02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

234. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir orð hv. 4. landsk. þm. um það, að hlutur iðnaðarins og m. a. hlutur Iðn­lánasjóðs hefur verið á undanförnum árum allt of lítill. Iðnlánasjóður hefur haft of lítið fjár­magn til ráðstöfunar og aths. hv. þm. í sam­bandi við skýrslu Framkvæmdastofnunar eru því fyllilega réttmætar. Ég vil hins vegar bæta því við, að á þessu ári, 1977, hefur málum þó skilað nokkuð meir til rétts horfs en áður var. Það kemur m. a. fram í því, að í stað þess að frá Framkvæmdasjóði fengust aðeins 250 millj. kr. til Iðnlánasjóðs á s. l. ári, þá tókst að fá það hækkað í 450 millj. kr. nú í ár. Í öðru lagi var framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs 50 millj. kr. á ári undanfarin ár, en er á þessu ári hækkað í 150 millj. M. a. af þessum ástæðum hefur orðið sú breyting á, að ráðstöfunarfé Iðnlánasjóðs, þ. e. a. s. það fé sem hann hefur til að lána iðnfyrirtækjum, var á árinu 1974 rösklega 300 millj. kr., en verður á þessu ári yfir 1200 millj., um það bil fjórfaldast.

Ég vænti þess því, að Iðnlánasjóður standi nokkru betur nú í ár en áður til að sinna útlánaþörfum iðnaðarins. Hins vegar þarf að vinna enn betur að þessum málum og ná því marki, að iðnaðurinn og m. a. Iðnlánasjóður njóti fulls jafnréttis og jafnstöðu við aðrar atvinnugreinar.