02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4059 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum umr. utan dagskrár er að sjálfsögðu ekki ástæða til að ræða járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði efnislega, allra síst þar sem það mál er á dagskrá hv. d. nú í dag, hér á eftir. En það eru viss atriði í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar, og þeirri samþykkt, sem gerð hefur verið hér að umtalsefni, sem ekki verður komist hjá að svara.

Bæði í ályktuninni frá fundinum í gær og í ræðum hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Norðurl. e. er fullyrt að ég hafi gefið yfirlýsingu um að hvergi yrðu reistar stóriðjuverk­smiðjur nema í samræmi við vilja heimamanna og nú reyni á. Þau ummæli, sem þessar full­yrðingar eru byggðar á, eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: Í umr. í Nd. Alþ. 10. febr. var rætt um hugmyndir Norsk Hydro um að reisa álver í Eyjafirði. Á þeim fundi sagði ég: „Ég hef aldrei látið í ljós neinar sérstakar óskir eða áform um að reist yrði álver í Eyjafirði. Ég hef þvert á móti, þegar farið var að ræða um þetta nýlega opinberlega, lýst hví yfir, að það yrði ekki meðan ég sæti í þessu embætti byggt álver þar gegn vilja heimamanna.“ Að sjálfsögðu verður við þessa yfirlýsingu staðið ef til þess kemur að athuganir leiði í ljós að æskilegt þyki að reisa álver fyrir norðan, sem ég skal ekkert um segja.

Ég vil aðeins taka það fram, að þær athuganir, sem fram hafa farið á staðarvali fyrir álver í Eyjafirði, eru gerðar eftir ákvörðun og ábendingu iðnrh. Alþb. á árunum 1972–1973. Ég vil einnig taka það fram, að í sambandi við þessa yfirlýsingu eða þessar umr. um hugsanlegt álver í Eyjafirði er að sjálfsögðu ekki minnst á járnblendiverksmiðjuna. En vegna þess að þessi ummæli varðandi hugsanlegt álver í Eyjafirði eru gersamlega rangfærð og heimfærð nú upp á járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, þá held ég að sé óhjákvæmilegt í örfáum orðum að rifja upp gang þess máls.

Bygging járnblendiverksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð hefur verið til umr. og meðferðar í fjögur ár. Það munu vera um það bil fjögur ár síðan niðurstaða rannsókna leiddi í ljós að Grundartangi mundi hagkvæmur og heppilegur staður í þessu skyni, og eftir að athugun hafði farið fram var það iðnrh. Alþb. sem ákvað að þessi staður skyldi verða fyrir valinu. Í fjögur ár hefur bygging verksmiðju á Grundartanga verið til umr. og meðferðar og íbúum á þessu svæði verið kunnugt um málið allan þann tíma.

Veturinn 1974–1975 var til meðferðar á Alþ. frv. um byggingu járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Frv. var samþ. sem lög í apríl 1975. Samkv. þeim lögum var stofnað Járnblendifélagið með bandaríska fyrirtækinu Union Carbide og undirbúningsframkvæmdir hafnar samkv. heimild í þeim lögum. Eftir að bandaríska fyrir­tækið dró sig til baka hafa nú í heilt ár staðið yfir samningaviðræður við norska fyrirtækið Elkem-Spigerverket.

Það frv., sem nú liggur fyrir Alþ., er í meginatriðum í samræmi við lögin frá 1975 sem enn eru í gildi, en með nokkrum breytingum sem leiðir af samkomulaginu við hinn nýja aðila. Frv. hefur nú verið samþ. við þrjár umr. í Nd. og afgreitt frá þeirri d. Það hefur verið til ítar­legrar meðferðar hjá iðnn. Ed., og meiri hl. iðnn. mælir með frv. í nál. sem er dags. 30. apríl, degi áður en þessi umræddi fundur er haldinn. Og frv. er á dagskrá deildarinnar í dag til 2. umr. Ætlunin er að ljúka afgreiðslu þessa máls á Alþ. fyrir þingslit sem verða væntanlega n. k. miðvikudag.

Ég vil í fyrsta lagi benda á það, að lögin um stofnun járnblendiverksmiðju á Grundartanga frá því í apríl 1975 eru í gildi. Það eru lög í dag. Allan þann tíma og öll þessi ár, sem málið hefur verið til meðferðar, hafa ríkisstj. og Alþ. ekki borist óskir um atkvgr. meðal íbúanna né andmæli frá neinni sveitarstjórn á þessu svæði. Hins vegar hefur komið eindregin áskorun frá langfjölmennasta sveitarfélaginu, frá bæjarstjórn Akraness, áskorun um að reisa verksmiðjuna. Hlutaðeigandi sveitarstjórnir í Borgarfjarðar­sýslu hafa allar samþykkt að taka þátt í undir­búningi hafnargerðar á Grundartanga, sem er hluti af verksmiðjumálinu, og þar með a. m. k. óbeint fallist á verksmiðjubygginguna.

Ég hef hér í höndum sameignarsamning um höfn við Grundartanga. Hann er dags. 1. ágúst 1975. Inngangur hans hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps, hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps, hreppsnefnd Leirár- og Melahrepps, hreppsnefnd Skilmannahrepps, bæjarstjórn Akraneskaupstaðar og sýslu­nefndir Borgarfjarðar- og Mýrasýslna, fyrir hönd annarra hreppa sýslnanna en að ofan greinir, lýsa því yfir m. a., að ofangreindir aðilar hafa sameinast um gerð hafnarmannvirkja á Grundar­tanga.“

Undir samninginn skrifa síðan Guðmundur Brynjólfsson, oddviti Hvalfjarðarstrandahrepps, Anton Ottesen, oddviti Innri-Akraneshrepps, Bergþór Guðmundsson, oddviti Leirár- og Melahrepps, Sigurður Sigurðsson, oddviti Skilmanna­hrepps, Magnús Oddsson bæjarstjóri fyrir Akra­nes og Ásgeir Pétursson sýslumaður fyrir aðra hreppa Borgarfjarðar- og Mýrasýslna. Hverjum einasta manni, ekki aðeins þeim sem undirrituðu þennan samning, heldur öllum öðrum, sem eitthvað hafa fylgst með málum, var ljóst að hafnarsamningurinn er liður í byggingu járnblendiverksmiðjunnar, og ef þessar sveitarstjórnir hafa þar með ekki beinlínis samþykkt bygg­ingu verksmiðjunnar á þessum stað, þá hafa þær að sjálfsögðu gert það óbeint með þessari undirskrift og þátttöku sinni í undirbúningi hafn­argerðar fyrir járnblendiverksmiðjuna.

Að öllu þessu athuguðu, sem ég nú hef rakið, er ljóst að krafa nú á síðustu stundu um að heimta atkvgr. hér um málið er of seint fram komin og útilokað að taka hana til greina.

Ég gat þess áðan, að Alþ. eða ríkisstj. hefðu hvorki borist kröfur um atkvgr. né andmæli frá neinum sveitarstjórnum á þessum slóðum. Þvert á móti hafa stjórnvöld haft fulla ástæðu til þess að ætla að sveitarstjórnir á þessu svæði öllu væru því fylgjandi að verksmiðjan yrði byggð. Ef ein­hver andstaða hefur verið gegn þessu, þá hefði verið hægt að ætlast til þess að einhvern tíma á þessum fjórum árum hefðu komið einhver andmæli frá þessum sveitarstjórnum eða kröfur um atkvgr.

Þegar í ályktun þessari frá fundinum í gær eru svo átalin þau vinnubrögð, að verk hafi verið boðin út og framkvæmdir hafnar við verksmiðjuna áður en Alþ. hefur tekið ákvörðun um málið, þá er því gersamlega sleppt að Alþ. samþykkti fyrir tveimur árum lög um byggingu verksmiðjunnar, lög sem eru enn í gildi, og það, sem gert hefur verið í þessu máli, en á grund­velli þeirra laga.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni.