02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

21. mál, leiklistarlög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér heyrist á þessum umr. að menn leggi allir sama skilning í orðið „stefnumótun“ í 4. gr., þ. e. a. s. lið I, sem hér er helst til umr. Ég tek undir með þeim sem lýst hafa nokkurri tortryggni gagnvart þessu orði: Reyndar er ég þeirrar skoðunar, að þetta orð, „stefna“ í leikhúsi, sé eitt af þeim tísku­orðum sem mönnum láist oft að skilgreina. Það verður stundum upphlaup í blöðum út af leik­húsunum okkar, atvinnuleikhúsunum, sem eru ríkisstyrkt og styrkt af Reykjavíkurborg, svo að menn þykjast ýmislegt mega um rekstur þeirra segja. Það verður stundum upphlaup út af því að ekki sé nógu ákveðin stefna í leikhúsunum. Ég verð að segja fyrir mig, að þó að ég hafi fylgst töluvert með leikhúsmálum, þá hef ég aldrei áttað mig á því hvað þetta fólk á við, hvað sé „stefna“ í leikhúsi. Og ég er viss um að það eru ekki margir hér í salnum sem átta sig á þessu. Krafa um ákveðna „stefnu“, merkir hún t. d. að það eigi bara að sýna eina tegund leik­rita, — leikrit sem geri fólk alvarlegra heldur en það er þegar það kemur inn í leikhúsið, eða þá leikrit sem geri það glaðara þegar það fer út aftur? Stefna gæti það líka verið að sýna ekkert annað en leikrit sem enginn vill sjá. Þá væri greinilega stefnan sú að koma leikhúsinu á hausinn.

Þetta orð hefur yfirleitt enga ákveðna merkingu og ég held allra síst í hugum þess fólks sem mest brúkar orðið. Á þetta að vera einhver pólitísk stefna? Hvorki til hægri né til vinstri heyri ég það játað. Stundum heyrir maður að leikhús eigi að hjálpa okkur til að skilja okkur sjálf, að hjálpa okkur til að skilja okkur sjálf ekki náungann. Enn einn frasinn sem aldrei er skilgreindur.

Svona mætti lengi rekja dæmin um það glamur sem sýnkt og heilagt kveður við í sambandi við leikhús, eins og raunar yfirleitt allar listir hér uppi á þessu landi. Megnið af því spakvitringa­rausi er innihaldslaust glamur, til þess fram sett að vekja athygli á þeim sem setur það fram.

Ég harma þetta vegna þess að hér er þrátt fyrir allt mikið af einlægum áhuga á leikhúsi. En hér er — í blöðum og öðrum fjölmiðlum yfirleitt fjallað um leikhús undir sömu formerkjum eins og skrifað er um leikhús úti í heimi, og margir spakvitringarnir gera sömu kröfur um leikritaval og gerðar eru úti í heimi, úti í hinum stóru borgum, þar sem aðeins örlítið brot af íbúunum sækir leikhús. Ef við tökum t. d. Lundúnaborg, sem fræg er fyrir sín leikhús, þá sést að ekki nema örlítið brot af lundúnabúum fer yfirleitt í leikhús. Lundúnabúar eru sem sé álíka á vegi staddir menningarlega hvað þetta snertir eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson. Og af þessu fólki er ekki nema örlítið brot sem við mundum nefna alþýðu.

Fyrir nokkrum árum hitti ég aðstoðarleikhússtjóra Þjóðleikhússins breska úti í Dyflinni, Peter Hall held ég að hann heiti eða Peter Brook. Ég var að segja mönnum frá því, hvernig það væri hjá okkur, að t. d. í Þjóðleikhúsi okkar væru heilar sýningar stundum keyptar upp af verkalýðsfélögum. Þetta voru mestu tíðindi sem þessi maður heyrði á þessari leiklistarráðstefnu. Hann talaði mikið við mig á eftir og spurði hvernig við færum að þessu. Ég sagðist ekkert svar hafa við því frekar en öðrum sjálfsögðum hlutum. Þetta væri alveg sjálfsagt og eðlilegt hér uppi, að alþýða manna tæki þátt í leikhúsi, sýndi því áhuga. Hann sagðist hafa barist við það í þau tvö ár, hann var búinn að vera við þjóðleikhús Breta, að hækka prósentu þeirra sem hann nefndi ,,manual workers“ — það eru verkamenn og iðnaðarmenn — og þegar hann kom í þessa stöðu var prósentan einn — 1% af leikhúsgestum breska þjóðleikhússins voru „manual workers“. Hitt var yfirstétt samkv. gamalli marxískri skilgreiningu. Alþýða manna kom þarna hvergi nærri. Honum hafði tekist það — og var nokkuð hreykinn af — að hækka þessa prósentu upp í 1.5.

Okkar íslenska leikhús, hvort heldur er lítið til atvinnuleikhúsa eða áhugaleikhúsanna, það er leikhús alþýðu, þjóðin öll tekur hátt í þessu. Það er eitt af því sem má vera okkur til hressingar þegar við hugleiðum ástandið í þessu landi okkar, að þarna er engin stéttaskipting. En skrifin hér hjá okkur um leikhús, þau eru tillærð í þessum stóru borgum. Skrif þessi einkennast af sömu formúlunum og skrif um leik­hús úti í hinum stóru borgum. Þessir „skribentar“ heimta sama leikritaval. Þess vegna varð t. d. þessi rimma núna nýlega út af uppsetningunni á einu leikriti Shakespeares í Þjóðleikhúsinu. Hún var fyrst og fremst út af því, að þarna fékk að ráða maður sem kemur frá hinni stóru London þar sem leikhúsgestir, — þessi yfirstétt sem stundar leikhúsin þar, — orðnir dauðþreyttir á gömlu uppfærslunni á gamla Shakespeare. Þetta fólk er búið að horfa á Shakespeare kynslóð eftir kynslóð og heimtar alltaf eitthvað nýtt í upp­setningu. Við erum hins vegar núna fyrst að kynnast Shakespeare. Og Helgi Hálfdanarson bendir réttilega á að það er ekki þetta sem okkur vantar hér. Við erum ekkert orðin þreytt á leik­húsi, við erum fyrst núna að komast í leikhús. Þess vegna er öll þessi fjöruga starfsemi og öll þessi gleði í kringum leikhús. Þessi þjóð fær loksins núna tækifæri til að njóta þessa og gerir það öll, en ekki aðeins einhver sérstakur hluti hennar.

Og þá kemur aftur að orðinu „stefnumótun“. Ef þetta orð merkir það að fjalla um hvernig haga skuli aðstoð við leiklistarstarfsemi, þá er það gott. Ég tala nú ekki um ef það kæmi meiri skilningur á þeirri starfsemi sem á sér stað víðs vegar úti um landsbyggðina, þ. e. a. s. áhuga­starfinu. En því miður fer því víðs fjarri að af hálfu löggjafans eða fjárveitingavaldsins hafi komið fram réttur skilningur á því stórkostlega starfi. Ég vil ekki draga úr fjárveitingum til atvinnuleikhúsanna. En starfsemi áhugaleikhús­anna er ekki síður mikilvæg fyrir menningu þessarar þjóðar. Ég vitna til þess sem ég spáði áðan um stórvirki framtíðarinnar. Þau stórvirki munu vaxa úr jarðvegi áhugaleikhúsanna ekki síður en atvinnuleikhúsanna. Bandalag ísl. leik­félaga, stjórn þess er að mínum dómi ekkert þýðingarminna starf en stjórn þjóðleikhúss íslendinga. Í raun og veru eigum við tvö þjóðleikhús, annað hér við Hverfisgötuna, hitt víðs vegar úti um land.

Ég hef að undanförnu verið tíður gestur í samkomuhúsi, leikhúsi hérna á Suðurnesjum, þar sem ekki komast fyrir nema 120 manns, gömlu húsi. En sem leikhús er það til fyrir­myndar. Ég tala nú ekki um hvað áhorfendur eru þar til fyrirmyndar svo og áhugi þess fólks sem tekur þátt í leiksýningunum. Ef stefnu­mótunin merkir að auka aðstoðina við þessa starfsemi, þessa gríðarlegu þýðingarmiklu starfsemi, þessa starfsemi sem er að mínum dómi meginhátturinn í menningarviðleitni íslendinga í dag, ef „stefnumótun“ lofar einhverju um þetta, þá læt ég þetta orð eiga sig. (Gripið fram í: Þú lofar engu um það.) Ég viðurkenni að þetta orð mætti túlka í anda mannsins sem kom frá London og sagði okkur alla spekina um hina kynferðislegu söguskoðun og Shakespeare. Annar gæti heimtað að eingöngu væru sýnd „vanda­málaleikritin“ svonefndu. Kannske leysa þau sum einhvern vanda. En mikið finnst mér stundum vanta í þau einlægnina. Höfundar sviðsetja mannúð sína, samúð sína með þessu og hinu, eru þar með kvittir við samvisku sína. Mér kemur í hug saga um frægan höfund sem skrifaði leikrit um gamalt fólk og hlutskipti þess í nútímaþjóðfélagi, átakanlegt leikrit, og höfundurinn fékk mikið hrós fyrir það, hvað hann sýndi gamla fólkinu mikla samúð, mikinn skilning. En það sannaðist á höfundinn að hann átti gamla ömmu á elliheimili og hafði ekki heimsótt hana í ein fimm skipti.

Ég er feginn því að hafa fengið þetta tækifæri til að koma á framfæri þessum sjónarmiðum mínum. Ég vek athygli á því og ítreka það enn, að kjarninn í menningarviðleitni þessarar þjóðar núna er leikhússtarfsemi og ekki hvað síst áhugaleikhúsið. Og þetta ber að styðja eins og mögulegt er. Þetta er hollt. Þetta er gott. Og ef frvgr. sem við erum hér að tala um, gæti orðið til að styðja betur áhugaleikhússtarfið, en án þess þó að draga úr starfsemi atvinnuleik­húsanna, og ef það, sem ég hef hér sagt, gæti aukið eitthvað skilning manna á þessu, þá tel ég að ég hafi ekki farið erindisleysu upp í ræðu­stólinn í þetta sinn.