02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4164 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

18. mál, skylduskil til safna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, taldi að tillöguflutningur minn í sambandi við þetta mál væri á misskilningi byggður. Ég held að ef nokkur maður hefur misskilið það sem ég er að fara og meina, þá sé það þessi hv. hm., en ég misskilji ekki frv. eða tilgang þess. Hann byggir afstöðu sína á því fyrst og fremst, að það sé verið að taka þarna rétt af hinum þremur söfnum sem eru tilgreind í frv. Það er langt frá því að ég sé að leggja til að nokkur réttur verði tekinn af þeim söfnum. Ég er aðeins að leggja til að fleiri en þessi söfn, sem eru tilgreind, fái sama rétt. Hví í ósköpunum, þó að eitt safn sé búið að hafa þennan rétt einhvern tíma umfram aðra, má ekki leiðrétta það? Ég segi: Þetta á að leiðrétta og þetta er hægt að gera innan ramma frv. án þess að hreyfa það nokkurn skapaðan hlut meira. Ég tel það hreina meinbægni og alveg furðulega meinbægni hjá hv. formanni menntmn. að vera með slíka túlkun hér á málinu.

Í 13. gr., eins og hún nú er orðin, segir að þeir útgefendur og stofnanir, félög og einstak­lingar, sem njóta styrks af almannafé til útgáfu á ritum, skuli afhenda Landsbókasafni ókeypis allt að tíu eintökum. Það þýðir, ef við höldum okkur að frv. eins og það er og eins og hv. formaður menntmn. leggur til, að tekin verða til varðveislu fjögur eintök. Í Landsbókasafni eiga að liggja sex eintök — og til hvers? Það getur vel verið að einhverjir haldi því fram, að það þurfi að liggja sex eintök umfram það eina ein­tak sem það fær. Ef till. mín verður samþykkt, þá liggja fyrir í bókasafninu, þrátt fyrir það að ekki verði fjölgað skilaskyldunni til þess, þrjú eintök umfram þau eintök sem eru ákveðin sérstaklega í lögunum. Hvað er það betra að láta þessi eintök liggja þar, kannske lítið eða ekki notuð og kannske rykfalla, heldur en dreifa þeim um landið til annarra bókasafna? Það er fólk víðar en í Reykjavík sem kannske vill fletta þessum ritum upp, og það fólk úti á landi á nákvæmlega sama rétt á því eins og þeir sem sækja Landsbókasafnið. Fyrst verið er að dreifa út slíkum ritum ókeypis, þá eiga þessi söfn úti á landi alveg eins rétt á því og fólkið á alveg eins rétt á því og þeir sem búa í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði.

Ég segi: Þetta er misrétti, það er verið að beita beinu misrétti, og mér þykir það leitt með hv. formann menntmn., sem búsettur er á Akur­eyri, að hann skuli halda því stíft fram, að þó að bókasafnið í hans héraði hafi haft einhver forréttindi, þá skuli þið halda þeim, en megi ekki veita öðrum sama rétt og þetta safn er búið að hafa, að hann segir, í 90 ár. Ég vil benda á það á móti, að það er t. d. með sama rétti hægt að segja að það sé búið að svipta Bóka­safnið í Vestmannaeyjum í 115 ár þessum rétti. Bókasafnið þar er 115 ára gamalt, hefur starfað óslitið allan tímann síðan 1862, og ef einhver söfn eiga sérstakan rétt, þá á auðvitað þetta bókasafn í Vestmannaeyjum nákvæmlega sama rétt og hin söfnin sem tilgreind eru í lögunum. Það er ekki lagt til í brtt. að beita neinu mis­rétti, ekki taka rétt af öðrum og ekki að þyngja skyldukvöðina að neinu leyti. Í till. segir aðeins, að það skuli tekin þrjú eintök úr Landsbókasafni, þá verða fjögur eftir, og þeim skuli dreift til fólksins í landinu til afnota fyrir þá sem það vilja notfæra sér. Mér finnst alveg furðu­legt að hv. 1. þm. Norðurl. e., formaður menntmn., skuli ekki geta skilið jafneinfalda hluti og þetta. Maður hlýtur að vera undrandi yfir að þurfa að koma í ræðustólinn hvað eftir annað til þess að leiða hann í þennan einfalda sannleika, að láta ekki þessi eintök liggja ónotuð og rykfallin í Landsbókasafninu, heldur láta fólkið úti á landi á þessum tilgreindu stöðum, fá afnotarétt af heim.

Ég þarf ekki að tala um þetta lengra mál. Ég sagði, þegar frv. kom aftur breytt bæði að formi til og að mörgu leyti efnislega, að ég teldi þessa till. mína vera leiðréttingu, sagðist telja hana vera einfalda leiðréttingu á svo sjálfsögðu máli eins og það er að vera ekki að mismuna söfnum úti á landi, vera ekki að mismuna landsmönnum. Fyrst skylduskilarétturinn er fyrir hendi, þá á hann auðvitað að ná sem víðast um landið. Það á að dreifa þessum 10 eintökum sem víðast um landið og ekki vera að mismuna landsmönnum, af því að það er alls ekkert við að gera að halda sex eintökum í Landsbókasafninu. Við vitum öll hvernig um þau fer.

Ég vona sannarlega að hv. þm. skilji þetta, svona einfalt mál, þó að mér sé ómögulegt að koma hv. þm. formanni menntmn. í skilning um þetta. Og ég endurtek: Ég er ekki að gera nokkra tilraun til að taka nokkurn rétt af þeim söfnum sem áður hafa haft hann. Þau hafa hann fram­vegis. Ég er aðeins að koma með leiðréttingu, að þau söfn, sem áður hafa verið svipt þessum rétti og eiga kannske alveg eins mikinn rétt og bókasöfnin sem tilgreind eru, fái þennan rétt núna þegar verið er að breyta lögunum. Mér finnst það ósköp eðlilegt og sjálfsagt þegar hægt er að gera það án þess að íþyngja útgefendum nokkuð umfram það sem lögin annars gera ráð fyrir.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta meira, en vonast til þess og á ákaflega bágt með að trúa öðru en þm. vilji fallast á jafneinfalda till. og hér er flutt til leiðréttingar á frv. eins og það er.