02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. á þskj. 640, þá lét ég bóka þar á nefndarfundi að ég hefði um málið óbundnar hendur. Þykir mér því rétt að gera grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl. sem út voru gefin 6. sept. 1976, og í 4. gr. þeirra laga er tekið fram að lög þessi öðlist gildi, en falli að fullu og öllu úr gildi 15. maí 1977. Þegar þing kom saman í haust var þetta frv. ásamt öðrum stjfrv. lagt fyrir þingflokk Sjálfstfl. og gerð grein fyrir því þar, og gerði ég þá enga aths. við það. Mætti því kannske segja, að ef engar ástæður væru aðrar, þá ætti ég að vera af því bundinn að hafa undirritað meiri hluta álit sjútvn. Ég mun koma að því að­eins síðar, af hverju afstaða mín hefur breyst. En vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um þetta mál, sérstaklega vegna ýmissa ummæla hv. 5. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar, þá veit hann það eins vel og ég, að almennt fara ríkisstj. ekki í það að gefa út brbl. í sambandi við kjara­samninga. Ég held að allar ríkisstj. vilji forðast það í lengstu lög, þó að það ástand geti skapast að slíkt sé talið nauðsynlegt. Og ég vil benda á það, að á síðustu dögum vinstri stjórnarinnar var á þskj. 827 lagt á borð þm. frv. til l. um við­nám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. 6. gr. þessa frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta, ég tel rétt að rifja þetta upp vegna ummæla hv. 5. þm. Suðurl.:

„Almennt fiskverð skal ekki hækka frá því sem gildir á tímabilinu frá 1. jan. til 31. maí 1974, sbr. tilkynningu Verðlagsráðs sjávarútvegsins nr. 1 1974, nema Verðlagsráð sjávarútvegsins eða yfirnefnd þess, sbr. lög nr. 97/1961 og lög nr. 60/1964, telji slíka hækkun óhjákvæmilega til þess að tryggja rekstrargrundvöll þorskveiðibáta.“ — Það er sem sagt ekki þarna verið að tryggja fiskverðshækkun til handa sjómönnum. Þetta ákvæði um hækkun á fiskverði kemur ekki inn samkv. þessari grein vegna sjómanna, heldur er það til þess að tryggja rekstrargrundvöll þorskveiðibátanna. — „Fiskverðshækkun þessi tekur þó ekki gildi fyrr en ríkisstj. hefur staðfest hana.“

Þetta sýnir að fleiri en núv. ríkisstj. gera þetta. Ég minnist þess, að þetta taldi viðreisnarstjórnin sér nauðsynlegt í eitt eða tvö skipti í þau 12 ár sem hún sat. Vinstri stjórnin taldi þetta nauð­synlegt, þó að hún fengi ekki þetta frv. samþykkt. Og nú kom að því að hæstv. sjútvrh. taldi nauð­synlegt að gefa út þessi brbl. í haust.

Ég skal viðurkenna að þegar þessi lög voru gefin út, var það að mínum dómi alveg eðlilegt og nauðsynlegt til þess að hreinsa til í því ástandi sem þá hafði skapast í sambandi við samninga­gerð milli sjómanna og útgerðarmanna. Vitað var að sum sjómannafélög höfðu samþykkt þá samninga sem þá voru á döfinni, önnur höfðu fellt þá, og í þessu ríkti allt of mikið óvissu­ástand, þannig að það var alveg réttlætanlegt að mínum dómi á þeim tíma að hæstv. ráðh. gripi inn með setningu þeirra brbl. sem þá voru gefin út. Ég tel fjarstæðu að forseti Íslands gefi út og undirriti lög sem þm. megi ekki treysta að séu í samræmi við gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar. Auðvitað er hægt að teygja ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar nokkuð út og suður í sam­bandi við þetta og ríkisstj. hafi stutt þetta á einn eða annan veg. En ég hygg að forseti Íslands hafi látið athuga málið, þannig að öruggt sé að ekki sé um brot á stjórnarskrá Íslands að ræða.

Ástæðan fyrir því, að ég tók þá afstöðu á fundi n. í morgun að hafa um þetta mál óbundnar hendur, er einfaldlega sú, að þetta mál er búið að liggja fyrir hv. Ed. síðan í þingbyrjun, þetta er mál nr. 16, og hefur legið þar umræðulítið eða kannske umræðulaust og ekki fengist af­greitt úr þeirri n., sem því var vísað til í upp­hafi, fyrr en nú aðeins nokkrum dögum fyrir þingslit. Þegar frv. kemur í hendur okkar nm. í Nd. Alþ., sjútvn.-manna. Þá er aðstaðan orðin sú, að það eru aðeins nokkrir dagar þangað til brbl. renna út og á ný teknar upp viðræður á milli útgerðarmanna og sjómanna um nýja samn­inga. Það er af þessum ástæðum, að ég sé ekki að það sé nokkur ástæða til þess að samþykkja þessi lög úr því að það hefur dregist svona lengi. Það var ástæða fyrir því að mínum dómi að þau væru gefin út á sínum tíma, en fyrst ekki var hægt að fá frv. úr n. í hv. Ed. og ekki fá það afgreitt þaðan fyrr en núna, að farið er á ný að semja um kaun og kjör, þá er að mínum dómi alveg ástæðulaust að samþykkja þetta frv. Ég mun þó ekki ganga á móti því, en ég mun ekki heldur ljá því atkv. og mun sitja hjá við atkvgr.

Ég vildi láta þetta koma fram í sambandi við þessar umr., að þetta var ástæðan fyrir hví að ég tel mig með fullum rétti hafa um þetta mál bundnar hendur, þó að ég hafi ekki gert við það aths. þegar það var lagt fram í þingflokki Sjálfstfl. í þingbyrjun. Þá var að mínum dómi mjög eðlilegt að þessi lög væru gefin út, eins og ég tel óeðlilegt að verið sé að samþykkja þau þegar samningar eru í fullum gangi á milli út­gerðarmanna og sjómanna.