02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

Umræður utan dagskrár

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Út af fsp. hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég taka það fram, að það erindi, sem okkur þm. Vesturl. var falið að koma á framfæri við hæstv. ríkisstj., var sent hverj­um og einum ráðh. í morgun fyrir kl. 10. Og til þess að hv. 5. þm. Norðurl. e. viti hvernig sú till. var sem hæstv. ríkisstj. var afhent, þá ætla ég að afhenda honum afrit af þeirri till., þannig að fari ekkert á milli mála að það sé hið rétta erindi sem fundarmenn fólu þm. Vesturl. að koma á framfæri við hæstv. ríkisstj.

Á þessum fundi að Leirá munu hafa verið saman komnir rúmlega 100 manns þegar flest var, og 65 manns greiddu þeim till. atkv. sem fundurinn samþykkti, en allmargir fundarmenn sátu hjá við atkvgr. Ég flutti þá till á þessum fundi, að fundurinn kysi þriggja eða fimm manna nefnd úr sínum hópi til þess að fylgja þessu máli eftir við hæstv. ríkisstj. En hvorki fundar­stjóri né fundarmenn sáu ástæðu til að það yrði gert, og það finnst mér vera merki þess að fund­armenn leggi ekki eins ríka áherslu á samþykkt sína og annars hefði verið, hefðu þeir sjálfir komið og fylgt máli sínu eftir við hæstv. ríkisstj.

Það vil ég líka taka fram, að fyrir viku barst okkur undirskriftaskjal frá að mig minnir um 180 mönnum úr hreppum sunnan Skarðsheiðar, en af þeim hygg ég að hafi ekki verið á þess­um fundi meira en í mesta lagi 40–50 manns. Fannst mér það því miður ekki vera nógu gott, að allir þeir, sem óskuðu eftir þessum fundi, skyldu ekki sjá sér fært að koma á fundinn.

Út af því, hvort ég hafi fengið einhverja niðurstöðu í þessu máli hjá hæstv. ríkisstj., þá finnst mér þess tæpast að vænta þar sem svo skammt er um liðið frá því að málið barst í hendur hæstv. ríkisstj., að hún hafi getið mér eða öðrum þm. Vesturl. neinar slíkar yfirlýsingar. Hæstv. ráðh. munu vafalaust gefa þau svör sem þeir geta við þetta tækifæri og varðandi þá fsp., sem hv. þm. kom fram með. — Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja að sinni.