02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4097 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

168. mál, samvinnufélög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og var þar flutt af þeim hv. þm. Sigurði Magnússyni og Gunnlaugi Finnssyni. Hér er í raun um það eitt að ræða, að lagt er til að samvinnulögunum verði breytt til aðlögunar að hinu nýja samvinnufélagsformi, framleiðslusamvinnunni, og einnig er lögð til nokkur breyting á 20. gr. samvinnulaga sem á að tryggja rétt starfsmanna samvinnufélaga til kjörgengis í trúnaðarstöður, svo sem félagsstjórn.

Þetta frv. var samþ. einróma án brtt. í Nd., og sá aðili, sem hér hefur mest um að segja sem umsagnaraðili, Samband ísl. samvinnufélaga, mælti mjög eindregið með því að frv. þetta næði fram að ganga.

Ég vil leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn. Ég treysti á velvilja hæstv. forseta til þess að við getum fjallað um það í félmn., og komið því út úr d. og gert það að lögum.