02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár um næsta mál á dagskrá þessarar hv. d., þar sem er járnblendiverk­smiðjan í Hvalfirði. Upp hefur komið, svo sem þeir munu vita sem hlustað hafa á hádegisfréttir í dag, nýtt atriði þessa máls sem varðar með­ferð þess. Þm. Vesturl. efndu til almenns fundar um Grundartangaverksmiðjuna að Heiðarborg við Leirárskóla í gær samkv. ósk kjósenda í hreppunum sunnan Skarðsheiðar. Fundurinn hófst kl. rúmlega þrjú eftir hádegið í gær og stóð fram yfir kvöldmatarleytið þangað til kl. var langt gengin í átta. Í lok þessa fundar, sem þm. boðuðu til með kjósendum sínum að þeirra ósk, var samþykkt meðfylgjandi ályktun, sem ég hafði raunar ímyndað mér að hv. þm. Ásgeir Bjarna­son mundi gera grein fyrir hér í d. áður en hafnar yrðu umr. um mál þetta, þar eð hann mun hafa flutt þessa samþykkt hingað suður til Reykjavíkur til þess að koma henni á framfæri við ríkisstj. En ályktunin, sem samþykkt var einróma á fundi þeim sem þm. Vesturl. boðuðu til að Heiðarborg í gær, er svo hljóðandi:

„Almennur fundur íbúa í sveitunum sunnan Skarðsheiðar, haldinn að Heiðarborg 1. maí 1977, samþykkir að skora á ríkisstj. að hlutast til um að fram fari almenn leynileg atkvgr. meðal fólksins í nágrannasveitum fyrirhugaðrar járnblendiverksmiðju á Grundartanga, þar sem könnuð verði afstaða þess til verksmiðjunnar. Jafnframt skorar fundurinn á ríkisstj. að fresta afgreiðslu málsins á Alþ. þar til slík atkvgr. hefur farið fram. Í því efni vísar fundurinn til ummæla hæstv. iðnrh. á Alþ. 10. febr. s. 1., þess efnis, að ekki verði byggðar hliðstæðar verksmiðjur gegn vilja heimamanna.

Fundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til þm. kjördæmisins, að þeir vinni að því að samþykkt þessi nái fram að ganga.

Fundurinn telur ástæðu til, að endurskoðuð og endurmetin sé afstaða til rekstrar og bygg­ingar verksmiðjunnar, og bendir í því sambandi á eftirfarandi:

1. Arðsemisútreikninga Þjóðhagsstofnunar sem nýlega hafa verið birtir almenningi.

2. Breyttar og auknar kröfur Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um mengunarvarnir og um­hverf­is­vernd.

3. Skýrslu Heilbrigðiseftirlits ríkisins um mengun frá álverinu í Straumsvík.

Að lokum leyfir fundurinn sér að átelja þau vinnubrögð, að samningar hafi verið gerðir, verk boðin út og framkvæmdir hafnar við verksmiðjuna áður en Alþ. hefur tekið ákvörðun um málið. Fundurinn telur slík vinnubrögð ólýðræðisleg og síst til þess fallin að auka virðingu Alþingis meðal kjósenda.“

Þessi ályktun var sem sagt samþykkt sam­hljóða, án mótatkv., á fundi þeim sem alþm. Vesturl. boðuðu til um járnblendiverksmiðju­málið að Heiðarborg við Leirárskóla í gær. Og alþm. kjördæmisins var falið að vinna að því, að samþykkt þessi, sem m. a. fjallar um það að frestað verði umfjöllun málsins hér á Alþ. þar til unnt hafi reynst að láta fara fram leynilega atkvgr. þar efra, næði fram að ganga.

Það fer varla á milli mála, hver afstaða þeirra manna er til verksmiðjubyggingarinnar sem þessa samþykkt gerðu einróma í viðurvist þm. sinna í Heiðarborg í gær. Aftur á móti krefjast fundarmenn þar ekki þess, að afstaða þeirra einna verði látin ráða, heldur að kannað verði með fullkomlega lýðræðislegum hætti hið allra fyrsta við leynilega atkvgr. hver afstaða íbúa þessara sveita raunverulega sé.

Nú efast ég ekkert um það, að hæstv. iðnrh. mun vera þess mjög fýsandi að geta staðið við ummæli sín frá 10. febr. s. l., sem hann viðhafði um málefni eyfirðinga sem afþakkað höfðu stórverksmiðju orkufreks iðnaðar við Eyjafjörð, að ekki kæmi til greina að byggðar yrðu slíkar verksmiðjur gegn vilja heimamanna, enda geri ég fastlega ráð fyrir að þar hafi hæstv. iðnrh. túlkað sjónarmið ríkisstj.

Nú ætlast ég ekki til þess, að þessi hv. d. Alþingis felli úrskurð um það, með hvaða hætti verði orðið við þessum tilmælum fólksins sunnan Skarðsheiðar um almenna leynilega atkvgr. En ég vildi gjarnan að hv. þm. Ásgeir Bjarnason, 1. þm. kjördæmisins, segði okkur hér í fyrsta lagi frá því, hvort hann hafi eða einhver annar af þm. kjördæmisins rekið þetta erindi fyrir kjós­endur sína við ríkisstj., að koma þessum til­mælum á framfæri, og þá næst, hverjar undir­tektir þetta hafi hlotið hjá ríkisstj., hvort hún ætli að verða við þessum tilmælum. Ef hv. þm. hefur ekki fengið svör frá ríkisstj. þá þegar er hann ræddi þetta mál, ef hann hefur gert það nú í morgun við ríkisstj., þá óska ég þess að hæstv. forsrh. gefi okkur svör um viðbrögð ríkisstj. við þessari beiðni og segi okkur frá því, ef fjallað hefur verið um beiðnina, hvernig ríkis­stj. ætlar að bregðast við.

Sé nú svo, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fjallað um þessa beiðni kjósendanna sunnan Skarðsheið­ar og ekki tekið afstöðu enn þá, þá mælist ég eindregið til þess við hæstv. forseta d. að hann fresti því að taka málið hér til 2. umr. uns þetta svar ríkisstj. hefur borist, svar við því, hvort hún ætlar að veita þennan frest til þess að fólkið efra geti látið vilja sinn í ljós. Ég ætlast ekki til þess af forseta, sem ósanngjarnt væri og ekki á hans valdi, að hann fari að úr­skurða frestun þar til hin leynilega atkvgr. hafi farið fram, heldur bið ég hann þess eins, að hann hinkri við með að taka málið fyrir þar til svör ríkisstj. við beiðni kjósenda liggja fyrir, því að það mun óþarfi að ríkisstj. mylji það lengi með sér að fjalla um það mál og gefa svör við þessari beiðni. Þetta finnst mér nauðsynlegt, að svar ríkisstj. við þessari beiðni liggi fyrir áður en rædd eru nál. iðnn. d., vegna þess að það, sem kjósendur efra fara fram á, er aðeins að fá að gerast umsagnaraðilar um frv. það sem hér liggur fyrir.

Svo ítreka ég aðeins þetta í lokin: Ég vildi gjarnan að hv. þm. Ásgeir Bjarnason segði okkur frá þessum fundi þarna og hvernig reitt hefur af málaleitan kjósenda. Ef hann getur ekki sagt frá niðurstöðum ríkisstj. í málinu, þá óska ég þess, að hæstv. forsrh. geri okkur þann greiða að segja okkur frá umfjöllun málsins. En að öðrum kosti, ef álit ríkisstj. liggur ekki fyrir, þá óska ég þess, að málinu verði frestað um sinn þar til svar ríkisstj. berst.