02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4115 í B-deild Alþingistíðinda. (3158)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar aths., örfáar.

Það var að því fundið áðan að ég taldi margt benda til þess, að þessi till. væri byggð á tilfinningagrundvelli. En ég fæ nú ekki staðist að benda á það, að allmiklar tilfinningar komu fram hjá sumum flm. þessarar till. T. d. sagði hv. 2. þm. Reykn., að hann væri beinlínis hræddur, og undirstrikaði það og sagði það af mikilli áherslu. Og svipað kom fram hjá fleirum. Hv. 1. landsk, þm. sagði að till, væri flutt vegna hræðslu. Hræðslan er eitt hæsta stig tilfinninga, hygg ég. Það var talað um tortryggni, að það væri sköpuð tortryggni á milli landshluta. Tor­tryggni er líka mjög tengd tilfinningum manna. Ég gæti rakið þannig fleiri ummæli sem hér voru höfð áðan og voru, að mér fannst, öll mjög tengd tilfinningum. Ég hef ekkert á móti tilfinningum út af fyrir sig. En ég held að svona stórt mál eigi að byggjast á öðrum grunni og eigi að skoðast frá annarri hlið en af tilfinningum.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði að fiskifræðingar hefðu fullyrt í sín eyru um skaðsemi þessa veiðarfæris. Ég hef setið á fjölmörgum fundum — (StJ: Ég sagði að þeir hefðu fullyrt við mig, að með því að takmarka notkun flotvörpunnar eða banna væri hægt að ná meiri árangri í þorskverndinni heldur en með takmarkaðri lokun svæða.) Já, það er rétt. En ég ætlaði hins vegar að segja það, að ég hef setið á fjölmörgum fundum í fiskveiðilaganefnd með fiskifræðingum og hefur þar verið rætt um flotvörpuna, og enginn þeirra hefur sagt þar neitt í þessa átt — alls ekki. Ég tel að það sé rangt hjá hv. 1. flm. till., að það sé ekki hlutverk fiskifræðinganna að benda á slíkt. Þeir benda okkur á leiðir til friðunar. Þeir benda okkur á hvar eigi að friða, hvar eigi að draga úr, hvar eigi að beita skyndilokun og ótal aðrar aðgerðir. Ef friðun gegn flotvörpu væri mjög mikilvæg í þessu sambandi, þá er það bein­línis skylda þeirra að vekja athygli okkar á slíku. En það er staðreynd, að á þessum mörgu fundum hafa þeir ekki treyst sér til slíks. Þetta er staðreynd. Ég vil einnig benda hv. þm. á það, að þessi ágæta skýrsla, sem hér var notuð áðan, sýnir mjög eindregið að það er ekki lélegur fiskur sem Vestfjarðatogararnir koma með í land. (Gripið fram í.) Nei, það var hv. þm. Stefán Jónsson sem sagði að þetta hlyti að vera lélegur fiskur. Og það er náttúrlega enginn mælikvarði þótt ekki hafi tekist að verka nokkur tonn fyrir áratugum. Það er allt önnur aðstaða núna. Það hafa orðið miklar breytingar á þessu sviði og það er allt önnur aðstaða, eins og hann náttúrlega veit manna best.

Ég ætlaði ekki að lengja þessar umr. En ég bara undirstrika það, að mér finnst hér ekki byggt á þeim rökum sem við getum verið þekktir fyrir að nota hér í þessu sambandi. Væri ekki nær að samþykkja þá ákvæði til bráðabirgða um ítarlega athugun á áhrifum flotvörpunnar og jafnvel að krefjast þess, að ráðh. legði slíkt fyrir í haust, og athuga þetta svo? Ég held að það væri þá miklu nær, heldur en að rjúka hér upp á síðustu dögum þingsins með slíka till. Við erum að gagnrýna og ég tel með töluverðum rétti þá staðreynd, að sjútvn. þessarar d. hefur ekki haft þetta mál til meðferðar nema í örfáa daga, þessi viðkvæmu mál, breytingar á fiskveiði­lögsögunni, en svo rjúka þeir sömu menn hér upp með ekki síður viðkvæmt mál, bann á flot­vörpunni. Mér sýnist, því miður, að við séum hér að nota vinnubrögð sem við erum að gagn­rýna hjá öðrum, og ég held að við ættum að fara að orðum 1. flm. um rólega yfirvegun. Hv. 1. flm. lagði áherslu á rólega yfirvegun. Er þetta róleg yfirvegun hér á þriðja síðasta degi þings­ins í svo viðkvæmu máli? Og ég get ekki varist þeirri hugsun, að þetta sé að nokkru byggt á eins konar öfund í garð þeirra togaraskipstjóra sem náð hafa mestri leikni í meðferð flotvörpunnar eftir mikla vinnu og mikla yfirlegu í því sambandi. Ég get ekki varist þeirri skoðun. Og ég á ákaflega bágt með að skilja að slíkt bann sem hér er samþykkt muni leiða til, eins og hv. 2. þm. Reykn. talaði um, jöfnunar á tortryggni, skilst mér helst, eða eitthvað í þessa átt. Ég veit ekki hvort það á að vera verkefni okkar að jafna tortryggnina á landi með því að banna flotvörpuna alls staðar. Ég gæti jafnvel einnig vísað til orða hv. 1. landsk. þm. þegar hann sagði að bæði botnvarpan og flotvarpan dræpu smáfiskinn. Eigum við þá ekki að banna hvort tveggja í einu? Væri það ekki helsta leiðin til friðunar?

Nei, ég legg á það ríka áherslu, að við skulum skoða þetta mál vandlega, íhuga það rólega, og ég vil stinga því að flm. þessarar till., hvort þeir vilji ekki heldur beita sér fyrir ákvæði til bráðabirgða þar sem krafist verði ítarlegra rannsókna á þessu máli og skýrsla verði lögð hér fyrir í haust, þannig að okkur gefist tími til rólegrar yfirvegunar á þessu viðkvæma máli.