02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4146 í B-deild Alþingistíðinda. (3177)

234. mál, Iðnlánasjóður

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. iðnrh. greindi frá, fluttu tveir þm. Alþfl. brtt. í Ed. á þá lund að stofnuð skyldi sérstök deild í Iðnlánasjóði til að hafa á hendi það sem kalla mætti hollustulán: til framkvæmda er auka hollustu og öryggi og bæta starfsumhverfi á vinnustöðum. Við teljum að það hefði verið hentugast og sterkast fyrir sjóðinn ef þetta verkefni hefði verið fengið sérstakri deild, en ekki blandað saman við önnur lán. Það getur staðið þannig á að ýmis iðnfyrirtæki hafi tæmt lánamöguleika sína í sjóðnum til almennra fram­kvæmda, og kynni þá að fara svo, að forráða­menn sjóðsins treystu sér ekki til að lána til þessa verkefnis sem er mjög sérstætt, því að hollustulán eru í raun og veru til þess að bregðast við vaxandi kröfum um bætta starfsaðstöðu og hafa e. t. v. ekki þegar í stað nema óbein áhrif á afköst iðnfyrirtækisins. Þá erum við þeirrar skoðunar, að það mundi mun sterkara að afla fjár í sérstaka deild af því tagi heldur en að hafa þetta allt saman blandað saman. Ég taldi rétt að þetta sjónarmið kæmi hér fram. Engu að síður vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ráðh. skyldi taka þessari hugmynd vel. Ég tel að það sé þýðingarmikið skref, sem stigið er með því að setja þetta verkefni inn í lögin um sjóðinn, og ég vænti þess, að það verði hugsað fyrir því að þetta verði meira en bókstafurinn einn.

Við alþfl.-menn höfum flutt mörg mál sem snerta hollustu og öryggi verkafólks og starfsumhverfi, og með flutningi þessarar till. vildum við sýna að við höfum skilning á að umbætur á þessu sviði verða ekki án þess að það kosti fyrirtækin verulegt fé, og við teljum eðlilegt að reynt sé að koma til móts við þessa þörf og útvega það fé.

Í sambandi við þá spurningu sem alltaf vaknar þegar menn leggja til að sjóðir láni meira eða ný deild sé stofnuð: hvar á að afla peninganna? höfum við bent á að Iðnlánasjóður hafi staðið mjög höllum fæti við almenna lánsútvegun. Það er glöggt dæmi að líta á ráðstöfun Framkvæmdasjóðs, sem útvegar lánasjóðum atvinnuveganna fé, á s. l. ári, þegar sjávarútvegurinn fékk hátt á þriðja milljarð, stofnlánasjóðir landbúnaðarins 1.1 milljarð, en Iðnlánasjóður 250 millj. kr. Á þessu ári hefur þessi skipting batnað töluvert Iðnlánasjóðnum í hag, en það á enn þá langt í land að hann njóti jafnréttis við sjóði annarra atvinnuvega. Ef Framkvæmdasjóður breytir þessum hlutföllum, jafnvel þó að það kosti eitt­hvert rask á heildarlánastarfsemi hans, sem ég tel óhjákvæmilegt að hann geri fyrr eða síðar, þá mundu við það koma viðbótartekjur í Iðn­lánasjóð sem gætu meira en staðið undir þessu verkefni. Ég vil því leggja áherslu á þýðingu þessa ákvæðis og láta í ljós ánægju með að það skuli hafa verið tekið upp í frv.