02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4149 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

21. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðu­legi forseti. Ég vil nú fyrst leyfa mér að þakka hv. menntmn. fyrir fljóta afgreiðslu á málum menntmrn. sem hún hefur fengið í hendur á síð­ustu stundu. Ég harma aðeins að þessi hv. d. og hv. menntmn. hennar skyldi ekki einnig fá frv. til l. um Þjóðleikhús. Það var vissulega ætlun mín að einnig það frv. næði hér fram að ganga í þeirri mynd sem Alþ. kysi að hafa það. En það er nú önnur saga. En ég sem sagt vil, fyrst ég kvaddi mér hljóðs út af brtt., nota tæki­færið og þakka n. fyrir skjóta afgreiðslu á þess­um málum.

Hitt er auðvitað eðlilegt, að það komi upp ýmis sjónarmið og þ. á m. þá um þetta atriði sem brtt. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur og tveggja annarra hv. dm. og nm. fjallar um. Ég er hins vegar ekki sáttur við þessa brtt. Nú skal ég taka það fram, að það er ekki hægt annað en viðurkenna að skýringar eru í knappasta lagi um þessa grein, því að eins og hv. síðasti ræðumaður segir, þá segir í skýringum: „Þarfnast ekki skýringar.“ Hins vegar eru í því fskj., sem prentað er með frv., nál. mþn., nokkuð ítarlegar skýringar ein­mitt á efni þessarar greinar. En auðvitað eiga þær ekki fyllilega við hana vegna þess að frv. er ekki flutt í því formi sem n. útbjó það. En mér sýnist þó að þessar skýringar eigi í raun og veru fyllilega við greinina að undanskildum tveimur atriðum sem eiga ekki við hana vegna þess einfaldlega að þau atriði, sem þar eru talin, eru ekki í verkahring leiklistarráðsins eins og frv. gerir ráð fyrir honum. Ég álít að 4. gr. væri orðin ansi kollótt, ef það væri fellt niður að leiklistarráð skuli vera vettvangur skoðanaskipta og umr. um leiklistarmál. Aftur á móti verð ég að játa að mér hefur verið bent á, að þetta hefði mátt orða öðruvísi og þessi „skoðanaskipti“ kunni kannske að orka tvímælis. En þessi skolli er kominn inn í málið og er mikið notað og vita raunar allir hvað við er átt þegar talað er um að skiptast á skoðunum og skoðanaskipti. Þá eiga menn við það að ræða málin, en ekki beinlínis að færa skoðanir frá einum manni til annars. Það hefði mátt orða þetta betur, en þetta er komið inn í málið og ég veit ekki hvort það skiptir miklu máli. En mér finnst, að það megi ekki vanta, að leiklistarráð eigi að vera vettvangur umr. um leiklistarmál. Það er náttúrlega meginhlutverk ráðsins að leiða saman menn úr áhugaliði leiklistarinnar til þess að gefa þeim tækifæri til þess að ræða þessi mál. En raunar kom hv. 1. flm. ekki inn á þetta atriði, en mér hefur verið bent á þetta orð.

En aftur á móti þetta efnislega atriði sem hv. 1. flm. minntist á, að ráðið skuli stuðla að stefnumótun, þá vil ég taka það skýrt fram, að hvorki fyrir mér né heldur þeim starfsmanni rn., sem stýrði því nefndarstarfi sem var undanfari þessa frv., vakir á nokkurn hátt að hér sé um það að ræða að móta eins konar bókmenntastefnu í leik­listarbókmenntum. Því fer víðs fjarri. Það, sem fyrir okkur vakir, er eingöngu ytri stefnumótun, ef svo mætti segja, og raunar er nú aðeins talað um að stuðla að. En hvað um það, það er ytri stefnumótun. Og dæmi get ég nefnt hvað fyrir mér vakir og raunar einnig n., því að það kemur fram í aths. á fskj., aths. við gr. eins og n. hugs­aði sér hana, en við eigum þarna við skipulagningu á hlutum eins og samstarfi leikfélaga, leik­húsa og skóla, eins og kynningu leiklistar í fjöl­miðlum, t. d. stuðla að kynningu á íslenskum leikbókmenntum, einnig að fylgjast með menntun leiklistarfólksins. Leiklistarskóli ríkisins er al­veg nýr, og má segja að þetta nám sé í mótun, bæði grunnmenntun, framhaldsmenntun og endurmenntun o. s. frv., o. s. frv. Ég vildi nefna þessi dæmi um atriði sem ég álít að til greina komi undir þessum lið.

Ég hefði nú viljað fara fram á það við hv. flm. að þeir að fengnum þessum upplýsingum um hvað fyrir mér vakir og nánast yfirlýsingu um það, að ekki er á nokkurn hátt stefnt að því að fara að móta bókmenntastefnu á sviði leiklistarbókmennta, þá hefði ég viljað fara fram á að hv. þm. drægju þessa till. til baka. Það eru auðvitað aðeins vinsamleg tilmæli, en annars, eins og fram hefur komið í þeim orðum sem ég hef hér sagt, þá er ég andvígur þessari till.