02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4088 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Fram. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Hv. 8. landsk. þm. beitti sérkenni­legum orðhengilshætti til þess að skapa sér nýjar forsendur fyrir því lagafrv. sem hér er til umr. Forsendurnar fyrir þessu frv. og fyrir brbl. má lesa í þskj. 16 og fer ekkert á milli mála hverjar þær forsendur eru, sem ég vil leyfa mér að kynna honum, með leyfi hæstv. forseta. Þær voru þessar: „Langvarandi óvissa hefur skapast í kjaramálum sjómanna þar sem einstök félög og landssambönd hafa fellt samninga, sem samninganefndir sjómanna hafa undirritað eða skuld­bundið sig til þess að undirrita, og einnig eru dæmi þess, að sjómannafélög hafa ekki átt aðild að samninganefndum, sem unnu að gerð þessara samninga“ o. s. frv., eins og lesa má í þskj. Þess vegna er það auðvitað út í hött að ætla sér með útúrsnúningi á mínum orðum að búa sér til nýjar forsendur fyrir því lagafrv. sem hér er til umr.

Það var alveg rétt athugað hjá hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, að ræða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar fjallaði ekki um meginefni frv., heldur um málatilbúnaðinn og formið að öðru leyti.

Ég leiði hjá mér ummæli hans um það, að hv. formaður sjútvn., Pétur Sigurðsson, eða ég sem ritari n. hefðum ekki gert gangskör að því að ná honum til fundar í n. Að mínum hluta stafar það e. t. v. af því, að ég saknaði hans ekki. En mál þetta var tekið fyrir í síðustu viku og þar var hv. formanni, Pétri Sigurðssyni, falið að ræða við aðila þá sem hér áttu aðallega hlut að máli. Þeir höfðu verið kallaðir fyrir sjútvn. Ed. og málin rædd við þá ítarlega, og þeir staðfestu í samtali við hv. formann n., Pétur Sigurðsson, að afstaða þeirra til málsins væri óbreytt, málið hefði legið lengi fyrir, og ég hygg, eins og ég tók fram í framsögu minni, að öllum hv. þm. sé full­ljóst hvað hér er á ferðinni. Það kann að vera rétt að sjútvn. Nd. hefði þurft að gefa sér lengri tíma, en það þekkjum við best, þegar líður að þinglokum, að það þarf oft að hraða vinnubrögðum meir en e. t. v. væri æskilegt, og það þekkja einnig allir hv. þm.

Þeir hv. þm. Garðar Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson leggja hér til að þetta frv. verði fellt, en þó eru meginástæður þeirra þær fyrir andstöðu við frv. að hér sé brotið gegn efni 28. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrst svo er hefðu þeir að sjálfsögðu átt að leggja til að málinu væri vísað frá sem óþinglegu og óhæfu hér á hinu háa Alþ. En þeir völdu þennan kost.

Ég vil geta þess, að hinn 4. apríl s. l. ritar Sjómannasamband Íslands ríkisstj. Íslands bréf, þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Á kjaramálaráðstefnu Sjómannasambands Íslands, sem haldin var sunnudaginn 3. apríl, var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma:

Kjaramálaráðstefna Sjómannasambands Íslands, haldin 3. apríl 1977, skorar á ríkisstj. Íslands að hún leggi brbl. frá 6, sept. 1976 fyrir Alþ. nú þegar, svo að sjómenn fái séð hvort vilji meiri hl. Alþ. hafi verið fyrir hendi við setningu þessara laga.“

Það er sem sé eindregin ósk Sjómannasambandsins að meirihlutavilji Alþ. komi í ljós, og það er einmitt það sem við leggjum eindregið til með því að þetta frv. verði tekið til loka­afgreiðslu.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson benti á hver úrslit mála hefðu verið hjá sjómannastéttinni um samningana og síðar sáttatillögu sem fram var borin. Það er alveg rétt, mikill meiri hl. sjómannafélaga felldi þessa till. En þátttaka í atkvgr., um sátta­till. var með allmiklum ólíkindum, svo lítil var hún. Samtals voru greidd atkv. 268 og var miðl­unartill. felld með 140:125 atkv. Í Sjómannafélagi Reykjavíkur greiddu 18 — segi og skrifa 18 — atkv. Mundi það ekki vera rúmt 1% af félagatölunni þar. Á Hellissandi greiddu 12 atkv., í Jökli í Ólafsvík 9, og þannig mætti lengi telja. Áhuginn var lítill og atkvæðamunurinn ekki mikill, þar sem sáttatill. var felld með 140:125 atkv.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri, en legg áherslu á að þetta mál nái fram að ganga.