30.04.1977
Neðri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

50. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er búið að vera lengi hér í d. án þess að vera rætt. Nál. liggja fyrir frá meiri hl. á þskj. 238, dags. 16. des., og minni hl., dags. 20. des. s. l. En ástæðan fyrir því, að málið hefur ekki verið rætt, er sú, að búist var við að 1. flm. frv. kæmist það til heilsu að hann gæti mætt hér í hv. d. og tekið þátt í umr. um málið. Því miður hefur það ekki orðið og þess vegna hefur málið dregist.

Á þskj. 238 er svo hljóðandi nál., með leyfi hæstv. forseta:

N. hefur rætt frv., en varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Iðnrh. skipaði n. snemma á yfirstandandi ári „ — þ. e. á árinu 1976 —“ til þess að semja frv. til 1. um breytingu á orkulögum. Ármann Snævarr hæstaréttardómari, sem er formaður n., kom til viðræðu á fund iðnn. Taldi hann að ekki væri mögulegt að fullyrða hvenær nýtt frv. um breytingu á orkulögum yrði sent iðnrh. Sagði hæstaréttardómarinn, að hér væri um vandasamt og umfangsmikið verk að ræða. Auk Ármanns eru í n. Benedikt Sigur­jónsson hæstaréttardómari og dr. Gunnar Sigurðs­son verkfræðingur.

Þar sem stjórnskipuð n. vinnur að samningu frv. um sama efni og um er rætt á þskj. 51 telja undirritaðir vera rétt og þinglega afgreiðslu á málinu að vísa því til ríkisstj., og er það till. okkar.“

Undir þetta rita Ingólfur Jónsson, Ingvar Gíslason og Lárus Jónsson.

Ég geri ráð fyrir að það verði gerð aths. við það þegar ég sagði áðan að það væri meiri hl. Þetta er 7 manna þn., en það eru aðeins þrír sem skrifa undir, en tveir hafa gefið út annað álit og verður mælt fyrir því. Það eru Benedikt Gröndal og Magnús Kjartansson. Þannig eru að­eins 5 nm. sem hafa tekið beinan þátt í afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Ég held að á þessum laugar­degi telji ég ekki ástæðu til þess að fara að rifja upp umr., sem hafa farið fram margsinnis um þetta mál, og láti nægja þessa skýringu sem felst í nál. En hún er sú, að það er starfandi n. til að endurskoða orkulögin. Og það liggur fyrir vitnisburður formanns n., Ármanns Snæ­vars hæstaréttardómara, að þetta sé mjög vandasamt mál. Auðvitað hefur n. þetta frv., sem hér um ræðir, til athugunar. En enda þótt það liggi fyrir telur n., og þar eru tveir hæstaréttardómarar, málið mjög vandasamt. Frá þeirra sjónar­miði virðist því svo vera, að þetta frv. full­nægi ekki því sem þarf að gera og þarf fram að koma þegar löggjöf þessi er endurskoðuð. Og ég vænti þess, hvaða skoðun sem hv. alþm. hafa á þessum málum, að þá geti menn verið sammála um að það sé sjálfsagt að gefa þessari n. tækifæri til að skila frv. Það er því rökrétt afgreiðsla málsins að þessu sinni að vísa því til ríkisstj.