel, leiðréttingu, ekki aðeins sanngirnismál, þetta er bara ósköp eðlileg leiðrétting. Þarna er verið að gera upp á milli landshluta.

Það var bent á það, að þessi tilgreindu söfn hefðu áður notið þessara hlunninda. En ég segi: Hví í ósköpunum eiga að vera forréttindi? Þó að þessi söfn hafi frá einhverjum tíma notið einhverra forréttinda, hví í ósköpunum mega ekki önnur söfn nú í dag fá sömu forréttindi? Ég vil benda á það, að Bókasafn Vestmannaeyja er eitt af elstu bókasöfnum landsins. Það er stofnað 1860 og hefur starfað óslitið síðan, nú í rúmlega 100 ár. Það eru aðeins tvö bókasöfn á landinu sem hafa lengri sögu að baki sér. Það er bókasafnið í Stykkishólmi, Amtsbókasafnið þar, og bókasafnið í Norðurlandskjördæmi eystra. Þau hafa lengri sögu á bak við sig, annað frá 1838, en hitt frá 1842, ef ég man rétt. Okkar bókasafn í Vestmannaeyjum er frá 1862. Þetta eru þrjú elstu bókasöfnin á landinu. Og ég tel það mjög mikla ósanngirni að veita ekki bókasafninu í Vestmannaeyjum sömu réttindi og öðr­um bókasöfnum á landinu, þó að hin tvö séu eldri. En eins og ég segi, ég tel það leiðréttingu, ekki einungis sanngirnismál, heldur eðlilega leiðréttingu, og ætla að vænta þess, að þessi d. geri þessa leiðréttingu á frv. fyrst það er komið hingað til okkar aftur.