02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 643 flytjum við 4 alþm. hér í d. brtt. um að „þrátt fyrir heimildir í lögum þessum eru þorskveiðar með flotvörpu bannaðar í fiskveiðilandhelginni frá 1. júlí 1977 til 1. júlí 1978.“ Því miður er það til að harma nokkuð, að við skulum fá þetta frv., svo nauðsynlegt sem það er, gersamlega á síðustu vinnustundum þingsins. En það verður ekki gengið fram hjá þeirri staðreynd að þessir flm. og fleiri hafa áhyggjur af því og það sannarlega að gefnu tilefni, að sóknin í fiskstofnana og einkum í ókynþroska fisk er orðin geigvænlega mikil. Við viljum með þessu undirstrika það, að það er kominn tími til þess að hamla hér nokkuð á móti og gera það raunhæft af hendi Alþ. Það kann einhver að segja, að þetta sé óþörf till., og vitna í því sam­bandi í 5. gr. núverandi laga, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og takmarka þannig veiðiheimildir þær, sem veittar eru í lögum þessum, með því að banna notkun ákveðinna gerða af veiðar­færum á tilteknum veiðisvæðum í takmarkaðan tíma.“

Þessa heimild hefur hæstv. sjútvrh. hagnýtt — og það ber að þakka — til þess að stuðla að aukinni verndun fiskstofna sem eru í hættu, a. m. k. varðandi ofveiði þegar um smáfisk er að ræða. En einnig segir í 10. gr.:

„Þegar rökstutt álit Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir um það, að einstakir fiskstofnar séu hættulega ofveiddir og viðkoma þeirra sé í yfirvofandi hættu, getur ráðh., í samráði við hana (þ. e. a. s. stofnunina) og að fenginni umsögn Fiskifélags Íslands sett reglur um hámark þess afla sem veiða má af hverri fisktegund á tilteknu tímabili, vertíð eða heilu ári.“

Nú held ég að engum blandist hugur um það, að margfaldar aðvaranir liggi fyrir frá þessari ágætu stofnun er fjallar um hafið og auðlegð þess. Hafrannsóknastofnunin hefur gefið út aðvörun um að þorskstofninn sé í geigvænlegri hættu og þurfi að athuga alla sókn og draga verulega úr sókninni. Ég hef á fundi, sem hæstv. sjútvrh. boðaði til, að mig minnir í febrúar, með nm. úr sjútvn. beggja d., sagt það sem mína skoðun, að árangursrík aðferð til þess að verða við til­mælum mjög margra aðila væri t. d. að sumarlagi að hætta að vinna á laugardögum og sunnudögum við sjávarsíðuna, einkanlega varðandi togfiskinn, og hamla þannig gegn aukinni sókn a. m. k. 4 mánuði ársins, þegar fiskur er nokkuð smár og einnig nokkuð blandaður. Þetta fólk á sannarlega skilið eftir mikið álag frá hausti fram á vor að eiga frí, eins og allir aðrir landsmenn, á laugardögum og sunnudögum að sumrinu. Það var komið svo í ákveðnum verstöðvum á s. l. ári að fólk gersamlega neitaði að vinna, því að það var orðið svo aðframkomið og engin miskunn sýnd að draga úr sókninni, heldur skyldi fólkið vinna langt fram á kvöld og það alla daga vikunnar. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt meðan við erum að berjast við að halda lífinu í þeim fáu fiskum sem eftir eru.

Því miður hafa engar till. komið í þessu efni, og enn eru viss svæði á landinu þar sem má beita allri nútímatækni, sem hugsanleg er, við veiði til þess að ná upp afla. Þetta finnst okkur flm. um of við ríkjandi aðstæður — ég undir­strika það: við ríkjandi aðstæður. Og við erum ekki öfgafyllri en það, að við leggjum til að hér sé farið varlega aðeins eitt ár í senn.

Nú kann einhver að segja að fiskurinn sé jafndauður og skipti þá ekki máli í hvaða veiðarfæri hann er drepinn. En hví þá að hamla á móti þorsknótinni sem er ódýrasta veiðarfærið og skilar fiskinum betri um borð en nokkurt annað veiðitæki? Flotvarpan er ágætis veiðitæki og hún er það afkastamikil, að það stafar af henni hætta við vissar aðstæður — veruleg hætta. Hún hefur sýnt að það er hægt að ná tugum tonna, allt upp í 80–90 tonn, í einu kasti. Ég gæti nefnt ákveðin skip sem hafa fengið svo mikinn afla. Fiskurinn skemmist við þessar að­stæður og þarf miklu minni afla til. Eru um það mörg dæmi. Fiskurinn er uppi í sjó í torfum og oft þéttum torfum og þess vegna á þetta veiðarfæri, svo gott sem það er og með tilheyrandi tæknimöguleika, gott með að taka svo skjótan afla á stuttum tíma. Hins vegar hefur komið í ljós að þá minnka gæði fisksins. En sé hins vegar flotvarpa notuð og afli minni, þá skilar flotvarpan auðvitað ágætis hráefni eins og botnvarpan líka.

Þegar við nú vitum að fiskstofnarnir eru í hættu eigum við að hamla á móti að sinni — ég undirstrika: að sinni að við notum alla hugsanlega veiðitækni til þess að ná aflanum um borð. Hæstv. sjútvrh. hefur talið eðlilegt að undan stóru landsvæði hér við land sé þetta veiðar­færi bannað — algerlega bannað. Við teljum, flm., að þetta eigi að ná hringinn í kringum landið í eitt ár til reynslu.

Ég gæti haft hér um langt mál, en ætla ekki að tefja tímann vegna ríkjandi aðstæðna hér á Alþ. En ég vil aðeins minna á það, að vegna skoðana okkar í fiskveiðilaganefnd létum við það út ganga, að við værum mjög uggandi yfir vaxandi notkun á flotvörpu. Við fengum þá lista um þá skuttogara sem höfðu flotvörpu í desem­berbyrjun 1975, og þeir voru aðeins 20. Þá að­vöruðum við marga að fara út í mikla fjárfestingu varðandi flotvörpuna sem nú mun nema mörgum tugum millj. kr. En á sínum tíma, þegar þorsknótin var bönnuð, kveinkaði enginn eigandi sér út af þorsknótinni og þær liggja enn þá óhreyfðar, glænýjar nætur sem eru í dag jafnvel á annan tug millj. virði, vegna þess að menn skildu að það var eðlilegt skref til þess að fara varlega. Það eru því engin rök hjá eigendum togara í dag að segja að þessi fjárfesting sé mikil — ekki nokkur rök — vegna þess að við leggjum hér til stuttan tíma og einnig er það í lögum, að hæstv. ráðh. getur takmarkað þetta fyrirvaralaust, svo að þessi rök falla dauð niður og hafa ekkert gildi. En sem sagt, aðeins 20 skip höfðu flotvörpu í árslok 1975. Mér tókst ekki í dag að fá örugga tölu þeirra núna, svo að ég vil ekki nefna hana, En þau eru orðin talsvert fleiri sem hafa flotvörpuna í dag.

En ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, hvernig stærðarskipting hjá togurum er, og blandast bar saman bæði skip, sem eru með flotvörpu og botnvörpu. Lít ég á þetta eingöngu sem upplýsingaratriði um stærð á fiski úr flotvörpunni. En hér er um mjög athyglisverðar staðreyndir að ræða, og ætla ég að lesa hér upp úr gögnum frá ferskfiskeftirlitinu, þ. e. a. s. Framleiðslueftirliti sjávarafurða, þeirri stofnun, en hún annast framkvæmd á þessu mati. Ég skal ekki, herra forseti, lesa mjög mörg nöfn, en gæti lesið hér upp flesta eða alla togara landsmanna og hef hér aflaskiptingu þeirra fyrir framan mig, en það tæki of langan tíma. Ég ætla að nefna hér nokkur skip.

Þá vil ég byrja á Akranesi. Það er skipið Haraldur Böðvarsson: stórþorskur 58.6%, millifiskur 32.7%, smáfiskur 6.5. Krossvík: stórþorsk­ur 61.4%, millifiskur 32.6%, smáfiskur 5%, undir­mál 1%. Víkingur: stórþorskur 65.5%, millifiskur 28.2%, smáfiskur 4.5%. Runólfur, leggur upp í Grundarfirði: stórþorskur 42.8%, millifiskur 11.8%, smár 15.8%. Framnes, fyrsti togarinn á Vestfjörðum: stórþorskur 54.8%, millifiskur 38%, smár 7.6%. Gyllir: stórþorskur 46.7%, milli­fiskur 41.3%, smár 9.9, undirmál 2.1. Trausti: stórþorskur 39.5% — aðeins 39.5%, millifiskur 41.6%, smár fiskur 13.2%, undirmál 5.7%. Dag­rún: stórþorskur 45.7%, millifiskur 40.5%, smár 12.7%, undirmál 1.1%. Ég skal nú fækka þeim skipum að vestan sem ég les, en hér má lesa frá Bessa: stórþorskur 53.7%, millifiskur 37.9%, smár 7.9, undirmál 0.5. Júlíus Geirmundsson: stór­þorskur 44.2%, millifiskur 44.5%, smár 11.2%, undirmál 0.1%. Þá er rétt að lesa upp skip fyrir norðan. Það er Sigluvík: stórþorskur 41.6%, millifiskur 43.2%, smár 14.3%, undirmál 0.9%. Stálvík: stórþorskur 52%, millifiskur 38%, smár 8.8%, undirmál 1.2%. Nú ætla ég að taka Akur­eyrartogarana. Það er Harðbakur: stórþorskur 60.2%, millifiskur 29.6%, smár 10.2%, enginn undirmálsfiskur. Kaldbakur: stór þorskur 59%, millifiskur 28.1%, smár fiskur 12.9, enginn undirmálsfiskur. Og einn ætla ég að taka enn frá Akureyri, það er Svalbakur: stórþorskur 58.4%, millifiskur 31.9%, smár 9.7%.

Ég ætla að láta þetta nægja. Það væri hægt að lesa upp miklu fleiri skip, en það er enginn tími til þess nú nema tilefni gefist til. Ég vil aðeins undirstrika það með því að lesa upp aflasamsetningu frá togurum, sem eru bæði með flotvörpu og án flotvörpu, og geri þar engan greinarmun á, — ég aðeins undirstrika það, að samsetning aflans er þannig að maður hlýtur að hafa geig af. Og er þá ekki tími til kominn að við leggjum til að varlega sé farið í það að hafa stórvirkustu tækin, sem flotvarpan er, eins og ástandið er í dag, í eitt ár til reynslu? Ég trúi því ekki, því að margfalt tilefni er til að fara hér varlega, að það verði ekki gert. Ef hæstv. ráðh. segir okkur afdráttarlaust að hann muni gefa út reglugerð yfir hliðstætt tímabil og við leggjum hér til, þá leysir það vandann. En það leysir engan vanda ef hann segir: Ég bið fiski­fræðingana um sérstakt bréf í því efni. — því að margföld aðvörun liggur fyrir frá þessari stofnun um að minnka sóknina og víða að. Hins vegar hef ég heyrt í skipstjórum sem hafa flotvörpu og hafa sagt það við mig: Ég skal hætta að nota hana ef um það er víðtæk samstaða, en ég geri það ekki nema aðrir geri það. — Við verðum því hér á Alþ. að bora það í bili að leggja til að flotvarpan verði lögð til hliðar í eitt ár af öryggisástæðum.

Menn hafa séð í gær í Morgunblaðinu samanburð á fiski frá vissum veiðistöðvum. Ég veit ekkert hvernig þetta sýnishorn er tekið á einn eða annan veg. Það var látið liggja að því í blaðinu að það væri hlutlaust valið. Ég vil ekki dæma um það. En óskaplega var ömurlegt að sjá það sem þar blasti við. Og þegar millifiskurinn er svona stór þáttur, yfirleitt allt að helmingi í þunga, þá sjáum við hvað hann þýðir í tölum. Þetta er geigvænleg þróun. Og smá­fiskurinn er víða 5–10%, sem er enn hættulegra í tölum talið. Ég bið hv. þdm því að hugleiða það rólega að hér verðum við að þora að horfast í augu við það, að það er rétt og eðlilegt að takmarka flottrollið um allt land að sinni og reyna það í eitt ár. Vonandi erum við það vel settir, að innan skamms getum við beitt öllum veiðiaðferðum frjálst og óþvingað. Að því stefnum við allir. En eins og er höfum við nokkrir ákveðinn beyg af þróuninni, nema við þorum að taka upp nokkrar friðunaraðgerðir til þess að rétta stofninn við og það sem fyrst. Þess vegna er þessi till. flutt.