02.05.1977
Efri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4118 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra for­seti. Ég sé ekki betur en hæstv. iðnrh. sé fjar­verandi og óska þess eindregið að þess verði farið á leit við hann hið allra fyrsta, að hann heiðri Ed. með nærveru sinni á meðan þetta þýðingar­mikla mál er til 2. umr. í d. (Forseti: Það skulu gerðar ráðstafanir til þess að segja hæstv. iðnrh. frá því, að hv. þm. er að hefja mál sitt. Ráðh. hefur verið hér viðlátinn og á að vera því viðbúinn.) Ég mun þá hinkra við þangað til hann kemur. — Þá hefur hæstv. iðnrh. orðið við þeirri ósk minni að heiðra okkur með nærveru sinni hér í deildinni.

Herra forseti. Svo sem að líkum lætur tel ég við hæfi, áður en ég vík að nál. mínu og störfum í iðnn., að víkja örfáum orðum að niðurlagi umr. sem hér urðu í dag utan dagskrár varðandi þann almenna fund sem þm. Vesturl. héldu með kjósendum sínum að Heiðarborg við Leirárskóla í gær, þar sem gerð var einróma samþykkt sem beint var til ríkisstj. og hv. þm. kjördæmisins beðnir um að koma á framfæri. Um þetta efni mun ég þó ekki orðlengja, heldur aðeins vekja athygli á því, að því fer víðs fjarri að hér sé nú verið að fjalla um lagafrv. eins og það sem af­greitt var frá Alþ. á vordögum 1975 um málm­blendiverksmiðju í Hvalfirði. Mismunurinn á þessum tveim frv. liggur ekki bara í því, að niður hefur verið fellt úr frv. nafn Union Carbide, ameríska auðhringsins sem þá var samningsaðili íslendinga í þessu máli, heldur miklu fremur í ýmsum grundvallarbreytingum sem gerðar hafa verið á þessu máli. Ég vil minna á það, sem hv. þm. ætti sumum hverjum að vera í fersku minni, að áður en frv. um samstarf við Union Carbide var afgreitt úr þessari hv. d. veturinn 1975, en hér kom málið fyrr til umfjöllunar, þá voru hafnar framkvæmdir uppi á Grundartanga. Það var búið að grafa þar gryfjur. Ég man ekki betur en hross hafi drepist í einni gryfjunni áður en búið var að afgreiða málið úr iðnn. Ed. þá. Og mér er það í fersku minni, að svo sannarlega var búið að ráða tæknilegan framkvæmdastjóra Járnblendifélagsins áður en búið var að afgreiða málið úr þessari d. Það var einn af forstjórum Union Carbide í Noregi, merkilegt nokk, í Noregi, sem var ráðinn tæknilegur framkvæmdastjóri Járnblendifélagsins áður en málið var afgreitt úr Ed. árið 1975. Svo eru hæstv. ráðh. steinhissa á því að íbúar hreppanna sunnan Skarðheiðar skuli hafa orð á því að hafnar séu framkvæmdir á Grundartanga áður en sett hafa verið öðru sinni lög um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Að sveitarstjórnir á þessu svæði hafi samþykkt málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði með því að tilnefna fulltrúa í stjórn fyrirhugaðrar hafnar við Grundartanga, það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að halda slíku fram. Ég hef það fyrir satt og vænti þess að hv. þm. Ásgeir Bjarnason leiðrétti mig ef heimildir mínar reynast ekki réttar, þá hef ég það fyrir satt að einn af odd­vitunum þar efra hafi einmitt á fundinum í gær lýst einarðlega yfir því, að alls ekki mætti túlka setu hans í hafnarstjórn sem samþykki við Grundartangaverksmiðjuna sem hann væri ger­samlega á móti.

En hvað sem því líður, ég vil strax í upphafi þakka formanni iðnn. þessarar d. fyrir ágæta verkstjórn í iðnn. er fjallað var um þetta mál á allt of fáum dögum, en þeim mun lengri fundum. Það sagði hann satt, að kvaddir voru til viðtals allir þeir sem óskað var eftir til ráðuneytis um mál þetta og fjallað ítarlega um suma þætti þess. Undan slíku var alls ekki að kvarta. Hins hefði ég óskað, að hv. þm. Steingrímur Her­mannsson, formaður iðnn., og ýmsir aðrir fulltrúar í iðnn. hefðu verið jafnduglegir að draga skynsamlegar ályktanir af þeim upplýsingum, sem fram komu á nefndarfundunum, og þeir voru að hlusta á orð gáfaðra manna og sérfróðra sem kvaddir voru á fund n. til þess að upplýsa okkur þar.

Svo sem fyrr hefur verið tekið fram við umr. hér í d. hefur hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen nú lagt fyrir hv. Alþ. öðru sinni á tveimur árum lagafrv. um járnblendiverksmiðju á Grundar­tanga í Hvalfirði. Hæstv. ráðh. hafa haldið fram að frv. það, sem hér er fjallað um, eins og ég sagði áður, sé efnislega gersamlega eins og frv. það sem samþ. var á sínum tíma um samstarf við Union Carbide, gefið í skyn að það væri ein­göngu vegna nafnsins sem fælist í því frv. sem um það væri nú fjallað öðru sinni, en látið hjá líða að geta þess, sem þó er rétt og þarf ekki lengi að fletta Alþingistíðindum frá þeim tíma til þess að sjá það, að samþykkt frv. var í ræðum m. a. hæstv. iðnrh. og hv. þm. Steingríms Her­mannssonar, sem þá var einnig formaður iðnn. þessarar d., réttlætt með því, hvílíkt afburða­fyrirtæki þessi samstarfsaðili væri, hvað hann hefði til að bera djúpstæða afburðaþekkingu, tæknilega þekkingu á öllu því sem lýtur að framleiðslu á kísiljárni, langt umfram öll önnur fyrir­tæki í heiminum og þá ekki síst þau norsku. Því væri sjálfsagt að kaupa af Union Carbide tækni­lega þekkingu, sérþekkingu og einkaleyfi sem nauðsynleg væru til þessarar framleiðslu, — einkaleyfi sem ekki væru fáanleg annars staðar, — fyrir of fjár, að mig minnir rétt sömu upp­hæð og nú er til ætlast að við kaupum þessa tæknilegu þekkingu, þessa sérþekkingu af norska fyrirtækinu Elkem-Spigerverket. Hvort hefur nú tækniþekking norðmanna við framleiðslu á kísil­járni aukist svo stórlega síðan ekki kom til álita að ræða við annað fyrirtæki heldur en Union Carbide um þetta mál fyrir tveimur árum, eða hefur hin takmarkaða, lélega, allt að því fyrir­litlega tækniþekking norðmanna hækkað svona í verði á þessum tíma, eða hafa norðmenn með einhverjum hætti komist yfir einkaleyfin sem við ætluðum að kaupa þessu verði af Union Carbide? Það liggur að vísu ekki ljóst fyrir. En skjótt skipast veður í lofti og ekki er frægðin einhlít til langlífis eða frama fram á elliár. Ég veit ekki hvort heldur ég á að vorkenna hæstv. iðnrh. eða dást að honum fyrir það að hann skuli enn hnarreistur eftir tvö ár bera fram mál þetta hér á hv. Alþ. Ég veit sem sagt ekki hvort þetta heyrir undir þrautseigju eða þrákelkni, ekki síst með tilliti til árangursins af hinni fyrri lagasetningu um þetta mál.

Því er sem sagt haldið fram af hæstv. ráðh. og stuðningsmönnum hans í málinu, að frv., sem nú er fjallað um, sé í öllum meginatriðum sam­hljóða hinu fyrra lagafrv., þó að það sé í ýmsum grundvallaratriðum frábrugðið hinu fyrra, — grundvallaratriðum sem eru heitum á hinum virðulegu fyrirtækjum sem við höfum valið okkur að samstarfsaðila gersamlega óviðkomandi. Í fyrra frv. var samstarfsaðili ríkisstj. að verksmiðju þessari nafngreindur, þessi aðili sem fyrir skemmstu greiddi 850 millj. kr. fyrir að sleppa út úr samningnum um aðild að fyrirtækinu, en nú er samningsaðilinn ekki nafngreindur. Þessi breyting hefur ekki verið skýrð af hálfu hæstv. iðnrh. En ekki gæti það nú talist óvin­gjarnleg tilgáta, að þetta væri e. t. v. gert af hyggindum, ef svo skyldi fara að einnig það fyrirtæki hlypist á brott frá málinu, sem við göngum nú til samstarfs við, og kynni þá að verða þrautalendingin að tíunda lausnargjöld er­lendra fyrirtækja sem helstu og einu tekjurnar af járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.

Fulltrúar Alþb. í iðnn. beggja þd. óskuðu eftir því, að lagðar yrðu fyrir n. allar skriflegar upplýsingar sem fyrir liggja um samskipti málmblendifélagsins og Union Carbide, allar bókanir og bréfaskipti sem varða ákvörðun Union Carbide um að draga sig út úr fyrirtækinu. Þessi gögn fengust ekki afhent í iðnn. Nd., þar var synjað um þau plögg. Í iðnn. Ed. var því heitið að gögnin skyldu lögð fram, en af því varð ekki að þau yrðu lögð fram í n. Að vísu kom það fram í umr. í n., að minnst af því, sem fram fór á milli Union Carbide og málmblendifélagsins varðandi málið, hefði verið bókfært og enn þá minna væri að finna í bréfum. Það var að vísu ekki sagt, ekki tekið fram, en það lá einhvern veginn við að maður fengi það á tilfinninguna, að fæst af því, sem sagt var, hefði verið sagt upphátt. Af því má hins vegar draga nokkrar ályktanir, að höfuðlausn Union Carbide, upphæðin sem fyrir­tækið greiddi í skaðabætur, nemur nokkurn veginn sömu upphæð og Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út að numið hefði tapið af rekstri járn­blendiverksmiðjunnar, ef hún hefði verið í gangi árið 1976 eða í fyrra.

Ég hef skilað hér til d. minnihlutaáliti iðnn., svofelldu:

„Ljóst er af upplýsingum, sem fram hafa komið við umfjöllun málsins í þn. og við umr. um málið í Nd., að hér er um að ræða fjárglæfrafyrirtæki þar sem líkurnar benda flestar til þess að þjóð­inni sé búið fjárhagslegt tjón ef úr verður. Fyrir liggja upplýsingar um versnandi stöðu málmblendiiðnaðarins í heiminum, og líkur benda til þess, að enn frekar muni halla á ógæfuhliðina fyrir þessari framleiðslugrein er stundir líða fram. Samkv. nýlegum upplýsingum, fengnum úr nafnkunnum erlendum efnahagsmálatímaritum, eru málmblendiverksmiðjur Evrópu margar hverjar á gjaldþrotsbarmi vegna versnandi samkeppnisaðstöðu við málmblendiverksmiðjur í öðrum heimshlutum (sjá fskj. nr. I). Samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar hefði tap af málmblendiverksmiðjunni numið 850 millj. kr. á s. l. ári hefði hún þá verið í gangi (sjá fskj. nr. II). Ljóst er einnig að raforkusala Landsvirkjunar til fyrirhugaðrar járnblendiverksmiðju á því verði, sem um er samið, er mjög óhagstæð og nægir söluverðið ekki fyrir kostnaði við fram­leiðslu Sigölduversins.

Ljóst er enn fremur, að starfsleyfi það, sem heilbrrn. hefur gefið út til verksmiðjunnar, fullnægir alls ekki þeim kröfum sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð gera til hollustuhátta og umhverfisverndar af hálfu slíkra fyrirtækja (sjá fskj. nr. III), og virðist svo sem hlífa eigi fyrirtækinu af fjárhagsástæðum við því að koma upp fullkomnum og fullnægjandi mengunarvörnum og ráðstöfunum til heilsu­gæslu.

Loks er þess að geta, að fyrir liggja óyggjandi upplýsingar um það að allur þorri fólksins, sem býr við Hvalfjörð og í nánustu grannsveitum fyrirhugaðrar verksmiðju, er andvígur því að þessi verksmiðja rísi á Grundartanga.

Af þessum sökum leggur minni hl. iðnn. til að frv. verði fellt.“

Ég mun nú ekki í framsöguræðu minni lesa upp fskj. sem með nál. eru prentuð, en vil aðeins tilgreina þau nánar.

Varðandi horfurnar í málmblendiiðnaðinum er birt hér þýðing úr Le Monde Diplomatique frá því í ágúst 1976. Það eru fréttir frá Ceca, Evrópska kola- og stálsambandinu. Þá er grein úr Business Week frá 8. 11. 1976, frá 8. nóv. nú í haust, sem ber fyrirsögnina „Vonir stáliðnaðarins hafa brugðist gersamlega“. Þá er grein frá 10. jan. 1977 úr Le Nouvel Observateur. Fyrirsögn greinarinnar er „Milljarðarnir gufa upp“. Enn er grein úr The Economist frá 12. febr. nú í vetur sem heitir „Kreppan í stálheiminum“. Enn er til að greina ritstjórnargrein úr Le Monde frá 22. febr. nú í vetur, sem heitir „Samband stálverkamanna í Bandaríkjunum krefst æviráðningar“. Enn er grein úr Le Monde Diplomatique frá því í mars í vetur. Það eru stálfréttir frá Evrópu þar sem greint er frá atvinnuleysi í stáliðnaðinum vegna þess að dregið er úr framleiðslu og birgðageymslur stáliðjuveranna og málmblendiverksmiðjurnar eru orðnar fullar. Enn er grein úr International Herald Tribune frá 14. mars nú í vetur undir fyrirsögninni: „Vestur-þjóðverjar flytja verksmiðjur til útlanda“, þar sem greinir frá því að þjóðverjar eru að hætta í stál- og málmblendi­iðnaði heima hjá sér að verulegu leyti þar sem verksmiðjur þeirra eru ekki lengur arðbærar, en eru teknir að flytja út verksmiðjur til annarra landa. Þá er grein úr Le Monde Diplomatique frá því í síðasta mánuði undir fyrirsögninni: „Harðari ráðstafanir boðaðar vegna stálkreppunnar“. Enn er grein úr Observateur frá 11. apríl, 11. síðasta mánaðar, undir fyrirsögninni: „Hrun stálfyrirtækisins „USINOR“. Þá er grein úr Frankfurter Allgemeine Zeitung, dags. 15. apríl 1977. Fyrirsögn greinarinnar er: „Sjúki stál­markaðurinn“. Enn vil ég geta greinar frá 15. síðasta mánaðar úr Die Welt. Fyrirsögn þeirrar greinar er: „Samtök málmiðnaðarmanna krefjast alþjóðlegar sameiningar í stálmálum“, og fjallar enn um kreppuna og yfirvofandi harðnandi kreppu í iðnaði þeim sem nú er lagt til að við íslendingar leggjum út í og leggjum aleiguna að veði fyrir. Enn er grein úr Die Welt, dags. 16. apríl 1977, þar sem greinir frá mótmælum verkamanna við Thyssen-verksmiðjurnar vegna uppsagna og samdráttar í framleiðslunni. Þessar greinar hafa allar verið þýddar á íslensku af ábyrgum aðilum, og vænti ég þess að þeir þm., sem kynnu að vera þess fýsandi að afla sér nokkurrar vitneskju um stöðuna í þessum málum og horfurnar umfram það, sem kemur frá stjórn járnblendiverksmiðjunnar í gegnum Elkem-Spigerverket, og síðan umfram það, sem fengist hefur frá Þjóðhagsstofnun, yrðu nokkru fróðari um þessi mál ef þeir hefðu fyrir því að lesa þessar greinar.

Fskj. nr. II með nál. er útreikningur sá sem áður er frá greint að Þjóðhagsstofnun gerði á því, hver árangur hefði orðið af rekstri járnblendiverksmiðjunnar árið sem leið. En niðurstöðutala þess reiknings er svo hljóðandi, orðrétt frá Þjóðhagsstofnun:

„Hreinn hagnaður fyrir beina skatta — 22 millj. norskra kr.“

Þriðja fskj. með nál. er síðan bréf Náttúruverndarráðs, undirritað af Eysteini Jónssyni, formanni þess, og Árna Reynissyni, framkvæmda­stjóra, til iðnn. Ed. Alþ., þar sem Náttúruverndarráð lætur í ljós skýlaust álit sitt á þeirri hlið fyrirhugaðrar verksmiðju sem lýtur að verndun umhverfis og lífríkis Íslands. En sem fyrr segir les ég ekki þessi fskj. núna í framsöguræðu minni. Ég mun efalítið vitna til þeirra. En ég hlýt að mælast til þess að hv. alþm. í d. lesi þessi fskj., því að að öðrum kosti geta þeir ekki tekið málefnalega afstöðu til álits minni hl. n.

Okkur má vera það minnistætt hér í d., hversu rekið var á eftir afgreiðslu fyrri lagafrv. um samstarfið við Union Carbide, einmitt á þeim vordegi fyrir rúmum tveimur árum þegar 2. umr. átti sér stað í þessari hv. d. um frv. Og enn er rekið á eftir og unnið að málinu með þeim hætti, með þeim alkunna þingræðislega öfuguggahætti sem allt of oft virðist einkenna málatilbúnað af hálfu þeirra stóriðjumanna, hvort sem þeim er það meðvitað eða ekki, hvort sem þeim er það sjálfrátt eða ósjálfrátt.

Síðar við þessa umr. kann að gefast tími til að rifja upp ítarlega ýmis helstu ummæli hæstv. iðnrh., hv. þm. Steingríms Hermannssonar og enn fleiri stuðningsmanna máls þessa við umr. um samninginn við Union Carbide því til staðfestingar, hversu mikið er að marka röksemdafærslur þessara aðila, og skyggnast þannig eftir því, hvað stendur nú af staðhæfingum þeirra þá. Ég geri ráð fyrir því, að þm. fýsi nú að hugleiða það, hversu mikið var að marka arðsemiútreikninga sérfræðinga hæstv. iðnrh. þá, fyrir tveimur árum, þ. á m. arðsemiútreikninga Þjóðhagsstofnunar gerða að beiðni þessara aðila í leit að hag­stæðri niðurstöðu. Af þeim jarteiknum geta hv. þm. síðan dregið ályktanir um það, hversu mikið kunni að hafa verið að marka fullyrðingar þessara sömu manna um skaðleysi verksmiðjunnar fyrir lífríki Hvalfjarðar og heilsu starfsmanna, ef á þær fullyrðingar hefði reynt.

Nú í framsöguræðunni læt ég hins vegar nægja að minna á það, með hvaða hætti hið nýja málmblendimál, frv. þetta á þskj. 187, er vakið hér á Alþ. Því var, svo sem hv. þm. má vera í minni, dreift til hv. þm. á síðkvöldi, þ. e. a. s. allra nema þm. Alþb. og SF, um jólaleytið, í svartasta skammdeginu, þ. e. a. s. því var dreift heim til þm. þeirra flokka sem greiddu atkv. með samningnum við Union Carbide, og skyldi nú flýta upptöku þessa máls á þingi. Hæstv. iðnrh. gaf þá skýringu á málsmeðferðinni, að ástæðulaust væri að kynna málið fyrir þeim þm. sem væru því andvígir. Nú er ég ekki að halda því fram, að hæstv. iðnrh. sé einn ráðherra í ríkisstj. um það að leggja stund á eða hafa a. m. k. næsta Suður-Ameríkuleg viðhorf til lýðræðis og þingræðis þegar um er að ræða mál sem hann telur varða sína persónulegu sæmd, mikla eða litla eftir ástæðum. Um þetta viðhorf eru fleiri sekir en hæstv. núv. iðnrh.

Síðasta dæmið um þessi viðhorf ráðh. er frá þessum degi, er hann gengur nú raunverulega ekki með köldu blóði á bak orða sinna í sambandi við tillit til viðhorfa heimamanna til stóriðju­fyrirtækja, það verður ekki hermt upp á hann. En hitt verður honum borið á brýn, að klóra sig með orðhengilshætti frá yfirlýsingu um lýðræðisleg viðhorf til þessara mála, þar sem hann heldur því nú fram að ummæli hans hér á Alþ. 10. febr., þegar hann lýsti yfir því, að ekki kæmi til greina að koma upp stóriðjufyrirtækjum af álíka eða þessu tagi í neinu byggðarlagi gegn vilja fólksins, að þessi ummæli hafi aðeins átt við umrædda álverksmiðju við Eyjafjörð og að það hafi alls ekki vakað fyrir honum að íbúar annarra héraða yrðu aðnjótandi þess háttar náðar af hálfu valdstjórnarinnar, að þar yrði ekki komið upp stóriðjufyrirtækjum þótt íbúarnir væru því andsnúnir.

Í ræðu minni hér á eftir mun ég tíunda þau rök sem hníga að því áliti þingflokks Alþb., að þjóðinni sé búið fjárhagslegt tjón af verksmiðju þessari ef reist verður, að verksmiðjan sjálf yrði rekin með stórfelldu tapi, að raforkuverð það, sem fyrirtækinu er ætlað að greiða, standi ekki undir kostnaðarverði frá Sigöldu ef rétt er reiknað, að starfsmönnum verksmiðjunnar yrði búið heilsutjón sökum óhollustu og umhverfi verksmiðjunnar öllu búinn stórskaði og lífríki Hval­fjarðar, nærsveitanna, Borgarfjarðar alls og raunar alls landsins búin vá vegna mengunar frá verksmiðjunni nokkurn veginn í réttu hlutfalli við nálægð hennar.

Í fskj. með nál. minni hl. iðnn. getur að finna upplýsingar, svo sem fyrr er getið, sem safnað hefur verið úr skrifum viðurkenndra erlendra sérfræðinga um framtíðarhorfur verksmiðja í stál- og málmblendiiðnaðinum, þar sem staðfest er það álit okkar alþb.-manna, að hér sé um mjög svo áhættusamt fyrirtæki að ræða og að langflestar líkur bendi til þess að tap verði á rekstri verksmiðjunnar. Þannig er um hnútana búið, að áhættan af rekstri fyrirtækisins samkv. samningi þeim, sem gerður hefur verið við Elkem-Spigerverket og hér er til umfjöllunar, hvílir öll á íslenska ríkinu eða svo til öll. Eignar­hluti Elkem-Spigerverkets verður m. a. greiddur með tæknilegri þekkingu, svo sem fyrr er getið, sem metin er á hálfa fjórðu millj. dollara, að auki með markaðsfyrirgreiðslum og tækniaðstoð, en að öðru leyti með tæknibúnaði. Elkem hættir sáralitlu þótt tap kunni að verða á rekstri verksmiðjunnar, beinlínis vegna þess að ekki verður tækniþekkingin tekin af Elkem upp í tapið af íslensku kísiljárnsverksmiðjunni. Þess er getið til sannindamerkis, af hálfu hv. þm. Steingríms Hermannssonar í framsöguræðu hans var þess getið til sannindamerkis um hagkvæmni fyrirtækisins og gróðavonir þess, að Norræni fjárfestingarbankinn lánaði fé án þess að krefjast ríkisábyrgðar af járnblendiverksmiðjunni. Norræni fjárfestingarbankinn þarf ekki að krefjast sérstakrar ríkisábyrgðar á skuldbindingum fyrirtækisins vegna þess að þegar betur er að gáð, þá er svo um hnútana búið að hann hefur sjálft Ísland að veði fyrir lánunum.

Þá er vitnað í arðsemiútreikninga Þjóðhagsstofnunar til stuðnings því áliti, að verksmiðja þessi verði arðbær. Ef við hugum nú að gildi þeirra útreikninga skulum við fyrst og fremst gera okkur grein fyrir því, að Þjóðhagsstofnun hefur þar ekki haft úr að moða að neinu ráði öðrum skjölum en þeim sem aðstandendur Járnblendifélagsins fengu henni í hendur Járnblendi­félagið og aðstandendur þess. Hlutverk hennar var aðeins að fara yfir útreikninga Járnblendifélagsins sem var einföld reiknivélavinna. Þetta gerði Þjóðhagsstofnun líka þegar fjallað var um samninginn við Union Carbide, og niðurstaða Þjóðhagsstofnunar þá varð sú, að hér yrði um arðsaman rekstur að ræða. Það fór nú heldur betur ekki á milli mála að dómi Þjóðhagsstofnunar, sem studdist þá sem nú fyrst og fremst við upplýsingar frá nánustu aðstandendum fyrirtækis þess sem koma skyldi upp. Ofan á þetta bætist svo útreikningur Þjóðhagsstofnunar gerður að ósk fulltrúa Alþb. í iðnn. Nd. á því, hver orðið hefði fjárhagsútkoma verksmiðjunnar hefði hún verið rekin í fyrra, — útreikningur sá sem fyrr getur og fylgir sem fskj. með nál. minni hl. Hér var líka um einfalda reiknivéla­vinnu að ræða af hálfu Þjóðhagsstofnunar. Niður­staðan samkv. útreikningum hennar hefði orðið sú, að hefði verksmiðjan verið rekin í fyrra, þá hefði tapið af henni orðið 800–850 millj. á einu ári, og þótt leitað sé með logandi ljósi finnast alls engar frambærilegar líkur sem benda til þess að staða fyrirtækisins mundi batna með árunum. Horfurnar eru ekki slíkar, og vil ég vitna hér enn til greina úr erlendum fræðiritum sem ég áður nafngreindi og fylgja nál.

Mér er kunnugt um að afstaða fjölmargra þm. stjórnarflokkanna til þessa frv. er sú, að þeir telja að borin sé gróðavonin af rekstri verksmiðjunnar, fjárhagsáhættan sé gífurleg, en ekki verði með öðrum hætti en þessum hægt að koma í verð raforku frá Sigöldu. Þeir réttlæta fyrir sér stuðninginn við fyrirtæki, sem þeir telja sjálfir að sé bersýnilega „fallit“ fyrir fram, dauðadæmt í fæðingunni, með því að ekki verði með öðrum hætti hægt að koma í verð eða öllu fremur í lög rafmagni frá Sigöldu. Er þá næst að vitna aftur í fyrrgreinda útreikninga Þjóðhagsstofnunar á arðsemi verksmiðjunnar.

Hefði verksmiðjan, svo sem fyrr er getið, verið í gangi árið sem leið, þá hefði hún keypt raf­orku frá Sigöldu fyrir um það bil 600 millj. kr. Samkv. þessum útreikningum er það ljóst, að þótt verksmiðjan hefði fengið raforkuna gefins, ekki borgað eyri fyrir hana, þá hefði samt orðið 200–250 millj. kr. tap á rekstrinum. Ef þetta atriði nægir ekki þeim þm., sem tíunda raforku­söluna sem ástæðu, skal lauslega farið út í grundvallaratriðin varðandi raforkusöluna, þau atriði sem skipta máli.

Rafmagnsverðið nú til almennra rafveitna frá Landsvirkjun er um það bil 3.20 kr. á heildsöluverði fyrir forgangsorku. Til járnblendiverk­smiðjunnar er heildsöluverðið samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fyrir mér, u. þ. b. 2.20 kr., en hv. þm. Steingrímur Hermannsson skilgreindi áðan aðeins lægra verð, 2.02 kr. og má vel vera að hann hafi þar réttar fyrir sér heldur en ég. Verð afgangsorku til járnblendiverksmiðjunnar er röskir 50 aurar fyrir kwst. Meðalverðið er því 1.20 kr. samkv. skiptingunni á milli forgangs­orku og afgangsorku sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson tilgreindi áðan. Nú er að vísu um það deilt, hvort verðið á forgangsorkunni sé framleiðslukostnaðarverð eða rétt undir fram­leiðslukostnaðarverði. Enginn heldur því fram, að ágóði sé af því verði. Það er um það deilt, hvort hér sé um að ræða framleiðslukostnaðar­verð eða verð sem sé aðeins undir framleiðslu­kostnaðarverði. Við höldum því fram, alþb.-menn, að það sé undir framleiðslukostnaðarverði. En þetta er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það, að gengið sé út frá meðalverðinu, reiknað út frá meðalverðinu, sem er um það bil 1.20. Ástæðan fyrir því, að við verðum að reikna út frá meðal­verðinu, er sú, að skilmálarnir, sem afhending umframorkunnar er háð í sölusamningi, eru þess háttar, að ekki er um að ræða afgangsorku, heldur öllu fremur forgangsorku sem háð er skil­málum. Í Noregi er orka, sem seld er með sam­bærilegum skilmálum, seld á verði sem nemur 70–75% af verði óskilorðsbundinnar forgangs­orku. Þetta er staðfest í meginatriðum í bréfi Orkustofnunar til Alþ., bréfi því sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson vitnaði í áðan. Í þessu sama bréfi er vakin athygli á því, að forgangs­orkuverðið, sem ætlunin er að veita járnblendi­verksmiðjunni, er algert grunnverð, á það leggst ekki söluskattur né heldur verðjöfnunargjald sem lagt er á alla raforkusölu frá Rafmagnsveitunum til neytenda. Með þessum hætti verður Járn­blendifélagið undanþegið öllum greiðslum til samfélagsins í þeirri mynd sem verða mætti til þess að kosta ýmsar sameiginlegar raforkufram­kvæmdir.

Viðurkennt er að orkuverðið, sem Járnblendifélaginu er ætlað að greiða, er hið langlægsta sem þekkist í Evrópu og mun lægra en það sem tíðkast í Noregi. Bankastjóri Norræna fjárfest­ingarbankans sagði sjálfur í útvarps- og sjón­varpsviðtölum hér að orkuverðið, sem íslendingar byðu norðmönnum væri 50% lægra en það sem fáanlegt væri í Noregi. Þess vegna fyrst og fremst væri það sem Norræni fjárfestingarbankinn teldi að hægt ætti að vera að reka málm­blendiverksmiðjuna á Íslandi þrátt fyrir mun hærri flutningskostnað bæði á hráefni og unninni vöru heldur en á meginlandi Evrópu.

Fyrst raforkusölusamningurinn við málmblendifélagið er svona óhagstæður eins og ég held fram og við alþb.-menn, þá kemur spurningin til þeirra stuðningsmanna verksmiðjunnar, sem vita þó að þeir eru í öðrum atriðum að gera rangt: Hvað eigum við þá að gera við orkuna frá Sigöldu? Svarið getur að lesa í þessu fyrr­nefnda bréfi Orkustofnunar. Markaðurinn fyrir þessa orku er fyrir hendi á landi hér. Aðeins þarf að nýta hann. Samkv. útreikningum mun 200 gwst. sala Landsvirkjunar til almennra nota á landi hér færa fyrirtækinu 600 millj. kr. tekjur. 200 gwst. sala Landsvirkjunar til almennra nota á því verði, sem fyrir það er greitt, mundi færa fyrirtækinu 600 millj. kr. tekjur. En salan á 440 gwst. til Járnblendifélagsins mun gefa af sér rösklega 600 millj. kr. tekjur eða álíka miklar tekjur og 200 gwst. sala til almennra nota. Þörf fyrir alla orku Sigöldu er fyrir hendi á hinum almenna markaði, og væri hafist handa nú um bætt dreifikerfi með samtengingu gætum við komið þessari orku allri á almennan markað fyrir árið 1979, er járnblendiverksmiðjan á að taka til starfa ef úr verður. Þörfin er hvarvetna. Á Vestfjörðum einum er markaður fyrir 120 gwst. eða rúmlega helming þess magns sem selja þarf til þess að ráðstafa verðmæti orkunnar sem fyrirhugað er að selja til þess að jafngilda kaupgetu járnblendiverksmiðjunnar. Á Snæfellsnesi, í Dölum vestur og norður um Húnavatnssýslur er þörf fyrir álíka orku. Er þá komið fram yfir há orkusölu til almennra nota sem til þess þarf að jafngilda orkusölunni til járnblendiverksmiðjunnar að fjárhæð, og væri þá eftir óráðstafað næstum helmingi orkunnar sem væri þá hægt að útdeila ókeypis ef með þyrfti.

Í bréfi Orkustofnunar, því sem áður hefur verið á minnst oftlega, því sem hv. þm Steingrímur Hermannsson minnti á, segir orðrétt:

„Vakin er athygli á því, að hér er lögð til grundvallar orkuspá fyrir landið í heild og hún borin saman við vinnslugetu Sigöldu og Kröflu. Slíkt er að því leyti óraunhæft nú, að landið er enn ekki samtengt í einn raforkumarkað. Við vitum að Sigalda ein sér verður ekki í reynd fullnýtt að orku árið 1978. En mikilvægt er að gera sér grein fyrir því, að ástæðan til þess er ekki sú, að orkuþörfin sé ekki fyrir hendi, heldur sú, að flutnings- og dreifikerfi landsins er ekki í stakk búið til þess að koma orkunni, sem ekki nýtist frá Sigöldu, til þeirra notenda sem þurfa á henni að halda.“

Það ríkir m. ö. o. offramboð á orku í einum hluta landsins samtímis orkuskorti í öðrum hlutum landsins.

Að þessari aths. Orkustofnunar lesinni má það blasa við hverjum manni, að það er ekki af tilviljun að fyrirætlunum um línulagnir og sam­tengingu orkukerfisins hefur verið drepið á dreif. Ástæðan fyrir því að seinkað hefur verið öllum framkvæmdum á þessu sviði er beinlínis sú, að verið er að undirbúa markað fyrir stóriðju á landi hér. Ef markaðurinn innanlands væri nýttur, ef því fé eða broti af þeim upphæðum, sem nú er vélað um beinlínis og óbeinlínis til stór­iðjuframkvæmda, hefði verið varið eða yrði varið til þess að dreifa raforkunni um landið til þess að nýta innlenda markaðinn til eðlilegra nota, þá væri beinlínis engin orka aflögu fyrir stór­iðnað á Íslandi. Ef markaðurinn til eðlilegra, náttúrlegra innanlandsnota væri nýttur, þá væru íslendingar ekki aflögufærir um orku til stóriðnaðar. Sannleikurinn er nefnilega sá, að áður en fyrirhuguð járnblendiverksmiðja í Hvalfirði gæti tekið til starfa árið 1979 verður orðinn bæði orkuskortur og aflskortur í landinu.

Okkur var sagt það, þegar fjallað var um Union Carbide-málið fyrir tveimur árum, að ekki yrði unnt að samtengja raforkukerfið og treysta dreifilínur fyrir innanlandsmarkað í tæka tíð áður en Sigalda tæki til starfa. Hitt var þó sagt, að ef hafist hefði verið handa um þetta þá þegar, þá hefði því starfi nú verið lokið að því marki að hægt hefði verið að koma Sigöldu­rafmagni, sem nú er tiltækt umfram brýnustu þarfir, inn á innlendan markað. Og hið sama er uppi á teningnum núna, ef hafist væri handa af fullum krafti við uppbyggingu dreifikerfisins nú, þá yrði lokið heim línulögnum, sem til þess þarf að ráðstafa orku Sigöldu á eðlilegan innan­landsmarkað, áður en járnblendiverksmiðjan gæti tekið til starfa.

Það var tilgreint sem ein höfuðástæðan fyrir því, að við yrðum að gera samninginn við Uninon-Carbide á sínum tíma um málmblendiverksmiðjuna, að verksmiðja þessi ætti að vera orðin kaupandi að rafmagni um líkt leyti og Sigöldu­virkjun tæki til starfa en ógerlegt mundi vera að koma upp af tæknilegum ástæðum dreifikerfi sem nægði til að dreifa þessari orku frá Sigöldu til þeirra landshluta, þar sem orkuna skorti. Nú eru vélar Sigöldu byrjaðar að snúast, en járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði er ekki farin að kaupa frá þeim raforku. Hefðum við tekið þá pólitísku ákvörðun þá að hefja línulögnina af krafti og afli og hefja störf við styrkingu dreifikerfisins af orku, þá gætum við nú þegar komið orku frá Sigöldu til þeirra landshluta, þar sem þessa orku skortir, og sparað fólkinu, sem þar býr, stórkostleg útgjöld, enda þótt við seldum orkuna til húshitunar á því verði sem hún er nú seld til neytenda á orkuveitusvæði Landsvirkjunar. Og vel að merkja, þetta var hægt að gera fyrir minna fé en ætlað er til járnblendiverksmiðjunnar, og markaðurinn, sem tæki við orkunni, gæti greitt næstum tvöfalt hærra verð fyrir orkuna, þannig að viðskipti Landsvirkjun­ar við hina innlendu aðila yrðu allt að því tvö­falt hagstæðari en reikna má með að viðskiptin verði við járnblendiverksmiðjuna.

Um þann hluta málsins, sem lýtur að markaðshorfunum, arðsemi hins fyrirhugaða fyrirtækis og orkusölusamningnum til þess, hefur verið fjallað ítarlega í Nd. Aftur á móti fór það svo, að í iðnn. Nd. var lítt fjallað um þá þætti verksmiðjumálsins sem lúta að mengunarhættu og þeirri hættu sem heilsu starfsmanna þessa fyrirtækis verður búin af völdum innri mengunar. Ástæðan fyrir því, að lítt sem ekki var fjallað um þessa hlið málsins í iðnn. Nd., er hv. þm. ljós. Svo var til gildrað að gögn frá Heilbrigðis­eftirliti ríkisins, sem vann að undirbúningi starfs­leyfis fyrir verksmiðjuna, voru þm. þeirrar d. óheimil. Umsögn Heilbrigðiseftirlitsins til heil­brrh., þessi bók hérna, var afhent í tveimur eintökum hér í þinghúsi nú fyrir tiltölulega fáum dögum, eintökin stimpluð sem leyndarmál, og hv. þm. Ingólfur Jónsson, formaður iðnn. Nd. hafði það eftir Hrafni lækni Friðrikssyni, for­stöðumanni Heilbrigðiseftirlitsins, að efni umsagnarinnar væri þess háttar, að auðvelt væri að misnota það, sem sagt hætta á því að hv. alþm. misnotuðu það með því að slíta það úr sam­hengi, þess vegna væri þetta afhent sem trúnaðarmál eða leyndarmál í tveimur eintökum. Það kostaði svo snarpar umr. utan dagskrár í Nd., sem tóku nær því allan starfstíma d. þann daginn, og það var knúið fram að hæstv. heilbrrh. lýsti yfir hví, að hann teldi að hér væri ekki um þess háttar trúnaðarmál að ræða að hv. alþm. væri ekki treystandi til að fara sæmilega með það.

Ef í starfstímum er talið þarf ég ekki að kvarta undan því, að hv. formaður iðnn. hafi ekki ætlað sæmilegan tíma til þess að fjalla um þennan hátt verksmiðjumálsins í iðnn. Ed. Þar var fjallað allítarlega um þetta mál sér­staklega, að því er mér telst til í næstum 6 klukkutíma samtals, og það er að vonum, því að hér er um að ræða, þar sem er sú vá sem er búin lífríki landsins og heilsu starfsfólks, það tjón sem ekki verur í krónum talið, ekki einu sinni í norskum kr. Í fyrsta lagi teljum við þar til heilsutjónið sem fyrirhuguðu starfsliði stofnunarinnar gæti verið búið vegna óhollustu í verksmiðju þessari og á lóð hennar, — gæti verið sagði ég, í öðru lagi það tjón sem lífríki Hvalfjarðar og nærsveita og út frá þeim lífríki Faxaflóa og Borgarfjarðar og þaðan í frá landsins alls væri búið eða gæti verið búið af völdum þessa fyrirtækis.

Fyrra sinnið er fjallað var um samninginn við Union Carbide var vissulega brýn ástæða til þess að fjalla ítarlega um þessa hlið málsins. Það var gert einnig þá í iðnn. Ed. undir verk­stjórn hv. hm. Steingríms Hermannssonar. Um það atriði var fjallað mjög ítarlega þá eins og nú, en árangurinn af þeirri umfjöllun varð sá, að Alþ. kaus að trúa þeim staðhæfingum aðstandenda verksmiðjunnar og þá fyrst og fremst náttúrlega hæstv. iðnrh. Gunnars Thoroddsens og hér í d. staðhæfingum rafmagnsverkfræðingsins, framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs og fulltrúa í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, hv. þm. Stein­gríms Hermannssonar, — staðhæfingum þeirra um að mengunar- og sýkingarhætta af völdum þessarar starfsemi yrði sennilega jafnlítil og efnahagslegur ávinningur af fyrirtækinu yrði mikill. Sem betur fer kom það í ljós, áður, að niðurstöður fimm ára starfs þeirra sérfræðinga að útreikningum á glæsilegum efnahagshorfum fyrirtækisins voru rangar. Það kom í ljós áður, svo að ekki þurfti að reyna á sannleiksgildi full­yrðinga þeirra um skaðleysi verksmiðjunnar fyr­ir umhverfi og heilsu starfsmanna verksmiðjunnar.

Ég hef sagt — og það hefur raunar margsinnis komið fram áður — frá útreikningum Þjóðhagsstofnunar á arðsemi fyrirtækisins, að það hefði verið rekið árið 1976 eða í fyrra með tapi sem numið hefði 800–850 millj. kr. Við ýmsir, sem höfum hvað mestar áhyggjur af mengunarhættunni sem stafar af stóriðjufyrirætlununum, gerð­um okkur í nokkra mánuði vonir um að þar með mundu valdhafarnir hafa rökstudda ástæðu til þess að hugsa sem svo, að e. t. v. væri þá ekki heldur mikið að treysta á ummæli hæstv. iðnrh. og ráðgjafa hans um mengunarmálin, fyrst svo hefði tekist til um útreikningana á arðseminni, e. t. v. væri rétt að taka þá hliðina til athugunar líka, þá hliðina sem lýtur að mengunarhættunni og óhollustunni frá þessari verksmiðju. Reyndin varð aftur á móti sú, að þrátt fyrir allt það, sem fram kom í sambandi við efnahagsmálahlið fyrirtækisins, augljóst bullandi tap, fengust þessir ágætu valdhafar ekki til þess að hætta að trúa á útreikninga og staðhæfingar sérfræðinganna, fyrirtækið skyldi sem sagt rísa eigi að síður. Fyrirtækið skal sem sagt rísa þrátt fyrir fyrirsjáanlegt bullandi efnahagslegt tap.

Nú er enn þá brýnni ástæða til að huga vandlega að þeirri hlið málsins sem lýtur að mengunar- og heilsuverndarþættinum, og kemur þar fyrst og fremst þetta til: Starfsleyfi hefur verið gefið út til járnblendiverksmiðjunnar af hálfu ríkisstj., nánar tiltekið af hálfu heilbrrh., þvert gegn ráðleggingum Heilbrigðiseftirlits ríkisins og Náttúruverndarráðs í ákaflega veigamiklum atriðum. Sérstakar ráðstafanir voru, svo sem fyrr segir, gerðar til þess að halda leyndri umsögn Heilbrigðiseftirlitsins um starfsleyfið, halda þess­ari umsögn leyndri bæði fyrir þm. og fyrir Náttúruverndarráði. Fulltrúar í iðnn. Nd. fengu ekki að sjá umsögn Heilbrigðiseftirlitsins um starfsleyfi verksmiðjunnar meðan fjallað var um málið í þeirri n. Fulltrúa Alþb. í n. var synjað um þetta þýðingarmikla skjal allar götur þar til að morgni þess dags sem iðnn. lagði fram álít sitt í Nd., og málið var tekið þar til umr. áður en fulltrúi Alþb. í n. fengi tækifæri til þess að kynna sér álít Heilbrigðiseftirlitsins og umsögn þess. Honum var afhent umsögnin, og ef þið haldið að tíminn frá því um hádegi til kl. 2, er þingfundur var settur, hafi getað nægt, þá getur hér sem sagt að líta umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins til heilbrrh., skjalið sem afhent var í einu eintaki í iðnn. Nd. á fundi sem byrjaði kl. 11 að morgni þess dags sem málið var tekið til umr. í d., fundi sem stóð til hádegis. Er kvartað var um þessi vinnubrögð gekk formaður iðnn. Nd., Ingólfur Jónsson, fram fyrir skjöldu, svo sem fyrr sagði, og staðhæfði að hér væri um að ræða trúnaðarmál. Síðar vík ég að því, hversu nákvæmlega satt þetta var hjá Ingólfi Jónssyni. En síðan gengu fram í Nd. forustumenn Framsfl. og Alþfl. og vitnuðu með Ingólfi Jónssyni í þessu máli, lýstu því hversu innvirðulega þeir hefðu gengið úr skugga um að starfsleyfi verksmiðjunnar væri í fullkomnu samræmi við umsögn Heilbrigðiseftirlitsins, áður en þeir undirrituðu álit meiri hl. iðnn., þar sem mælt er með frv. óbreyttu. Létu þeir með fylgja og þá auðvitað alveg sérstaklega formaður Alþfl., að þeir hefðu alls ekki mælt með samþykkt frv. ef Heilbrigð­iseftirlit ríkisins hefði ekki verið ásátt um veitingu starfsleyfisins.

Hér á eftir mun ég leiða að því gild rök, með hvaða hætti starfsleyfið var knúið fram í heil­brrn., að verulegu leyti gegn vilja Heilbrigðiseftirlits ríkisins, af því að Heilbrigðiseftirlit ríkisins fjallaði alls ekki um útgáfu starfsleyfisins í þeirri mynd sem það var út gefið, fékk ekki einu sinni að sjá það áður en það var gefið út, og enn fremur sýna fram á það, að starfsleyfið brýtur í mjög mörgum þýðingarmiklum atriðum gegn umsögn Heilbrigðiseftirlitsins og miklu margfalt meira en hv. þm. Steingrímur Her­mannsson vildi vera láta í framsöguræðu sinni áðan.

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits ríkisins voru að sjálfsögðu ekki kvaddir til viðtals í iðnn. Nd. er fjallað var um þetta mál þar. Ástæðan fyrir því að umsögn Heilbrigðiseftirlitsins fékkst ekki lögð fram í iðnn. Nd. var fyrst og fremst sú, að öllu var til kostað að koma í veg fyrir að iðnn.-mönnum Nd. yrði það ljóst, að hve miklu leyti starfsleyfi verksmiðjunnar var gefið út í trássi við Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Með þess­um hætti var frv. þrýst í gegnum Nd. án þess að það fengi að koma í ljós í hve veigamiklum atriðum starfsleyfið stríddi gegn umsögn Heil­brigðiseftirlitsins. Maður eftir mann gekk fram úr hópi formælenda járnblendiverksmiðjunnar og hafði það eftir forstöðumanni Heilbrigðiseftir­litsins, að hann væri ánægður með starfsleyfið. Ég mun ekki gera tilraun til þess að gefa þess­um hv. þm. einkunn fyrir lipra meðferð sannleikans eða hæfileika til þess að snúa við staðreyndum, en ég mun freista þess við þessa umr. að sýna fram á það, svo að ekki verði um villst, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins telur að starfsleyfið sé ekki þess háttar að séð verði fyrir fullkomnustu mengunarvörnum eða fullkomnustu heilsu­gæslu til handa starfsmönnum, að umsögn Heil­brigðiseftirlits ríkisins var sniðgengin, og ég mun færa ykkur sönnur fyrir því, að þetta var gert í þágu Járnblendifélagsins og að beinni kröfu hins erlenda samstarfsaðila. Elkem-Spigerverket. Þá er enn ógetið um þá sérstöku ástæðu, sem ég mun koma betur að síðar í ræðu minni, fyrir því að fjalla nú ítarlega um mengunar- og heilsu­gæsluhlið málsins, að hér gengur hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen þvert gegn yfirlýstum vilja mikils meiri hluta íbúanna á Hvalfjarðarsvæðinu, þar sem yfir 80% allra þeirra, sem til hefur náðst, hafa lýst formlega yfir andstöðu sinni við verksmiðjuna. Þetta gerir ráðh. þrátt fyrir margyfir­lýsta stefnu í þá veru sem fyrr er getið, þó að við látum gott heita að hann takmarki þessa yfirlýsingu nú við eyfirðinga eingöngu, að ekki sé rétt að reisa verksmiðjur af þessu tagi þar í sveit sem íbúarnir séu slíku andsnúnir. Og ef það skyldi svo koma í ljós í þokkabót á morgun, eftir umfjöllun hæstv. ríkisstj. um beiðni íbúa hreppanna sunnan Skarðsheiðar í lögsagnarumdæmi fyrirhugaðrar verksmiðju, að ríkisstj. synjaði þeim um það litla tóm sem til þess þarf að þeir geti látið í ljós á lýðræðislegan hátt óvefengjanlegan vilja sinn og afstöðu til verksmiðjunnar, þá verður ástæðan til þess að fjalla um þessi mál, sem varða sannarlega líf og heilsu þessa fólks og efnahagslega afkomu þess, hér í d. enn þá brýnni en ella.

En þá komum við að umfjöllun járnblendimálsins í iðnn. Ed., þeirri hlíðinni, sem að mengunarmálum lýtur.

Ég hef áður tekið það fram, að ég hef ekki undan því að kvarta að gerð hafi verið tilraun til þess, nema síður sé, að koma í veg fyrir að þessi mál væru ítarlega rædd í iðnn. Ed. Á fyrsta fundi n., hinn 26. þ. m., var umsögn Heilbrigðis­eftirlitsins að vísu enn ekki tiltæk fyrir nm. Umsögnin í þessu formi var aldrei lögð fyrir nm., heldur einungis sá hluti umsagnarinnar sem lýtur að sjálfu starfsleyfinu, tillögum Heilbrigðiseftir­litsins um starfsleyfið. Það var ekki fyrr en forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins hafði lýst yfir því skorinort á nefndarfundi, að hann teldi það til vansæmdar fyrir alþm. að fjalla um út­gáfu starfleyfisins og um heilbrigðishlið frv. án þess að hafa lesið þetta plagg, það var ekki fyrr en forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins hafði lýst yfir þeirri skoðun sinni að nm. fengu hana í hendur og þá mjög skerta. Fskj. umsagnarinnar, sem getur að finna í þessu hefti, komust ekki í hendur hv. nm. Þessi komust mér í hendur vegna þess að fulltrúi Alþb. í iðnn. Nd. hafði seint og um síðir, eftir að ráðh. hafði lýst yfir að hér væri ekki um leyndarmál að ræða, náð þessu hefti af hv. þm. Ingólfi Jónssyni, heftinu hans, sem hann vildi ekki afhenda af því að hætta gæti verið á því að hv. alþm. misnotuðu efni þess, slitu það úr samhengi. Með þeim hætti komst ég yfir þessa umsögn Heilbrigðiseftirlitsins ásamt fskj. Því var borið við í iðnn. Ed., þó að enn vilji ég bera lof á störf formannsins í n., þá var því borið við af hans hálfu að þessi fskj. væru málinu óviðkomandi, enda svo tæknilegs eðlis að það væri tæpast á valdi alþm. að skilja þau. Það má vel vera að hv. þm. Steingrímur Hermannsson, formaður iðnn., geti rökstutt þetta álit sitt á greind og þekkingu alþm., en fskj., sem undan er stungið við afgreiðslu málsins, greina m. a. frá sjúkdómum þeim sem starfs­mönnum fyrirhugaðrar verksmiðju er hætta búin af ef ekki verður farið að ráðum Heilbrigðis­eftirlitsins um öryggisráðstafanir út í ystu æsar. Þar getur einnig að líta lýsingar á þeim hættum sem lífríki landsins er búið af völdum verksmiðjunnar ef ekki verða uppfyllt skilyrði Heil­brigðiseftirlitsins um varnir gegn ytri mengun. Ég staðhæfi það eftir lestur þessarar umsagnar með fskj., að enginn alþm. geti lagt dóm á það við atkvgr. án þess að lesa umsögn Heilbrigðiseftirlitsins ítarlega með fskj., hvorir hafi rétt fyrir sér, ráðh., sem gefur út starfsleyfi til verksmiðjunnar, að verulegu leyti í trássi við Heilbrigðiseftirlit og Náttúruverndarráð, eða Heilbrigðiseftirlit ríkisins, sem telur að alls ekki séu gerðar sjálfsagðar og nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja heilsu starfsmanna við fyrirhugaða verksmiðju né heldur til þess að tryggja líf­ríki umhverfisins gegn tjóni af völdum verksmiðjunnar. Mér er kunnugt um það, að fáir alþm. í þessari hv. d. hafa fengið þá umsögn Heilbrigðiseftirlitsins í hendur sem getur að finna ásamt fskj. í þessari bók, e. t. v. enginn nema ég og svo hv. formaður iðnn., Steingrímur Hermannsson, sem ég ætla að hafi fengið annað tveggja eintaka sem komið var hingað í þetta virðulega hús. Ég efast ekki um að það muni koma í ljós við umr., nú við 2. umr. í þessari hv. d., að Steingrímur Hermannsson hafi lesið þessa bók ítarlega.

Ég vil aðeins víkja aftur að þeirri staðhæfingu, að bók þessi eða fskj. séu e. t. v. of tæknilegs eðlis til þess að hægt sé að ætlast til þess að óbreyttir alþm. geti lesið þau sér að gagni yfirleitt. Þess­um skelk var greinilega skotið í bringu hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, formanns þingflokks Framsfl., sem lýsti yfir því við umr. í Nd., að hann hefði ekki lagt út í það að kynna sér þessa hlið málsins þar sem hann hefði ástæðu til þess að ætla að hún væri svo tæknilegs eðlis að ekki þýddi fyrir sig að glugga neitt í það mál. Ég er alveg viss um það, og það af reynslu minni af þm. í Ed., að umsögnin er ekki tæknilegri en svo, að allir þm. Ed. muni verða nokkurs vísari af því að lesa þessa bók, þeir sem nenna því, þeir sem er ekki gersamlega sama um efni hennar, þeir sem ekki stendur gersamlega á sama um álít Heilbrigðiseftirlits ríkisins á þessu máli vegna þess að þeir eru staðráðnir í því að greiða atkv. með því, hvað sem það kostar.

Ég neita því ekki, að sum fskj. eru býsna torlesin, en ég lái öðrum þm. ekki að gera það sem ég gerði, að leita nokkuð til orðabóka og uppsláttarrita til þess að komast í gegnum þau, ef þeir kæra sig um að kynna sér þetta mál þannig að þeir hafi leyfi til þess að greiða atkv. um málið hér í deildinni.

Þá kom það í ljós við umfjöllun á fyrsta fundi iðnn., að Náttúruverndarráð fékk ekki í hendur til umfjöllunar starfsleyfi heilbrrh. fyrr en að morgni þess sama dags sem iðnn. Ed. kom sam­an, þ. e. a. s. morgni 26. apríl, sama daginn og formaður Náttúruverndarráðs, Eysteinn Jónsson. kom á fund iðnn. Ed. ásamt Árna Reynissyni framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs og Vilhjálmi Lúðvíkssyni efnaverkfræðingi, fulltrúa í Náttúruverndarráði. Þá kom einnig í ljós að Náttúruverndarráð hafði alls ekki verið kvatt til viðtals við iðnn. Nd. er fjallað var um málið, enn fremur hitt, að bréf, sem Náttúruverndarráð hafði ritað varðandi skilyrði sín fyrir starfsleyfi til Íslenska járnblendifélagsins, bréf sem Náttúruverndarráð hafði ritað iðnn. Nd., dags. 8. júlí 1975, 22. okt. 1976 og 26. nóv. 1976, fylgdu ekki með plöggum iðnn. Nd., sem send voru iðnn. Ed. varðandi málið, komu þar ekki fram fyrr en á síðasta fundi n. 30. apríl eða í fyrradag.

Til þess að fjalla um starfsleyfið, þ. e. a. s. hollustuhætti og mengunarvarnir verksmiðjunnar, komu á fund iðnn. þegar á fyrsta fundinn eftir­taldir menn: Hrafn V. Friðriksson læknir, for­stöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og Ey­jólfur Sæmundsson verkfræðingur stofnunarinnar, Páll Sigurðsson læknir, ráðuneytisstjóri heil­brrn., og Eysteinn Jónsson, formaður Náttúruverndarráðs, og þeir Árni Reynisson og Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur, svo sem fyrr var getið. Enn komu í sama skyni á fund n. á laugardaginn var, síðasta fund n., þessir sömu aðilar, að þeim Árna og Vilhjálmi undanskildum, og svo til viðbótar þeim, sem áður var getið, Ólafur Ólafsson landlæknir. Þessa sömu fundi sat svo sem aðra fundi n. Jón Steingrímsson forstjóri Járnblendifélagsins.

Strax í upphafi fyrsta fundar spurði ég Hrafn Friðriksson lækni, forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins, hvort rétt hefði verið eftir honum haft, að hann væri ánægður með starfsleyfið sem heilbrrh. hefði veitt málmblendiverksmiðjunni, og vitnaði orðrétt í ummæli Ingólfs Jónssonar, Benedikts Gröndals og fleiri þar að lútandi. Hann sagði að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefði ekki einu sinni fengið að lesa starfsleyfið í uppkasti, það sem út var gefið, hvað þá að Heilbrigðis­eftirlitið hefði tekið þátt í að semja það. Hann kvaðst hafa sagt aðspurður, að hann teldi starfs­leyfið ekki slæmt miðað við það hvernig að því var unnið, en því færi víðs fjarri að hann teldi að með starfsleyfinu væri framfylgt kröfum Heilbrigðiseftirlitsins um fullkomnustu mengunarvarnir. Síðan gerði hann grein fyrir því, með hvaða hætti var að því unnið að knýja fram þetta starfsleyfi.

Forstöðumaðurinn byrjaði með því að lesa upp fyrir nm. þá grein samnings Járnblendifélagsins við Elkem-Spigerverket sem skýrir þessi vinnubrögð. Þetta er 4. efnisgr. í 9. gr. samningsins á bls. 29, þskj. 187, fskj. með frv., en 9. gr. fjallar um umhverfis- og öryggismál. 4. efnisgr., sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins vitnaði í og las fyrir okkur til sannindamerkis um það, með hvaða hætti var unnið að umhverfismálunum í sambandi við starfsleyfið, er svo hljóðandi:

„Í samræmi við ákvæði þessarar gr.“ — þ. e. a. s. um umhverfis- og öryggismál — „í samræmi við ákvæði þessarar gr. hefur Járnblendifélagið sótt um starfsleyfi frá heilbr.- og trmn. Járnblendifélagið skal leitast við að afla þess leyfis með skilmálum, sem hluthafarnir geta fallist á, svo fljótt sem unnt er.“

Forstöðumaður Heilbrigðieftirlitsins sagði, að forustumenn Járnblendifélagsins hefðu svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja að knýja á um það, nota þrýsting til þess að útvega starfsleyfi, sem hluthafarnir gætu fallist á, svo fljótt sem unnt var. Víkjum að því síðar, hvað hann átti þar við, því að það kom síðar í ljós.

Stjórn Járnblendifélagsins sótti um starfsleyfið 7. sept. í haust sem leið. Með umsókninni fylgdi krafa um að starfsleyfið yrði afgreitt fyrir miðjan nóv. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins eru tveir, Hrafn V. Friðriksson læknir, forstöðumaður stofnunarinnar, svo sem áður getur, og Eyjólfur Sæmundsson efnaverkfræðingur. Þeir lögðu nótt við dag í undirbúning umsagnar sinnar um leyfið og samningu uppkasts að starfsleyfi og leituðu samstarfs við Náttúruverndarráð og aðra þá aðila, sem tilskildir eru í lögum og reglu­gerðum. Forstöðumaður Heilbrigðieftirlitsins lýsti markmiðum stofnunar sinnar við samningu þessarar umsagnar í stuttu máli á þá lund, að lagt hefði verið hlutlægt sérfræðilegt mat á það, eftir því sem kostur var, hvernig standa mætti að framkvæmd pólítískrar ákvörðunar um járnblendiverksmiðjuna með þeim hætti að gætt yrði fyllstu varúðar um heilbrigðishætti og umhverfis­vernd. Annað vakti ekki fyrir starfsmönnum stofnunarinnar. Farið var eftir ströngustu kröfum sem erlendis eru gerðar um þessi efni, þar sem við blasa afleiðingar af hirðuleysi á þessu sviði. Reynt var einnig að taka tillit til sérstakra íslenskra aðstæðna, svo sem til þess, að hér er nú í fyrsta sinn gefið út starfsleyfi til verk­smiðjurekstrar sem ekki er fyrir í landinu, þannig að ætla má að þetta starfsleyfi geti orðið for­dæmi um gerð annarra starfsleyfa til sambærilegs rekstrar hér á landi og því ákaflega mikið í húfi að á ekkert verði hætt í sambandi við út­gáfu þessa starfsleyfis.

Afreksturinn af þessu starfi Heilbrigðiseftirlitsins getur svo að líta í annarri miklu minni bók, þar sem heilbrrn. eða heilbrrh. veitir Járn­blendifélaginu leyfi til starfsemi á Íslandi. Um­sögnin, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins skilaði af sér, er dags. 10. jan. og ritið hefst á till. Heilbrigð­iseftirlitsins að starfsleyfi, eftir að hafa unnið að því frá því í sept. um haustið nótt sem nýtan dag að kanna málið og rökstyðja þetta leyfi. Að vísu var afskiptum Heilbrigðiseftirlits ríkisins af starfsleyfinu ekki þar með lokið. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins voru kvaddir til fundar upp í heilbrrn., m. a. með landlækni og fulltrú­um frá Elkem-Spigerverket og járnblendiverk­smiðjunni til þess að reyna að samræma viðhorf Heilbrigðiseftirlitsins og þeirra til ýmissa mikilvægra atriða í sambandi við starfsleyfið. En það var annars konar starfsleyfi heldur en það sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins lagði til að gefið yrði út, sem heilbrrh. veitti Járnblendifélaginu hinn 5. f. m., 5. apríl. Það starfsleyfi samdi lögfræðingur heilbrrn., og það er í ýmsum grundvallar­atriðum frábrugðið því starfsleyfi, eins og ég hef áður sagt, sem Heilbrigðiseftirlitið lagði til að veitt yrði. Starfsleyfið, sem gefið var út, úir og grúir af frávikum sem gerð eru í þágu Járnblendi­félagsins, eða svo að enn sé vitnað í 4. efnisgr. 9. gr. samningsins við Elkem, a. m. k. allmjög mengað af þeim skilmálum sem hluthafarnir geta fallist á.

Enda þótt Heilbrigðiseftirlitið fengi frumdrög heilbr.- og trmrn. að leyfinu til umfjöllunar í febr. og fulltrúar þess ættu svo fund, sem fyrr var getið, með fulltrúum heilbrrn. og stjórn Járnblendifélagsins og fulltrúum Elkem-Spigerverkets, og þótt þeim frumdrögum væri þokað í áttina til þess í ýmsum greinum sem Heilbrigðiseftirlitið lagði til, þá stendur hitt óhaggað, að leyfi það, sem gefið hefur verið út, er í ýmsum mikilvægum greinum fjarri því að vera jafn­strangt og till. Heilbrigðiseftirlitsins gera ráð fyrir og uppkast að hinu endanlega leyfi var alls ekki borið undir Heilbrigðiseftirlitið, hvað þá meir.

Grg., sem Hrafn V. Friðriksson yfirlæknir, forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins, lét iðnn. Ed í té, fjallar m. a. um mismuninn á till. Heilbrigðiseftirlitsins að starfsleyfinu og lýkur á þeim orð­um, að kröfur Heilbrigðiseftirlits ríkisins um fullkomnustu mengunarvarnir standi óhaggaðar. Þrátt fyrir mismuninn á starfsleyfinu, sem gefið var út, og till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins, þá standa, segir hann í niðurlagi þessarar grg. sinnar, kröfur Heilbrigðiseftirlits ríkisins um full­komnustu mengunarvarnir óhaggaðar. Í 4. mgr. þeirrar grg. segir að á þeim vettvangi, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson las upp orðrétt áðan, verði ekki gerður samanburður á ein­stökum till. Heilbrigðiseftirlitsins og ákvæðum í starfsleyfinu, það sé látið öðrum eftir að annast þennan samanburð. Þessir aðrir, sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins lætur þetta eftir, eru vitaskuld fyrst og fremst hv. alþm. sjálfir.

Ég hef fyrr í framsöguræðu minni látið í ljós þann ugg minn, að sárafáir þm. í þessari hv. d. hafi gert þennan samanburð. Raunar er þeim það tæpast láandi, eins og að hefur verið unnið í þágu hluthafa. Þeir hafa í líkingu við hv. þm. Þórarin Þórarinsson, formann þingflokks Fram­sfl., orðið að láta sér nægja að trúa því sem þeim var sagt, að þá brysti tæknilega þekkingu til þess að skilja umsögn Heilbrigðiseftirlits rík­isins um starfsleyfið, láta við það sitja að trúa á vanþekkingu sína, skáka í skjóli hennar og samþykkja það sem þeim var sagt að samþykkja, án þess að hafa hugmynd um hvað það var, í þágu hluthafanna, eins og segir á bls. 29 í fskj. með frv.

Ég hef burðast við að gera þennan samanburð, eins og ég sagði áður, með nokkrum erfiðleikum. Svo kann að fara að ég verði til þess knúinn að lesa fyrir hv. alþm. umsögn heilbrigðiseftirlitsins og bera saman við starfsleyfið, ef í ljós kemur að hv. alþm. í d. hafi ekki, eins og mig uggir, gert þetta sjálfir. Þetta verður talsverð lesning því að umsögn Heilbrigðiseftirlitsins er líklega nærri 180 bls. Ég er sem sagt, eins og ég hef áður sagt, ósammála því að ástæða sé til þess að ætla að alþm. bresti þekkinguna eða greindina til að skilja efni ritsins, nema þá með sárafáum undantekningum, og ég efast um að nokkur undantekning finnist í þessari hv. d. En í framsöguræðunni ætla ég að láta nægja um sinn, þangað til annað kemur í ljós, að vísa til nokkurra atriða sem á milli ber í starfsleyfinu og till. Heilbrigðis­eftirlitsins, og skulu þessi talin helst:

1. Gr. 2.5 í starfsleyfinu, sem varðar bilanir á hreinsibúnaði, ætlar járnblendiverksmiðjunni miklu rýmri tíma til rekstrar án hreinsunar held­ur en ráð var fyrir gert í till. Heilbrigðiseftir­litsins. Samkv. starfsleyfinu getur verksmiðjan haldið áfram starfsemi án hreinsibúnaðar, ef bilun verður, að því er virðist um ótakmarkaðan eða lítt takmarkaðan tíma, t. d. í skjóli vingjarnlegs ráðh. sem e. t. v. yrði tilneyddur að taka tillit til peningalegra hagsmuna fyrirtækisins, hvar svo í flokki sem hann kynni að standa. Með frá­hvarfinu frá till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins og með hinum rýmri ákvæðum er greinilega leitast við að uppfylla þá skilmála hluthafanna sem þeir geta fallist á, eins og komist er að orði í samningnum við Elkem sem er undanfari frv.

2. Gr. 2.7 í starfsleyfinu var breytt í það horf, að úrskurðarvald Heilbrigðiseftirlits og Náttúruverndarráðs varðandi meðferð úrgangsefna er af þessum stofnunum tekið í þágu verksmiðjunnar. Frávikið frá till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins felst í því, að úrskurðarvald varðandi meðferð úr­gangsefna er tekið af Heilbrigðiseftirliti og Náttúruverndarráði. Þar eru felld niður ákvæði Heil­brigðiseftirlitsins um efnagreiningu á hráefnum og úrgangi.

3. Gr. 2.17 er á þá lund, að felld eru niður ákvæði Heilbrigðiseftirlitsins um skyldur Járnblendifélagsins til þess að láta framkvæma um­hverfisrannsóknir ef líkur benda til skaðlegra áhrifa frá rekstrinum.

4. Felld eru niður ákvæði Heilbrigðiseftirlitsins um gerð hússins á þá lund t. d., að loft skuli vera heil í verksmiðjunni til þess að hægt sé að einangra skaðlega mengun og tryggja loft­hreinsun.

5. Í gr. 2.10 í starfsleyfinu eru heimiluð mun hærri mörk brennisteins í kolum og koxi, sem brennt verður í verksmiðjunni, en þau sem Heilbrigðiseftirlitið leggur til. Í starfsleyfisfrumdrögum Heilbrigðiseftirlitsins er ráðgert að há­mark brennisteins í eldsneytinu megi vera 1.5%, en í starfsleyfinu er kveðið á um að brennisteins­innihaldið megi vera 2%, og verður nánar vikið að því atriði síðar.

6. Í gr. 2.3 er vikið frá till. um að viðhald á hreinsibúnaði og aðgerðir í bilanatilfellum séu háð samþykki Heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrigðiseftirlitið verður sem sé svipt valdi til þess að hafa úrslitaáhrif á þessu sviði eða því verður öllu fremur synjað um vald sem forstöðumenn Heil­brigðiseftirlitsins telja að stofnunin verði að hafa til hess að geta haft úrslitaáhrif á því sviði sem varðar viðhald hreinsibúnaðar og aðgerðir í bilanatilfellum.

7. Í gr. 2.9 er vikið frá till. Heilbrigðiseftirlitsins um flutning, geymslu og meðferð hráefnis og kveðið á um miklu óvarlegri meðferð málsins heldur en mælt er fyrir um í till. Heilbrigðiseftirlitsins.

8. Í gr. 1.2 og 2.16 er vikið frá till. Heilbrigðiseftirlitsins um nauðsynlegar mengunarrannsóknir.

9. Í gr. 2.2 er gengið fram hjá till. Heilbrigðiseftirlitsins um afkastagetu hreinsibúnaðar.

10. Í gr. 2.4 er hafnað aðild Heilbrigðiseftirlitsins að mælingum á hæfni hreinsibúnaðar.

11. Í gr. 1.1 er veitt starfsleyfi fyrir tvo ofna samtímis í stað eins ofns, svo sem lagt er til í till. Heilbrigðiseftirlitsins, án þeirra skilyrða sem Heilbrigðiseftirlitið setti.

12. Leyft er miklu meira magn, allt að fjórfalt meira magn arsenvetnis en í till. Heilbrigðis­eftirlits ríkisins.

Hér er ekki allt tíundað, en þó nóg til þess að ég ætla nú að meðmælendur þessa frv., mál­svarar Járnblendifélagsins í þessari d., þurfi á öllum sínum brjóstheilindum að halda til þess að ítreka það, sem skoðanabræður þeirra í Nd. sögðu um það, að starfsleyfi verksmiðjunnar, sem heilbrrh. hefur gefið út, væri í samræmi við vilja Heilbrigðiseftirlits ríkisins.

Það skal hreint ekki dregið í efa, að starfsleyfi til verksmiðjunnar sé gefið út með löglegum hætti að orðanna hljóðan. Það er heilbrrn. eða öllu heldur heilbrrh. sem gefur leyfið út. En til þess fengum við ráðuneytisstjóra heilbrrn., Pál Sigurðsson lækni, á okkar fund í iðnn. Ed., að hann skýrði okkur frá því, hvers vegna rn. hefði hafnað till. Heilbrigðiseftirlitsins, en í þess stað falið lögfræðingi rn. að semja starfsleyfi handa járnblendiverksmiðjunni. Ég innti hann eftir því, hvaða rannsóknir rn. hefði látið gera, sem það hefði byggt á þær ákvarðanir sínar að óhætt væri að víkja frá till. Heilbrigðiseftirlitsins, eða hverjir þeir sérfræðingar væru sem rn. hefði tekið fram yfir sérfræðinga Heilbrigðiseftirlits ríkisins í þessum atriðum. Ég innti innvirðulega eftir því, hvað ylli því að heilbrrn. veitti leyfi þar sem tekin væri miklu meiri áhætta varðandi mengun frá verksmiðjunni og óhollustu heldur en sú varúð sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins vildi að viðhöfð yrði í till. sínum um starfsleyfi.

Ráðuneytisstjórinn tjáði okkur að rn. hans hefði að sjálfsögðu ekki aðstöðu til þess að fram­kvæma neins konar rannsóknir. Í ýmsum mikil­vægum atriðum hefði verið stuðst við álit landlækna á Norðurlöndum. Hann vakti athygli á því, að tekin hefði verið pólitísk ákvörðun af þar til bærum aðilum um að verksmiðja þessi ætti að rísa, hlutverk rn. hefði verið að kveða á um skilyrði varðandi hollustuhætti og umhverfisvernd sem fyrirtækið gæti risið undir. Hann vakti athygli á þeirri staðreynd, sem okkur er öllum ljós, að tekin var pólitísk ákvörðun um að þessi verksmiðja skyldi rísa. Hlutverk heilbrrn. var síðan að kveða á um það í starfs­leyfi eftir bestu getu og bestu yfirsýn, hvernig framfylgt skyldi skilyrðum varðandi hollustu og umhverfisvernd sem fyrirtækið gæti risið undir, sem sagt sem samrýmdist þeirri pólitísku ákvörðun að þetta fyrirtæki yrði stofnað og rekið.

Svar ráðuneytisstjóra var eðlilegt og ég held alveg satt, þegar hann var inntur eftir því, hví rn. heimilaði fjórfalt meiri mengun kísilryks og arsenvetnis en Heilbrigðiseftirlitið lagði til og þá jafnframt miklu meiri mengun þessara efna en leyfileg væri talin í Bandaríkjunum og í Sví­þjóð. Þá gat hann þess, að ekki væri búið að lögbinda þessa hörðu staðla í Svíþjóð sem ég ræddi um, og bar þar einfaldlega fyrir sig álit fulltrúa Elkems sem bentu á það sem tíðkaðist í Noregi.

Þegar ráðuneytisstjóri var inntur eftir því, hví heilbrrn. heimilaði fjórðungi meiri mengun brennisteinssýrlings en Heilbrigðiseftirlitið lagði til, þá svaraði hann því einfaldlega til, að brennisteinsmengun væri svo lítil hér á landi að ekki munaði um þetta svo að hættulegt gæti talist. Frekari spurningar leiddu þó í ljós, að litla brennisteinssýrumengunin hér nemur 8 þús. tonnum á ári frá svartolíubrennslu og frá álverinu. Brennisteinsmengunin fer þá upp í 10 þús. tonn árlega við tilkomu járnblendiverksmiðjunnar, en hefði þó orðið 500 tonnum minni, ef fylgt hefði verið till. Heilbrigðiseftirlitsins, heldur en hún verður nú með þeim háu mörkum sem leyfð eru í starfsleyfi því sem heilbrrh. hefur gefið út.

Frá því hefur verið skýrt og var m. a. í iðnn., sem ég ætla að satt sé, að fyrir hefði komið í hafátt, þegar hingað standa loftstraumar af meginlandi Evrópu, stóriðjulöndunum þar, að úrfelli hefur verið svo mengað af brennisteinssýrlingi hér að jafna hefur mátt við væga brennisteinssýru. Þess háttar úrfelli hefur komið hér úr lofti þegar andað hefur á suðaustan. Það er rétt, að brennisteinsmengun frá stóriðjulöndunum í Vestur-Evrópu er geysileg. En það skal tekið fram, að það var og er vegna brennisteins­mengunar sem allur fiskur hefur drepist og er löngu dauður í ám og vötnum í Suður-Noregi. Feigðarmörkin eru óþekkt. Menn telja sig fara nokkuð nærri um það, hvernig þau megi vera í andrúmslofti, þau eru þekkt, feigðarmörkin, í vatninu sjálfu, en í andrúmsloftinu varðandi út­gufunina eru þessi mörk enn þá óþekkt.

Ég vil aðeins gera hlé á máli mínu, herra for­seti, og inna eftir því, hvort hæstv. iðnrh. hafi misst áhuga á frv. því til l. um járnblendi­verksmiðju í Hvalfirði sem hér er til umr. (For­seti: Ég vil vekja athygli á því, að iðnrh. hefur setið hér sem fastast í sæti sínu meðan hv. þm hefur verið að tala, en hefur brugðið sér út núna, og skal ég gera ráðstafanir til þess að hann komi.) Ég vildi gjarnan gera örlítið hlé á máli mínu á meðan iðnrh. er sóttur.

Þá förum við að koma að bókinni. — Já, þá hefur hæstv. iðnrh. heiðrað okkur aftur með því að koma hér í kallfæri við okkur. Að vísu hefði nú e. t. v. verið eðlilegt, af því að ég ónáðaði hann hingað upp til okkar aftur, að ég færi til baka í ræðu minni og læsi honum þann kafla sem hann hefur nú farið á mis við. En þó ætla ég að nægja muni að hann fái þetta í endursögn flokksmanna sinna eða jafnvel að ég leyfi mér að álykta sem svo, að hann muni ekki vegna þess kafla út af fyrir sig fara á mis við æskileg skoðanaskipti, þótt þetta biði þar til hann fær tækifæri til þess að lesa ræðu mína í þing­tíðindum. — En þangað var ég kominn í ræðu minni, er ég greindi frá þeim hugsanlega mögu­leika að þau 500 tonn af brennisteinssýrlingi sem skakka mun, vegna þess að vikið var frá till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins um leyfilegt brennisteinsmagn í kolum og koxi verksmiðjunnar, — að þessi 500 tonn sem skakka mun, þessi 500 tonn að auki, þ. e. a. s. 2000 tonn af brennisteinssýrlingi út í andrúmsloftið frá verksmiðjunni í stað 1500 tonna, gætu e. t. v. leitt til þess, að brennisteinsmengun í lofti færi yfir þau mörk sem líf í ám og vötnum, þ. e. a. s. fiskar í ám og vötnum á þessu svæði hið næsta verksmiðjunni þola, og væri það atriði eitt út af fyrir sig ærið umhugsunarefni fyrir laxabændur í Hvalfirði og Borgarfirði og allt ofan til litlu snáðanna sem stunda smásilungaveiði á þessu svæði.

Í öllum greinum, þeim sem frá var vikið í till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins á þá lund að milda kröfurnar um varúðarráðstafanir í mengunar- og heilsugæslumálum, mun hafa verið farið að kröfu Elkem-Spigerverkets og eins í því efni hvernig Náttúruverndarráð hefur verið sniðgengið gersamlega í undirbúningi og útgáfu starfsleyfisins.

Með nál. minni hl. hef ég lagt fram ljósrit af bréfi sem Eysteinn Jónsson lagði fyrir iðnn. á síðasta fundi n., bréf frá Náttúruverndarráði. Þetta bréf tilgreindi ég áðan sem fskj. með nál. minni hl. Þegar innt var eftir því á nefndar­fundi, hvernig á því stæði að Náttúruverndar­ráð hefði verið sniðgengið svo mjög sem raun ber vitni í þessu máli og hví því væri ekki ætlaður neinn hlutur í eftirliti með umhverfismálum verksmiðjunnar beinlínis, varð Jón Steingríms­son forstjóri málmblendiverksmiðjunnar fyrir svörum og sagði orðrétt: „Norðmenn fórnuðu höndum, þegar minnst var á Náttúruverndarráð“.

Ég held að Jón Steingrímsson hafi svarað okkur í fullkominni einlægni öllu því sem við spurðum hann að og eins þegar hann sagði okkur frá afskiptum málmblendifélagsins af ákvæðum starfsleyfisins, þeim afskiptum Járnblendifélagsins sem um getur í 4. efnisgr. 9. gr. samningsins við Elkem, sem er fylgirit frv., þar sem fjallað er um það, með hvaða hætti Járnblendifélagið skuli afla þessa leyfis, með skilmálum sem hlut­hafarnir geti fallist á. Jón Steingrímsson sagði okkur einfaldlega: Áhugamál okkar var aðeins það, að starfsleyfið yrði þannig úr garði gert að við gætum haldið ákvæði þess og neyddumst ekki til að brjóta þau eða sækja um undanþágur.

Þetta hygg ég að sé sönn lýsing hjá forstjóra Járnblendifélagsins og alveg ærleg. Þetta var það sem fyrir stjórn Járnblendifélagsins vakti, að starfsleyfið yrði þannig úr garði gert að fyrir­tækið gæti haldið ákvæði þess og neyddist ekki til að brjóta þau, og þegar hann talaði um það að félagið neyddist ekki til að brjóta starfs­leyfið, þá átti hann ekki við viljaverk, heldur að þannig væri um starfsleyfið búið að það samræmdist ekki rekstri verksmiðjunnar, þannig að þeim, sem gert væri að reka þessa verksmiðju, yrði ekki veitt svigrúm til þess að standa við skuldbindingar. Það, sem fyrir stjórn Járnblendi­félagsins vakir, en hún fer með umboð hinna norsku hluthafa, er að fyrirtækinu verði ekki settir strangari kostir varðandi hollustuhætti og mengunarvarnir en fyrirtækið hefur efni á að uppfylla. Þetta er skiljanlegt. En það vekur ýmsar spurningar og ein þeirra er þessi: Hversu harða kosti getur illa statt fyrirtæki fjárhags­lega, að maður nú ekki segi „fallit“ fyrirtæki, uppfyllt á þessu sviði? Og er líklegt að ráðh. verði hinn strangi eftirlitsmaður um slíkt, þar sem ríkið verður meirihlutaeignaraðili og þó raunar, eins og nú er um hnútana búið, sá aðili sem ætlað er að bera allt það tap, um það er lýkur sem til fellur hjá fyrirtækinu? Er líklegt að ráðh. verði hinn strangi eftirlitsaðili, þar sem svo er um hnútana búið að fjárhagur verksmiðju, sem er að 55% í ríkiseign, er að veði? Og enn ítreka ég þetta: Er líklegt að ráðh. verði hinn strangi eftirlitsmaður, gersamlega án tillits til þess hvar í stjórnmálaflokki sá ráðh. kynni að standa hverju sinni?

Ég vík enn að 4. efnisgr. í 9. gr. samningsins sem ég vona beinlínis að hv. þm. fari að verða leiðir á. Þar segir orðrétt, svo sem fyrr var greint: „Járnblendifélagið skal leitast við að afla þess leyfis“ — þ. e. a. s. starfs­leyfisins frá heilbr.- og trmrn. — „með skilmálum, sem hluthafarnir geta fallist á.“ Enn vík ég að þessari grein. Hrafn Friðriksson forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins sagði okkur frá því í iðnn. þessarar hv. d., með hvaða hætti forstjóri Járnblendifélagsins leitaðist við að ná þeim skilmálum af hálfu Heilbrigðiseftir­litsins sem hluthafarnir gátu fallist á þegar stofnunin byrjaði að fjalla um starfsleyfið eða undirbúning þess á s. l. hausti. Forstjórinn sagði okkur í viðurvist forstjóra Járnblendifélagsins, að hann, þ. e. a. s. forstjóri Járnblendifélagsins, hefði þá gerst alltíður gestur í skrifstofum stofnunarinnar og látið leyfisöflunina mjög svo til sín taka uns þess var óskað af hálfu Heilbrigðis­eftirlitsins, að hann léti af heimsóknum sínum þangað á meðan um málið væri fjallað. Þá hætti hann gersamlega að koma, sagði forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins. Hann má eiga það. Um hitt læt ég ósagt, hvernig hann beitti áhrifum sínum í Heilbrigðiseftirlitinu og hjá landlækni. Nú skal það tekið fram, að forstöðumaður Heilbrigðis­eftirlitsins var ekki með þessu að gefa í skyn að Jón Steingrímsson forstjóri Járnblendifélagsins væri ógeðþekkur maður, enda hef ég stað­festan grun um að hann sé það alls ekki, heldur aðeins að segja okkur frá því með hvaða hætti stofnun hans, Heilbrigðiseftirlit ríkisins, var undir þrýstingi frá stjórn Járnblendifélagsins og þá jafnframt vitaskuld undir þeim pólitíska þrýstingi sem aðstandendur og ábyrgðaraðilar Járnblendifélagsins hlutu að veita um leið.

Ef við lítum svo aðeins á gr. 2.7 í starfsleyfinu og veitum því athygli, að þar hefur nafn Náttúruverndarráðs verið fellt niður, þar sem kveðið er á um aðila er samþykkja skuli meðferð á föstum úrgangsefnum frá verksmiðjunni, en nafn heil­brigðisnefndar Skilmannahrepps sett í staðinn fyrir nafn Náttúruverndarráðs, þá vaknar þessi spurning: Skyldu norðmenn hafa fórnað hönd­um eitthvað lægra, þegar þeir heyrðu nefnt nafn heilbrigðisnefndar Skilmannahrepps, en þegar þeir heyrðu nefnt nafn Náttúruverndarráðs? Eða skyldu þeir kannske, norðmenn, alls ekki hafa fórnað höndum neitt þegar þeir heyrðu nefnt nafn heilbrigðisnefndar Skilmannahrepps, í þeirri trú að hún yrði eitthvað auðveldari viðfangs varðandi skilmála sem hluthafarnir gætu sætt sig við varðandi frágang á föstum úrgangi frá verksmiðjunni.

Ég hef aðeins drepið á helstu atriðin, sem ber á milli starfsleyfisins, sem heilbrrh. lét lögfræð­ing sinn semja, að sjálfsögðu í samráði við ráðuneytisstjóra, og þess starfsleyfis, sem Heilbrigð­iseftirlit ríkisins lagði til að gefið yrði út. Munurinn er þó miklu meiri, því hann snertir grund­vallaratriði málsins sem við skulum íhuga nokkuð, en þó aðeins gefa okkur tóm til þess að íhuga eitt þýðingarmikið atriði sem hér hefur verið nefnt þegar fjallað hefur verið um starfs­leyfið sem heilbrrh. hefur gefið út til járnblendiverksmiðjunnar.

Það er deginum ljósara að þetta starfsleyfi brýtur í ýmsum grundvallaratriðum í bága við umsögn Heilbrigðiseftirlits ríkisins, og nú inna þeir hv. þm., sem báru forstöðumann Heilbrigðis­eftirlitsins fyrir því í Nd. að hann væri ánægður með þetta leyfi, nú inna þeir mig eftir því, hvort forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins hafi lýst ljósum orðum, skriflega eða undir votta yfir óánægju sinni með útgáfu þessa starfsleyfis. Það hef ég ekki heyrt hann gera, og ég hef ekki séð frá honum plögg upp á það, einfaldlega vegna þess að svo er um hnútana búið að ef hann gengi á þann hátt í berhögg við leyfi sem ráðu­neytisstjóri hefur gefið út fyrir ráðh., þá mundi það samsvara því, eins og í pottinn er búið, að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins segði: Annar hvor okkar verður að víkja úr starfi eða embætti, ég eða ráðuneytisstjórinn. — Það er ekki hlutverk forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits ríkisins að segja til um það, hvort ráðuneytis­stjóri, kollegi hans í læknastétt, hafi gert rétt eða rangt eða ráðh. hafi gert rétt eða rangt. Hlutverk forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits ríkis­ins er allt annað. Og ég er ákaflega feginn því, að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins skuli ekki fara út fyrir embættissvið sitt að þessu leyti, vegna þess að ég tel mjög mikils um vert að bæði hann, Hrafn Friðriksson yfirlæknir, for­stöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins, og Páll Sig­urðsson læknir, ráðuneytisstjóri, haldi áfram að gegna þeim embættum sem þeir nú gegna. Hvorugur þeirra er í neinni sök í þessu máli. Hvor um sig er að gegna embættisskyldu, og ég held, að báðir geri það mjög vel. Sökin liggur annars staðar. Sökin liggur hjá þeirri stjórnmálaforustu sem tekið hefur ákvörðun um að þessi verksmiðja, þessi járnblendiverksmiðja, skuli rísa á Grundartanga hvað sem hver segir og hvað sem það kostar.

Þá er hitt enn þá ótalið, sem við alþb.-menn héldum fram er þetta mál var til umfjöllunar hér á þingi fyrir tveimur árum og enn stendur óhaggað, að alls ekki er hægt að rekja járnblendi­verksmiðju við Hvalfjörð þótt allrar varúðar sé gætt, allri tækni beitt, það er ekki hægt án þess að stofna lífríki lands og sjávar í voða, án þess að stofna heilsu starfsmanna þess fyrirtækis í nokkra hættu og án þess að valda stórkostlegum spjöllum á byggðasamfélaginu á öllu þessu svæði.

Við umfjöllun málsins hér á þingi fyrr og aftur nú hefur verið minnst á fund sem hæstv. iðnrh. hélt á sínum tíma að Leirá í Leirársveit til kynningar á því ágæta kompaníi sem þá skyldi stofnað og raunar var stofnað í félags­skap við Union Carbide. Önnur tilraun hygg ég að ekki hafi verið gerð til þess að kynna málm­blendiverksmiðjuna fyrir íbúum sveitanna þarna í lögsagnarumdæmi Járnblendifélagsins. Það væri alger tímasóun og óafsakanlegt að fara að rifja hér upp enn einu sinni söguna um Leirárfundinn, enda skiptir hún sem slík ekki ákaflega miklu máli þegar við ræðum frv. það sem hér er til umfjöllunar í dag, enda hefur mikið vatn ómengað enn þá runnið til sjávar um Hvalfjörð, og síðan hafa líka birst skýrslur Heilbrigðiseftir­lits ríkisins um mengun frá álverinu í Straumsvík, fyrsta erlenda stóriðjuverinu hér á landi, sem þeir hinir sömu aðilar, sem nú fullyrða að ekki stafi hætta af fyrirhugaðri járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, fullyrtu að alls engin mengunarhætta stafaði frá. Það eru sömu aðilarnir sem fullyrtu að ekki stafaði hætta af álverinu sem nú ætlast til þess að menn trúi þegar þeir segja að engin mengunar- eða heilsufarshætta stafi af járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Og það má svo rétt aðeins fljóta með til upprifjunar, að viðbrögð forustumanna Alusuisse á landi hér við aðfinnslum Heilbrigðiseftirlitsins vegna mengunarinnar í Straumsvík voru þau að gera hróp að starfsmönnum Heilbrigðiseftirlitsins og kalla þá vinstrisinnaða öfgamenn sem væru á móti stóriðju. Þau ummæli lét forstjóri Alusuisse-fyrirtækisins hér á landi útvarpið flytja og sjónvarpið flytja af munni sér fyrir landslýð fyrir skemmstu. En hvað um það, það var sjálfur heilbrrh., Matthías Bjarnason, sem flutti eigi að síður skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins um álmengunina hér á Alþ. Það var heilbrrh. sjálfur, sá maður sem gaf út fyrrnefnt starfsleyfi fyrir járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, það var hann sjálfur sem flutti hér inn á Alþ. skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins um mengunina frá álverinu í Straumsvík. Og nú er best að halda áfram og gera þá játningu, að það hvarflar ekki að mér að heilbrrh. Matthías Bjarnason vilji menga land sitt eða valda starfsmönnum í fyrirtæki hættu á heilsutjóni. Það hvarflar ekki heldur að mér að hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen vilji slíkt. Það hefur aldrei hvarflað að mér. Það er allt annað sem fyrir honum vakir. En ég hygg að þeir séu báðir sekir um sinnuleysi á þessu sviði, vítavert sinnuleysi. Og enn hefur mér ekki gefist tími til þess að láta lögfræðinga kanna það, hvort svo kynni ekki að fara að ráðh. sá, sem hefur gefið út þetta starfsleyfi í trássi við vilja Heilbrigðiseftirlits ríkisins í mörgum alvarlegum greinum, hvort sá ráðh. kynni ekki að verða skaðabótaskyldur til þeirra manna sem einhvers kynnu í að missa, annaðhvort í eignum eða heilsu, vegna útgáfu þessa starfsleyfis ef illa skyldi fara með þessa verksmiðju.

Síðan þetta gerðist hefur hæstv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen verið til þess knúinn hér í d. með upprifjun á ummælum í febr. í vetur — ekki að lýsa yfir því, heldur gefa það mjög sterklega í skyn, að hann ætlaði ekki borgfirðingum, slíkir sem þeir eru, búandkörlum í hreppunum fjórum sunnan Skarðsheiðar, þann rétt sem hann hefur tíundað eyfirðingum til þess að ráða því sjálfir hvort stóriðjuver rísi í héraði þeirra eða ekki. Ég hef ekki hugmynd um það og vil engu um það spá, hvernig borgfirðingar muni una þessari yfirlýsingu ráðh., hvernig þeir muni una þeirri flokkun sem hér hefur átt sér stað á þegnlegu gildi þeirra með þessari hálf­gildings yfirlýsingu ráðh.

En minna vil ég ráðh. á þau tilmæli mín er málið kom hér til 1. umr., að hann léti það berast, sem eðlilegt er, til forstöðumanna sam­starfsaðilans norska, Elkem-Spigerverkets, láta það berast til þeirra, sem Lúðvík Jósepsson, formaður þingflokks Alþb., lýsti yfir við umr. í Nd., að komist Alþb. til slíkra áhrifa sem til þess þarf, þá verður þessum samningi við Elkem-Spigerverket um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði rift. Samsvarandi yfirlýsing hef­ur áður verið birt af hálfu Alþb. og var þó þá við rammari reip að draga, þar sem er samningurinn við breta og vestur-þjóðverja 1961. Þá var því lýst yfir af hálfu Alþb., að kæmist flokkurinn til þeirra áhrifa, þá yrði þeim samningi rift, og við það var staðið. Ég held, að það væri aðeins heiðarlegt að þessum skilaboðum yrði komið til forustumanna Elkem-Spigerverkets og þeim þá líka greint frá því, sem augljóslega er satt, að fyrirtæki þetta virðist vera á Grundar­tanga í algerri óþökk heimamanna. Hver veit nema þeir hjá Elkem-Spigerverket hafi heyrt sögu af því, hvernig þingeyingar hafa fjarlægt mannvirki sem þeir telja löglaus og staðið hafa í óþökk í þeirra sveitum, og ímyndi sér þá e. t. v. að álíka móður sé í borgfirðingum?