02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að það sé mikill misskilningur að þessi till. um bann við veiðum í flottroll sé byggð á tilfinningagrunni eða tilraun til að koma illindum á milli svæða. Ég er furðu lostinn að slíkt skuli koma fram. Það er út af fyrir sig rétt, að í flottroll veiðist ekkert sérstaklega smærri fiskur. Ég held að menn geti verið sammála um það, að flottrollið hefur enga sérstaka eiginleika til þess að veiða smærri fisk. En hitt er svo annað mál, að möskvastærðin á flottrollinu kemur ekki að eins góðu haldi og möskvastærðin á botn­trollinu, því að yfirleitt kemur mun meira í flot­trollið, það skemmist meira af fiski, það eru stærri „höl“ sem tekin eru, og það er örugglega mun meira sem fleygt er út af fiski sem eyðileggst, kremst, og af smáfiski. En eitt vil ég þó taka fram varðandi það mat sem hér er vitnað í. Ég satt best að segja veit ekki alveg hversu mjög er byggjandi á þessu mati. Það eru frystihúsin sem meta fiskinn við móttöku, og það virðist oft vera dálítið furðulegur mismunur af skipum sem eru jafnvel að veiða á alveg sama svæði. Þannig þekki ég dæmi þess, að skip, sem landaði í Austfjarðahöfn, var á sama svæði og togari af Norðurlandi, það fékk 30% af sínum fisk í stórt, en þegar togarinn frá Norðurlandi landaði í sinni heimahöfn af alveg nákvæmlega sama svæði var hann með 65% í stórt. Ég ætla ekki að full­yrða neitt um það, hvað þetta þýðir, en það segir þó það, að matið er enginn heilagur sannleikur í þessum efnum og maður gæti haldið að það væri stundum lítt á því byggjandi.

Af hverju kemur svona till. fram? Það er kannske fyrst og fremst vegna þess, að það eru flestir sammála um, að við þurfum á einhvern hátt að takmarka okkar sókn. Um það virðast flestir vera sammála í orði a. m. k., og spurningin er: Hvernig á að gera þetta? Á að setja kvóta, leyfa mönnum að veiða með hvaða veiðarfæri sem er, flottrolli, nót og öllum þeim veiðarfærum sem menn geta fundið upp, og setja kvóta á hvert skip? Eða á að gera það með því að minnka svæði, setja ákvæði um hvaða veiðarfæri megi nota og setja ákvæði um möskvastærð? Þetta er sú aðferð sem fyrst og fremst hefur verið höfð. Það hafa verið sett ákvæði um bann á ýmsum svæðum, það hafa verið sett ákvæði um möskvastærð, og ákveðin veiðarfæri hafa verið bönnuð. Flottrollið hefur verið bannað í mestum hluta landsins og þorsknótin hefur verið bönnuð. Og hvað liggur að baki þessu? Það liggur að baki þessu, að menn telja að fiskurinn þurfi einhvers staðar að hafa frið, hann þurfi einhvers staðar að geta haft afdrep, og það er hægt að veiða fisk í flottroll víða við landið. Það hafa sagt mér skipstjórar, að það hafi verið mikill fiskur uppi í sjó í köntunum við Austur- og Suðausturland sem hefði verið hægt að taka í flottroll núna í vetur, þannig að það er ekkert einsdæmi að það sé aðeins hægt að veiða í flottroll á ákveðnu svæði. En aðalatriðið er það, að við þurfum á einhvern hátt að takmarka þessa veiði, og það er nú svo, að það verður ekki gert út á flottroll eingöngu. Flottrollið er aðeins hjálpartæki, tæki sem haft er með, en botntrollið er veiðarfæri sem gert er út á eingöngu. Þess vegna er meiri ástæða til þess að takmarka eða banna flottrollið heldur en botntrollið.

Það hefur komið hér fram, að Landssamband ísl. útvegsmanna skrifaði bréf 1976 og varaði menn við því að fjárfesta í flottrolli. Mér er kunnugt um að a. m. k. einn togari, ef ekki fleiri á Austurlandi ætluðu sér að fara út í það að koma sér upp flottrollsútbúnaði, sóttu um láns­fyrirgreiðslu í því skyni til sjóða og fengu synjun, og þ. á m. var vísað í það, að það stæði til og hefði heyrst að banna ætti flottroll.

Þarna ríkir náttúrlega ekki jafnræði. Það verð­ur eitt yfir alla að ganga. Annaðhvort verður að leyfa þetta veiðarfæri, þar sem hægt er að beita því, eða leyfa það ekki. Þess vegna vildi ég að­eins ítreka það, að þessi till. er fyrst og fremst fram komin vegna þess að flm. telja að hér sé um sanngjarna leið að ræða til þess að takmarka að nokkru leyti til viðbótar sóknina í þorsk­stofninn.