02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4108 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vona að hæstv. sjútvrh. hafi ekki átt við okkur flytjendur þeirrar till., sem hér liggur fyrir til umr., þegar hann var að tala um illindi hópa sem væru að skapa tortryggni á milli svæða. Hins vegar held ég að það sé hreint ekki eins ástæðulaust og hv. síðasti ræðumaður vildi vera láta að slík till. sem þessi kemur fram, og með illindi og tor­tryggni á milli svæða í huga hafði ég haldið að það væri líklegra til tortryggni og illinda að banna þetta skæða og stórvirka veiðarfæri fyrir hluta landsins og kannske meiri hluta landsins, en aftur á móti yrði síður um tortryggni að ræða ef öllum yrði gert jafnt undir höfði og bannað alls staðar.

Ég held að við flytjendur þessarar till. eigum a. m. k. eitt sameiginlegt, og það er það, að við erum hræddir — við erum ekki bara smeykir, við erum hræddir um að það sé verið að ganga af hrygningarstofni þorsksins dauðum. Og ég held, að þetta komi engum á óvart. Ég held að allir hv. alþm. séu meira og minna hræddir um þetta, og þetta að banna flotvörpuna um tíma lítum við á sem nokkra jöfnun á veiðunum og lið í því að fiska minna. Ég er ekkert viss um að við fiskum miklu minna magn af þorski þótt við stækkum möskvann. Við fiskum kannske ekki þriggja ára fiskinn, en fiskum bara fjögurra ára fiskinn í staðinn og upp úr, en að það verði nokkur kynþroska fiskur eftir, það er engin sönnun fyrir því, þó að möskvinn sé 155 mm.

En varðandi þessa till. og flotvörpuna í heild finnst mér vera augljóst, að eitthvað sé vafa­samt um notkun hennar þar sem hún er bönnuð svo víða við landið. En eins og nú er virðist vera einhver óskapleg hætta að veiða stóran fisk í flotvörpuna, þ. e. a. s. fiska í hana hér fyrir Suðurlandinu, Suðausturlandinu og Suðvestur­landinu, en aftur á móti skilja menn ekki að það er líka nauðsynlegt að vernda smærri fiskinn.

Varðandi jöfnun og tortryggni langar mig til að lesa hér upp — með leyfi hæstv. forseta — bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem sent var öllum aðilum þeirra samtaka 5. febr. 1975. Bréfið hljóðar þannig:

„Verið er að endurskoða lög nr. 102 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Á þeirri endurskoðun að vera lokið fyrir árslok 1975. N. hafa borist ýmsar áskoranir og aths. um bann við veiðum með flotvörpu eða takmörkun þeirra veiða frá því sem nú er. Mun einkum vera átt við þorskveiðar með flotvörpu í þessu sambandi. N. hefur ekki tekið afstöðu til þessa atriðis, en vill engu að síður vekja athygli útvegsmanna og sjómanna á þessari umræðu. Vill n. þess vegna beina því til þeirra aðila, sem hyggja á nýfjárfestingu í flotvörpuútbúnaði, að þeir fari varlega í þessu efni og jafnvel fresti framkvæmdum þar til nánari upplýsingar liggja fyrir um framvindu þessara mála.“

Ég hef nokkuð öruggar heimildir fyrir því, að a. m. k. nokkrir eigendur skuttogara tóku mark á þessu bréfi frá sínum samtökum og frestuðu aðgerðum í þessu efni og hafa ekki treyst sér í þessar framkvæmdir af ótta við að sama yrði látið gilda allt í kringum landið, þ. e. a. s. bann við flotvörpu. Því held ég að bannið um þennan takmarkaða tíma mundi frekar verða til þess að eyða tortryggni og illindum heldur en öfugt.

En ætlun okkar með brtt. er fyrst og fremst að reyna að gera veika tilraun til þess aðeins að draga úr sókninni í þorskinn. Það er okkar eini tilgangur. Ég held að okkur hljóti að bera öllum saman um að það er alger nauðsyn að vera vel á verði. Ég er ekki að vantreysta rn. á nokkurn hátt eða ráðh. í því efni, ég hefði haldið að það væri frekar stuðningur við hann heldur en hitt og hans viðleitni til þess að tryggja öryggi stofnsins að fá svona till. samþykkta á Alþingi.