02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4093 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðu­legi forseti. Ég skal hafa þetta mjög stutt. Vegna ummæla, sem hv. 3. þm. Suðurl. lét sér hér um munn fara, verð ég að segja það, að ég stend sjálfan mig að því að skilja hann ekki alveg nógu vel, og það hefur því miður skeð áður. En mér skildist hann hafa þau ummæli, að ég hefði sagt hér í framsöguræðu að ríkisstj. hefði verið sérstakleg æst í að setja þessi brbl. og væri áfjáð í að gera slíkt. Það er alger misskilningur. Það var einmitt sagt af öðrum, sem talaði á undan mér, að þau hafi ekki verið sett fyrr en nauðsyn hafi krafið vegna svo og svo hættulegs ástands sem átti að vera fram undan, ef það er rétt skilið. Það, sem ég sagði um setningu þessara brbl., var það, að ég leyfði mér að draga í efa að nauðsyn hafi borið til að setja brbl. Og það er alveg ljóst og skýrt sem segir í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Það er ekkert hægt að teygja það neitt né toga, og má lesa það orðrétt upp ef menn vilja, en þar segir að brýna nauðsyn þurfi að bera til svo að málum verði skipað með setningu brbl. Þetta er að vísu ekki orðrétt, en þetta er alveg skýrt í stjórnarskránni. Í minnihluta­áliti okkar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar kemur fram það álit okkar, að það hafi alls ekki verið nauðsyn til setningar þessara brbl. og enn þá síður brýn nauðsyn, og við reynum að rök­styðja það. Við erum ekki að kasta neinu fram út í loftið án þess að reyna að rökstyðja það. En svo geta auðvitað aðrir menn verið á annarri skoðun, og það er einmitt hér í hv. d. sem við eigum að rökræða málin, ekki með einhverjum fullyrðingum sitt á hvað, heldur reyna að leitast við að finna orðum okkar stað.

Rök mín fyrir því, að það hafi ekki verið nauðsynlegt að setja lögin og þaðan af síður brýn nauðsyn, voru í fyrsta lagi, að það var ekki verkfall og ekki sýnilega von á verkfalli. Í öðru lagi, að alls ekki hafði verið reynt til fulls hvort unnt hefði verið að ná samkomulagi. Ég skal viðurkenna að það hafði gengið á ýmsu. Þetta er svolítið sérstakt mál. En ég tel að það hefði verið hægt að reyna lengur, því að það á alltaf að reyna í lengstu lög að ná samkomulagi í öllum málum. Í þriðja lagi nefndi ég sem mín rök, að brbl. hefðu verið sett 6. sept., en þing átti að koma saman 10. okt. Það er stuttur tími. Ég tel að vegna þess að ekki var um verkfall að ræða og enga yfirvofandi hættu, jafnvel þó að illa hafi gengið, þá hefði mátt reyna þann tíma, sem var á milli 6. sept. og 10. okt., að ná samkomu­lagi. Ef það hefði ekki tekist á þessum tíma, þá hefði hæstv. ríkisstj. kannske kosið að setja lög. Það er hennar mál að sjálfsögðu og það hefði sjálfsagt verið gagnrýnt hér líka.

En ég er aðeins að gagnrýna þessa málsmeð­ferð. Ég er sannfærður um að þær forsendur, sem hæstv. ríkisstj. gefur sér til þess að setja brbl. rétt áður en þing kemur saman, séu rangar. Og meðan aðrir hv. þm. eða hæstv. ráðh. koma ekki hér upp og sannfæra mig um hið gagn­stæða mun ég halda áfram að halda fram þessari skoðun.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson vék aðeins að því, sem ég hafði sagt í minni framsöguræðu, og talaði þá um það þegar ég greindi frá símtölum hans við forseta Sjómannasambandsins og Krist­ján Ragnarsson, formann Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég man ekki til að ég hafi sagt eitt einasta orð annað en það sem satt var í þessu, eins og hann greindi frá þessum símtölum og greindi frá niðurstöðu þessara símtala. Niður­stöðurnar voru einfaldlega þær, að þeir sögðust hafa sömu skoðun áfram og þeir höfðu lýst fyrir hv. sjútvn. í Ed. Þetta sagði ég og þetta sagði líka hv. formaður n., Pétur Sigurðsson, áðan. Ég held að þarna fari ekkert á milli mála. Það, sem ég var að finna að, var ósköp einfaldlega það, að þó að þessir ágætu menn, forsvarsmenn þessara samtaka sem eiga aðild að málinu, hefðu sagt þetta eða hitt um sínar skoðanir á afgreiðslu mála í Ed., var það ekki sagt við okkur og það var hvergi skjalfest. Þetta getur enginn hrakið. Þetta var það eina sem ég sagði. Það, sem við hins vegar fengum að vita óbeint á fundi n., var að okkur var fenginn miðill til þess að bera þarna á milli. Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, sem á sæti í sjútvn. Ed., kom og greindi frá því í örfáum orðum, hver hefði verið niðurstaða þessara manna sem rætt var við. Við vorum raunar búnir að tala saman um þetta mál í n. og þótt­ust flestir vita nákvæmlega hvað hver hefði sagt, enda þarf ekki til hess mikla spádómsgáfu. Þetta mál er okkur allt of vel kunnugt til þess að þarna séu nokkur leyndarmál á ferðinni.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson, formaður okkar samstilltu nefndar, sagði einnig áðan að ég hefði verið að kvarta undan því, — og ég ætla að biðja hv. formann að taka eftir því, — að ég hefði fundið að því að málið hefði ekki verið sent til umsagnar. Þetta er ekki rétt skilið. Ég sagði, að málið hefði ekki verið sent til umsagnar, og ekk­ert annað. Málið fékk sem sagt ákaflega litla meðferð í n., en í sjálfu sér alveg nægilega með­ferð fyrir mig, vegna þess að við þekktum málið allt saman frá upphafi til enda. Ég gat þess, að málið hefði ekki verið sent til umsagnar og við féllumst á að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefði samband við þessa aðila í því skyni að fá þá til okkar á fundinn í staðinn. Það var ósköp einfaldlega vegna þess að það var útilokað að senda málið til umsagnar núna um helgina, vegna þess að það er búið að ákveða að reka þingið heim núna á miðvikudaginn. Við vissum það. Ef við hefðum barist harkalega fyrir því, að málið hefði verið sent til umsagnar, þá hefðum við kannske verið að tefja málið á ósanngjarnan hátt, en það var alls ekki meiningin.

Ég er auðvitað andvígur þessu máli og hef lýst því yfir, að ég legg til að það verði fellt. En ég vil ekki beita neinum bolabrögðum hvorki í sambandi við þetta mál né annað, heldur að þau geti fengið þinglega meðferð. Ég vil þess vegna segja það, að þær aths., sem hafa komið fram hér um það sem ég hef sagt í málinu, eru annaðhvort á misskilningi byggðar eða misheyrn, því að ég hygg að það, sem ég sagði, hafi verið nákvæmlega sannleikanum samkvæmt.

Virðulegi forseti. Ég skal þá ekki hafa þetta lengra, en ég vil þó leyfa mér að endurtaka það, að ég legg til að málið verði fellt.