02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

234. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 2. umr. fluttu hv. 1. landsk. þm. og 1. landsk. þm., þeir Eggert G. Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson, till. um að auka við þetta frv. ákvæði um að stofna skyldi sérstaka deild við Iðnlánasjóð í því skyni að lána iðnfyrirtækjum til þess að bæta aðstöðu í verksmiðjum og vinnustöðum, bæta hollustu, aðbúnað allan og til umhverfisverndar. Ég lýsti mig í meginatriðum samþykkan þessari hugsun og tilgangi till., en fór fram á það við hv. flm. að þeir tækju till. aftur til 3. umr., til þess að hægt væri að athuga málið nokkru nánar og ræða það við forráðamenn Iðnlánasjóðs og bankastjóra Iðnaðarbankans, og mæltist til þess að iðnn. tæki málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. Að lokinni 2. umr. hafði ég samband við forráðamenn Iðn­lánasjóðs um málið. Bentu þeir þá strax á, um leið og þeir voru mjög velviljaðir þeirri hugsun sem þarna kom fram, að æskilegra væri frá þeirra sjónarmiði að ákvarða ekki stofnun sérstakrar deildar, heldur fela Iðnlánasjóði berum orðum þetta verkefni. Mér þykir gott, að hv. iðnn. hefur náð algerri samstöðu um breytingu í þessa átt, og vil lýsa eindregnu fylgi við þessa tillögu.