02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af brtt. n., sem hér liggur fyrir, get ég verið mjög stuttorður. Ég get eftir atvikum fallist á þessa breytingu. Hins vegar er mjög skammur tími til þess að afgreiða frv. í Nd. þegar hún fær það aftur. En með tilliti til þess og ósk um að samkomulag náist um þetta í d. og jafnframt við þá þm. í Nd., sem helst hafa látið sig málið skipta, get ég eftir atvikum fallist á þessa brtt. fyrir mitt leyti.

En í sambandi við þá brtt., sem hv. 1. landsk. þm. var að fylgja úr hlaði, vil ég segja nokkur orð.

Lestur um hvernig fisktegundir í afla einstakra skipa skiptist í stórfisk, millifisk og smáfisk er auðvitað ekki nein sönnun fyrir því, að flotvarpa sé í sjálfu sér skaðlegra veiðarfæri heldur en botnvarpa. Það er rétt hjá ræðumanni, að flotvarpan tekur oft mikinn fisk í einu en það er ekki rétt að flotvarpan sé skaðlegra veiðarfæri en botnvarpan að því leyti til, að það veiðist meira af smáfiski í flotvörpu heldur en í botnvörpu. Það fer alveg eftir því hvernig fiskurinn hagar sér, hvort hann er við botninn með öðrum fiski, þá kemur hann í botnvörpu hvort sem hann er stór eða smár. Sama gerist auðvitað með flot­vörpuna. Það, sem hér er um að ræða, er að vísindamenn okkar hafa ekki tekið afstöðu til þess, hvort flotvarpa eða botnvarpa sé skaðlegra veiðarfæri, og hafa þar af leiðandi ekkert lagt til um neitt alfarið bann á flotvörpunni. Ef vísinda­mennirnir leggja það til, þá verður auðvitað farið eftir því, eins og með allt annað sem þeir hafa lagt til í sambandi við veiðarfærin.

Ég vil einnig nefna það hér, að þann stutta tíma, sem ég hef verið sjútvrh., hefur möskva­stærðinni verið breytt í botnvörpu og flotvörpu. Hún var 120 mm og var svo farið með hana í 135 mm. Í reglugerð, sem ég gaf út á s. l. ári, er farið í 155 mm með bæði flotvörpu og botnvörpu við almenn mótmæli togaraskipstjóra, sem ég held að hafi hver og einn einasti sent mér skeyti um það, að þeir mundu ekki taka um borð vörpu með 155 mm möskva. En þrátt fyrir það hélt ég mjög ákveðið við það sem áður var búið að gera og náði samkomulagi við Hafrannsóknastofnunina að öðru leyti en því, að ég breytti gildistöku reglugerðarinnar um einn mánuð eða frá 1. jan. til 1. febr., vegna þess að innlendi framleiðandinn hafði ekki framleitt nóg af botnvörpum til togaraflotans. En að öðru leyti var við þetta staðið. Þetta er eitt af þeim dæmum sem á að breyta verulega því hlutfalli sem hv. þm. var að lesa hér upp úr skýrslu ferskfiskmatsins.

Ég fyrir mitt leyti tel að það verði að fara að ráðum vísindamanna í þessum efnum, og við verðum líka að fara eftir því, hversu mikið þessir menn eða þessar útgerðir hafa lagt í fjárfestingar á undanförnum árum í þessu skyni. Ég get upplýst hv. þingmann og aðra þdm. um það, að nú eru 28 togarar af minni gerð með flotvörpu­búnað. Flotvarpan er minnsta fjárfestingin af þessum búnaði. Hitt er miklu meiri fjárfesting, breytingar á togvindu, þannig að ég held að þess­ar fjárfestingar séu nú komnar í nálægt 30 millj. kr. á skip. Af stærri gerð togara eru 12 togarar með flotvörpu, en 3 án flotvörpu. Þessi skip hafa breytt um vörpu eftir þá breytingu, sem gerð er á möskvanum, og hafa farið þar út í fjár­festingu. Og að þremur mánuðum eftir að reglu­gerðin kemur til framkvæmda um 155 mm möskvastærð í botnvörpu, þá eigi að afnema flotvörpuna alveg skilyrðislaust í heilt ár, mér finnst alldjarft af flm. till. að ætlast til þess.

Ég vil líka til viðbótar þessu benda á að till. um sama efni var felld í Nd. með miklum atkvæðamun. Með samþykkt slíkrar till. hér í Ed. á síðasta degi þingsins er auðvitað þessu frv. teflt í algera tvísýnu. Það hlýtur að verða þá leið þessa frv. að hafna í bréfakörfunni og ná ekki fram að ganga, ekki einu sinni ákvæðin um stjórnun veiðanna, um skyndilokanir allt upp í eina viku og ekki einu sinni staðfestingin á brbl. sem gefin voru út í fyrrasumar til leiðréttingar á fiskveiðifrv. Ég fyrir mitt leyti ætla ekki að gefa þá út önnur brbl. um bannsvæði fyrir tog­veiðum, ef Alþ. gengur ekki frá því. Það þarf þá ekki að gagnrýna þá brbl.-útgáfu.

Mér finnst vera orðið nokkuð mikið áberandi hve sum öfl í landinu reyna að koma eiginlega illindum af stað á milli ákveðinna svæða, jafnvel ákveðinna tegunda fiskiskipa. Það er að verða eitthvert ofurkapp að reyna að svelta ákveðin byggðarlög í þessu sambandi, og fyrst 1. landsk. þm. nefndi myndina í Morgunblaðinu í gær, þá ætla ég að leyfa mér að segja það, að mynd og fréttaflutningur af þessu tagi í stærsta dagblaði þjóðarinnar er þessu blaði til vansæmdar — til stórvansæmdar. Það fylgir ekkert annað en dylgjurnar einar, það kemur engin skýring. Hvar hefur þessi fiskur verið veiddur? Hvaða skip veiddi þennan fisk? Hvenær veiddi það þennan fisk? Hver var heildaraflasamsetningin? Hvar var þessi netafiskur veiddur? Hver var sá hlutlausi aðili sem þetta framkvæmdi? Ég fullyrði að þessi mynd og þessi fréttaflutningur í myndum er einhver svívirðilegasta fölsun sem átt hefur sér stað til þess að koma illu til leiðar og er blaðinu og ritstjórum þess til stórskammar.

Ég þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir að nefna þessa mynd, svo að ég gæti komið fram þessum sjónarmiðum mínum. (JÁH: Ekki hældi ég henni.) Nei, en ég þakka honum fyrir að hafa nefnt það, því að annars hefði ég sennilega ekki nefnt það og örugglega ekki nefnt það hér í minni ræðu. Ég vil gjarnan, að það komi í þing­tíðindum mín hörkugagnrýni í sambandi við slíkan fréttaflutning, sem er blaðinu til stórskamm­ar og aðstandendum þess.

Ég skal ekki hafa hér lengri málflutning og alls ekki halda hér uppi löngum umr. Ég vil að síðustu aðeins endurtaka það, að ég tel, að flotvarpan sé ekki skaðlegra veiðarfæri en botnvarpa, og ég tel, að það eigi að beita bönnum og lokunum veiðisvæða á líkan hátt og gert hefur verið, en bæta þó þar við, eins og þessar till. um stjórnun fiskveiða gera ráð fyrir og benda til, og hér hefur orðið stóraukning á. Ég hef orðið að takast á um það við menn sem eru miklir friðunarmenn í orði, þangað til það snýr að þeim sjálfum, þá eru þeir ekki friðunarmenn, þá á að friða hjá einhverjum öðrum, en ekki þeim sjálf­um. Ég tókst á við togaraskipstjórana í vetur með þessum árangri, að þeir hafa sætt sig við það. Ég hef ætlað mér það og ætla mér, meðan ég gegni þessu starfi, að láta skoðanir mínar og það, sem ég tel sannast og réttast, ávallt vera í fyrirrúmi. Ég mun ekki hika við, ef beitt er skefjalausri flotvörpuveiði og sérstaklega á smá­fisk eða millifisk, að beita þá þeim ákvæðum sem ég hef til þess að banna slíka veiði. Hitt er annað mál og ekki rétt að mínum dómi, hver sem er sjútvrh., að Alþ. samþykki löggjöf um fiskveiðilandhelgi Íslands með þeim ákvæðum að fela sjútvrn. ásamt þeim vísindastofnunum, sem á að ræða við hverju sinni, hvernig skuli breyta og beita á ýmsan hátt, en taka svo út úr aðeins eitt atriði af fjölmörgum og ætla að binda þar hendur bæði rn. og vísindamanna í þessum efnum, eins og þessi till., sem hv. 1. landsk. lýsti, gerir. Ég tel að þá eigi Alþ. að taka þetta allt í sínar hendur, hafa engar heimildir til nokkurra hluta og stjórna því þá af þeirri hörku sem mér sýnist stundum bera nokkuð á, en þó meira utan sala Alþingis heldur en innan. Þess vegna er ég mótfallinn þessari till. af „prinsip“-ástæðum, því að ég tel að þessar heimildir eigi að vera allar eða engar í höndum rn. En það sem skiptir auðvitað máli í þessu sambandi, er, að verði þessi till. samþ. hér í hv. þd., þá stefnir það frv. í hættu, afgreiðslu þess í Nd., því að þar er ekki meiri hl. fyrir þessari till.