02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3197)

21. mál, leiklistarlög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Út af seinustu orðum hv. þm. vil ég leyfa mér að taka fram, að fyrst allir í þjóðfélaginu eru als stað­ar að ræða um leiklistarmál hvort sem er, þá finnst mér engu muna þótt það sé í lög leitt að stofnun, sem heitir leiklistarráð, fái í friði að hafa uppi umr. um leiklistarmál, þó að það fari ekki að hafa með höndum stefnumótun í leiklistarmálum fyrir okkur öll hin, það er annað mál.

En satt að segja bað ég um orðið vegna þess, að mér rann svo til rifja hvað hv. þm. var alvöruþrunginn og áhyggjufullur þegar hann sagði, að í þessu þjóðfélagi væri alls staðar verið að ræða um leiklistarmál, og spurði, hvað væri eiginlega að gerast. Ég varð líka dálítið áhyggjufull honum til samlætis og hélt að hann mundi segja næst: Er það virkilega svo, að nú sé að því komið að þessi þjóð biðji aðeins um brauð og leiki? Síðan fór hann að vitna til fornsagna okk­ar og fann þá skýringu á þessu, að sögurnar væru svo leikrænar að fyrrum hefði hver baðstofa verið leikhús. Ég verð nú að segja að ekki þarf að leita til fornra sagna til þess að finna að hver baðstofa sé leikhús. Ég held að svo sé á hverju heimili. Hvert hús er með nokkrum hætti leikhús, og þinghús er líka leikhús. Og svo að við vitnum til þess leikritaskálds sem hefur notið einna mestra vinsælda á leiksviði í Reykjavík í vetur fyrir utan hv. 5. þm. Vesturl., þá minnir mig að það leikritaskáld hafi mælt, að allt lífið væri leiksvið og allir mennirnir. (Gripið fram í.) Það er nú einmitt Shakespeare, sem ég er að vitna til, hv. þm., vitaskuld. En ég tók fram: það leikritaskáld sem mestra vin­sælda hefur notið í Reykjavík fyrir utan hv. 5. þm. Vesturl. En ég þurfti vitanlega ekki að taka fram að það var sjálfur Shakespeare, svo að það eru nokkrar aldir síðan þessi uppgötvun var gerð sem hv. þm. var nú að leiða okkur fyrir sjónir. Og það er rétt að þetta er ákaflega ríkt í fari íslendinga. En ég held að það sé andstætt því, sem íslendingum fellur í geð, að kjósa sér­stakt ráð, tilnefnt af ýmsum aðilum og skipað af viðkomandi ráðh. í það og það skiptið, og að slíkt sérstakt ráð sjái um stefnumótun í leik­listarmálum, enda legg ég til að það atriði verði úr greininni fellt.