02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi þegar hann mælti fyrir áliti þeirra félaga úr n. sem vildu mæla með samþykkt þessa frv., þá sagði hann að málið hefði verið rætt og at­hugað í sjútvn. og það er út af fyrir sig ekki annað en það sem rétt er. Við komum aðeins saman og spjölluðum lítillega um þetta umfangsmikla og umdeilda mál, en það er varla hægt að segja að það hafi verið nákvæmlega athugað og ekki fór mikill tími samtals í að rökræða um þessa hluti, kannske vegna þess að mönnum hefur verið þetta býsna vel kunnugt. Málið var ekki sent neinum til umsagnar, eins og við höf­um haft fyrir sið í þessari hv. n. Í sjútvn. hv. Ed. var þó það ráð tekið að kalla til fundar við n. ýmsa fulltrúa viðkomandi aðila sem málið snerti, frá bæði hlið sjómanna og hins vegar útvegsmanna. En það var ekki gert í sjútvn. þessarar hv. d., nema formaður n., hv. þm. Pétur Sigurðsson, ræddi við þessa menn í síma og þeir töldu sig vera sömu skoðunar og þeir höfðu á málinu þegar þeir töluðu við sjútvn. hv. Ed. Sannleikurinn er sá, að það er hvergi til á blaði hvað þeim fór á milli og ekkert um það sagt í nál. þeirra.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson lýsti hér í örfáum orðum aðdraganda þessarar lagasetningar, aðallega út frá sínum skilningi, og sagði þá m. a. að á ýmsu hefði gengið, en að lokum hefði hæstv. sjútvrh. séð sig til neyddan að setja þessi brbl. vegna þess að mikil upplausn og ringulreið hefði verið fram undan og hefði getað haft alvarlegar afleiðingar ef ekki hefði verið gripið til brbl. Ég vil leyfa mér að andmæla þessum fullyrðingum, og þau andmæli koma einnig fram í því nál. sem við í minni hl. sjútvn., ég og hv. þm. Sig­hvatur Björgvinsson, leggjum fram. Þetta nál. hefur ekki enn komið á borð hv. þm., og þess vegna held ég að sé rétt að ég fari yfir það álit og segi um það nokkur orð.

Þau brbl., sem hér eru til staðfestingar, voru sett í byrjun sept. s. 1. árs og fjalla um að það, sem ég vil kalla samningsuppkast milli viðræðu­nefndar af hálfu sjómanna og útvegsmanna, verði að lögum, og í öðru lagi að banna verkföll og verkbönn og þ. á m. samúðarverkföll. Ég þarf varla að taka það fram, að ég er auðvitað ger­samlega andvígur slíkum vinnubrögðum og vil segja það, eins og segir í nál. okkar í minni hl., að með setningu brbl. 6. sept. 1976 var að áliti minni hl. sjútvn. brotið gegn efni 28. gr. stjórnarskrárinnar, — ég vil endurtaka þetta: var að áliti minni hl. sjútvn. brotið gegn efni 28. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað er um hvenær heimilt er að setja brbl. Forsenda sú fyrir setningu brbl., sem þar er mörkuð, er á þá lund, að brýna nauðsyn þurfi að bera til svo málum verði skipað með setningu brbl. Sú forsenda var hins vegar ekki fyrir hendi í þessu tilviki. Í fyrsta lagi stóð verkfall ekki yfir, verkfall hafði ekki verið boðað og engar umr. um slíka aðgerð voru hafnar meðal sjómanna. Í öðru lagi var samkomulagstilraunum ekki lokið og því enn óreynt hvort samkomulag gæti ekki tekist milli aðila án afskipta ríkisvalds og Alþ. Í þriðja lagi var að­eins rúmur mánuður, þegar brbl. voru sett, til þess tíma að reglulegt Alþ. kæmi saman. Brbl. eru sett 6. sept., en reglulegt Alþ. kom saman 10. okt. Þess vegna var engin ástæða til að grípa til setningar brbl. En við útgáfu brbl. var bundinn endir á framhaldandi samningaviðræður sem miðuðu að samræmingu sjómannakjara um land allt, bæði varðandi aflahlut og tryggingar. Frá því að brbl. voru gefin út hefur verið samið sérstaklega á Vestfjörðum um hærri aflahlut, og má því til sanns vegar færa að andi brbl. hafi verið brotinn nær tafarlaust.

Gildistími þessara brbl., sem sett voru á mjög svo hæpnum forsendum og mótmælt hefur verið kröftuglega, rennur út 15. þ. m., eftir 13 daga. Verði þau staðfest nú á Alþ. mundi slíkt aðeins leiða til harðari deilna við samningaborðið og af eðlilegum ástæðum auka á tortryggni sjómanna. Því leggur minni hl. til að frv. verði fellt:

Svo segir í nál. okkar minnihlutamanna, mín og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.

Ég held að rétt sé að geta þess hér, að þetta samningsuppkast, sem hæstv. ríkisstj. er nú að reyna að gera að lögum með því að fá þessi brbl. staðfest, var samþykkt í fjórum félögum, en það var hins vegar fellt í 26 félögum, svo að það fer ekki á milli mála að mikill meiri hluti þeirra sjómanna, sem tóku þátt í atkvgr., var andvígur setningu þessara brbl., en vildi heldur reyna til þrautar að ná samkomulagi þó að illa hefði það gengið. Það er á þessum forsendum sem við álítum að ekki hafi verið farið eftir efni stjórnarskrárinnar í þessu máli, þar sem segir að brýna nauðsyn þurfi að bera til svo að setja megi brbl. Nauðsynin var ekki meiri en það, að það voru engar vinnudeilur á ferðinni, engar vinnudeilur voru sjáanlegar í nánustu framtíð og mjög stutt þangað til Alþ. kæmi saman. Ég vil þess vegna fyrir hönd okkar í minni hl. leggja til að frv. verði fellt.